18.12.1982
Sameinað þing: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

157. mál, frestun á fundum Alþingis

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Tímabundið hlé er hægt að gera á störfum Alþingis með tvennum hætti:

1. Alþingi samþykki þáltill. þar um, eins og hæstv. forsrh. hefur nú lagt til að gert verði.

2. Einnig er hægt að gera hlé á fundarstörfum þannig að í lok þingfundar fyrir jólin tilkynni forseti einfaldlega að næsti fundur verði ekki boðaður aftur fyrr en eftir tiltekinn tíma, sem hann nefnir.

Þannig er hægt að gera hlé á störfum Alþingis allt frá fáum dögum upp í nokkrar vikur. Síðast var hlé á störfum Alþingis gert með þeim hætti veturinn 1971–1972. Var þá hlé á störfum Alþingis um jólaleytið gert með slíkum hætti og stóð það hlé í 5 vikur.

Munurinn á þessu, annars vegar á því hvort hlé er gert á störfum Alþingis með þessum hætti eða hvort hlé er gert á störfum Alþingis með samþykkt þáltill. þar um, er tvíþættur:

Ef hlé er gert án þess að samþykkja þáltill. þar um getur forseti Alþingis kallað saman þingfund fyrr en ráð var fyrir gert í upphafi þingfundahlés, ef bráðan vanda ber að á meðan þingið er í leyfi. Ef, t.d. væri með þessum hætti ráðgert hlé til 17. jan. gæti hæstv. forseti þingsins kallað saman þingfund hvenær sem væri á þeim tíma án þess að þurfa að leita atbeina annarra. Sé hins vegar samþykkt þinghlé með ályktun Alþingis er það ekki lengur á valdi forseta þingsins að boða þingfund að nýju, heldur er það vald komið í hendur forsrh. formlega, þó svo að til þess þurfi forsetabréf. Þetta er annar munurinn á þessum tveimur aðferðum.

Hinn munurinn er sá, að ef hlé er gert á störfum Alþingis án þess að samþykkja þáltill. þar um hefur ríkisstj. ekki brbl.-vald á meðan á hléi stendur. Ef hins vegar er samþykkt þáltill. um frestun á fundum Alþingis er verið að samþykk ja brbl.-vald í hendur hæstv. ríkisstj. og hvorki forseti þingsins né þm. sjálfir geta beitt sér fyrir því að Alþingi komi saman þó bráðan vanda beri að höndum á frestunartímabilinu.

Till. sú sem hér er til umfjöllunar frá hæstv. forsrh. fjallar því ekki um að fresta fundum Alþingis yfir jólin. Slíkt er hægt að gera án þess að samþykkja slíka till. Till. fjallar aðeins um tvennt:

1. Að Alþingi afsali sér löggjafarvaldinu í hendur ríkisstj. á næstu vikum.

2. Að forsetar Alþingis og alþingismenn afsali sér því valdi sem þeir ella hafa til þess að kalla Alþingi saman til fundar ef bráðan vanda ber að höndum.

ríkisstj. sem nú óskar eftir því að Alþingi afhendi henni löggjafarvald sitt hefur misst þingmeirihluta sinn sem hún hafði í báðum deildum. Sú ríkisstj. kemur ekki lagafrv. í gegn. Hæstv. ríkisstj. óskar eftir því að fá vald sem hana brestur hér á Alþingi. Slíkt er ekki verjandi við þær aðstæður sem nú ríkja. Þess vegna mun þingflokkur Alþfl. greiða atkvæði gegn till. um frestun á fundum Alþingis, sem er í raun till. um að ríkisstj. fái í hendur löggjafarvald sem hún nýtur ekki lengur í krafti þingmeirihluta á Alþingi.

Sú yfirlýsing, sem forsrh. gaf hér áðan, er athyglisverð vegna ýmissa hluta, eins og nefnt var áðan, en hún breytir engu um þá staðreynd, að samþykki Alþingi þá till. sem hér er um að ræða er Alþingi að afhenda ríkisstj. löggjafarvald sem er ekki í hennar höndum meðan Alþingi situr. En það er einnig annað sem vakir í málinu.

Það hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. að hann á von á að það þurfi að leysa aðkallandi og erfið vandamál í tengslum við fiskverðsákvörðun nú um áramótin. Í því sambandi er opinskátt farið að ræða um það í blöðum að þá muni til þurfa að koma m.a. 12–15% lækkun á gengi íslensku krónunnar. Það sem menn eru þar að ræða um er sama aðgerð og ríkisstj. greip til áður en hún setti brbl. sín í ágústmánuði s.l. Sú aðgerð mun um n.k. áramót, eins og í haust, valda 80–100% verðbólgu næstu 12 mánuði. M.ö.o. liggur það fyrir nú, þegar hæstv. ríkisstj. óskar eftir því að Alþingi afsali sér völdum sínum í hennar hendur, að áhrifin af brbl.-setningunni frá því í ágúst s.l. eru runnin út í sandinn. Sú fórn, sem launafólk er að færa nú í desembermánuði með lækkun launa, er unnin fyrir gýg.

Herra forseti. Það er við þessar aðstæður sem hæstv. ríkisstj. óskar eftir því að Alþingi afsali sér löggjafarvaldi sínu í hennar hendur til þess væntanlega að hún geti gripið til svipaðra aðgerða um næstkomandi áramót án þess að þurfa í fyrsta lagi að fá samþykki Alþingis fyrir þeim ráðstöfunum, í öðru lagi að fá samþykki stjórnarandstöðu fyrir þeim ráðstöfunum og í þriðja lagi að fá formlegt samþykki sinna eigin stuðningsmanna fyrir slíkum aðgerðum. Það verður athyglisvert að gefa því gaum í atkvæðagreiðslunni hér á eftir hvaða þm. ætla að veita hæstv. ráðh. löggjafarvald við þessar aðstæður.