18.12.1982
Sameinað þing: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

157. mál, frestun á fundum Alþingis

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar Alþingi hefur afgreitt þá till. sem hér er til umr. og þingið hefur lokið við að kjósa í þær nefndir og stjórnir sem fyrirhugað er að kjósa í eigum við alþingismenn eftir að greiða m.a. atkvæði um till. um hækkanir á fjárlögum, sem hafa orðið á milli umræðna, sem nema um 80 til 90 millj. kr. Við eigum eftir að greiða atkvæði um heimildir til að taka erlend lán og til að veita ríkisábyrgðir og ábyrgjast lán fyrir u.þ.b. 1 milljarð kr. Er gullskipið ekki í þeirri tölu.

Hæstv. forsrh. sagði í sinni framsöguræðu eitthvað á þá leið, að ekki væri gert ráð fyrir sérstökum vandamálum, nema e.t.v. ákvörðuninni um fiskverð. Ég tel nauðsynlegt að áður en við skiljum verði komið nokkuð inn á það vandamál sem blasir við í okkar sjávarútvegsmálum. Þessi mál hafa verið harla lítið rædd að undanförnu og tel ég rétt áður en þessi till. verður afgreidd, vegna þess að hæstv. sjútvrh. er nú á meðal vor, að hann gefi okkur þm. einhverjar upplýsingar aðrar en þær að haft verði samráð við stjórnarandstöðuna á þessu tímabili, sem okkur er falið að vera fjarri ákvörðunum, jafnvel um setningu laga sem varða undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.

Það er ennþá setið við ákvörðun fiskverðs, sem í sjálfu sér er kannske ekki mesta stórverkefnið, ef staðreyndir lægju fyrir, sem þeir sem þar um fjalla þurfa að byggja sínar ákvarðanir á. Það er, að mér skilst, beðið eftir gögnum frá fiskvinnslunni. Það eru margir sem telja að staða frystingar sé viðunandi og í heildina hafi fiskvinnslan hagnast lítillega, en þrátt fyrir það séu ekki möguleikar til neinnar fiskverðshækkunar ef sú hækkun á að koma frá fiskvinnslunni sjálfri. Aðrir segja, og um þetta höfum við ekki fengið neina vitneskju hér á Alþingi, að fiskvinnsluna vanti töluvert á svo að staða hennar sé viðunanleg. Sjómenn og útvegsmenn bera vaxandi ugg í brjósti vegna samsetningar aflans, vegna þess að meira er af smáfiski og millifiski í aflanum. Ef ‘76-árgangurinn af þorskinum lætur ekki sjá sig eða ekki verður vart við hann á komandi vertíð telja þeir sem best til þekkja að það sé vart hægt að búast við honum lengur, hvað svo sem veldur. Þá geta allir gert sér hugmynd um hvernig íslenska þjóðin stendur.

Söluhorfur eða sala ýmissa sjávarafurða hafa aldrei verið í meiri óvissu en nú. Það eru fréttir að berast á milli manna hér í baksölum um að þeir sem mest og best vit hafa á sölu frosinna fiskafurða í Bandaríkjunum telji skýlausa nauðsyn á því að hvalveiðar okkar Íslendinga verði lagðar niður svo að sölu okkar þar á freðfiski verði ekki stefnt í voða. Enn hefur Alþingi engar upplýsingar fengið frá hæstv. ríkisstj. um þetta mál eða hvað hún hyggst gera í sambandi við hvalveiðarnar okkar. Ekki er mér kunnugt um neinar ráðstafanir sem ríkisstj. hyggst gera í þeim efnum. Okkur er tjáð einnig í hliðarsölum að það sé mikið óselt af skreið frá árinu 1981 og nær öll framleiðsla yfirstandandi árs. Ekki er mér kunnugt um hvað ríkisstj. hefur gert til þess að auka sölu á þessari þýðingarmiklu afurð fyrir okkur. Hins vegar veit ég að skreiðarkaupmenn frá Nígeríu, sem reyndu að komast til landsins í gær eða fyrradag, komust ekki og sneru þá til Noregs og segja að það sé til nóg skreið þar. Áhuginn var ekki meiri hjá stjórnvöldum að koma þeim til landsins heldur en það. Við vitum einnig að ef ekki verður hægt að verka í skreið á komandi vertíð verðum við í stórvandræðum með sölu á þeim smáfiski sem við munum afla og þeim fiski sem lendir í úrgangsflokkum eða lélegri flokkum, sem við höfum notað til skreiðarverkunar til þessa.

Hér var vitnað af hæstv. síðasta ræðumanni nokkuð í stöðu útgerðar, hvernig hún hefur verið túlkuð í fjölmiðlum síðustu daga, og satt að segja hafa þær fréttir skotið mörgum skelk í bringu þótt hæstv. forsrh. telji þetta ekki mikið vandamál eða kannske bara einangrað vandamál sem eigi að ráða fram úr með brbl.

Þessi saga er ekki öll sögð í þeim fréttum sem við höfum verið að lesa. Morgunblaðið hefur skýrt frá því, að tap útgerðar væri hátt í 600 millj. kr., en inn í það dæmi vantar togaraflotann og um 100 vélbáta, þar af um 52 loðnubáta, sem eru með hvað versta útkomu. Ef miðað er við þær ráðstafanir sem gerðar voru í september til bjargar útgerðinni, en þar var um að ræða 60 millj. kr. frá september til áramóta, sem þegar eru uppurnar, þá vantar 250 millj. kr. miðað við sömu ástæður, ef miðað er við allt næsta ár miðað við sama verðmæti. Útgerðarmenn fullyrða að þrátt fyrir fiskverðshækkun 1. des. s.l. sé staða útgerðar lakari en fyrir stöðvun flotans í byrjun september. Lög um 7% olíugjald falla úr gildi um áramótin. Um þetta hefur ekki verið rætt á Alþingi síðustu vikur. 6% niðurgreiðsla olíuverðs fellur niður um áramót. Um þetta hefur ekki heldur verið rætt síðustu daga á Alþingi. Það er talið af þeim sem til þekk ja að það muni þurfa um 26% fiskverðshækkun til þess að koma þeim hluta flotans sem við hefur verið miðað niður á svokallaðan núllpunkt. Það er ekki nema eðlilegt að menn undri þegar talað er um þetta sem lítils háttar vandamál og það sé sjálfsagt að senda þm. heim og afgreiða þau vandamál sem fram undan eru með einföldum brbl. ríkisstj. sem ekki hefur meiri hl. í Nd. Alþingis og getur ekki komið málum sínum fram þar.

Ég ætla ekki að ræða hér, enda hafa gefist tækifæri til þess og einstakir þm. hafa gert það, um hrikalega stöðu einstakra fyrirtækja innan sjávarútvegsins, enda þyrfti þá að ræða nær öll fyrirtæki landsins í öllum atvinnugreinum. Það er ekki síst þar um að ræða sjálf ríkisfyrirtækin. Við skulum líta á brtt. sem við eigum að greiða atkvæði um á eftir og skoða m.a. hag Áburðarverksmiðju ríkisins.

Það væri að sjálfsögðu full ástæða fyrir mig að taka hér upp umr. í sambandi við afgreiðslu þessa máls um tekjur þeirra sem að þessum störfum vinna, tekjur sjómanna, tekjur þeirra sem vinna við fiskvinnsluna og þann mikla samdrátt sem hefur orðið á vinnutekjum þessara aðila vegna m.a. minnkaðs afla. Við vitum líka hvernig þjónustufyrirtæki útvegsins eru stödd í dag. Þau eru komin í greiðsluþrot og það er ekki hægt að borga laun innan þessara fyrirtækja í dag.

Á síðasta sjómannasambandsþingi var m.a. samþykki till. varðandi fiskverð. Með leyfi forseta langar mig til að lesa hluta ályktunar um atvinnu- og kjaramál sem þar var samþykkt:

„13. þing Sjómannasambands Íslands bendir á að með minnkandi afla og breyttri aflasamsetningu hafa tekjur sjómanna dregist verulega saman og þeir einir þurft að bera þá byrði. Þingið bendir á að á undanförnum árum, þegar afli fór vaxandi, var fiskverð oft skert af hálfu stjórnvalda. Þingið krefst þess að skerðingin verði bætt að fullu. Einnig er það krafa þingsins að haldið verði fast við þá stefnu, sem hefur verið viðhöfð á þessu ári, að fiskverð hækki aldrei minna hverju sinni en sem nemur verðbótum á laun.“

Nú hefur Alþingi Íslendinga lokið við að samþykkja lög sem eru plástur á þá skerðingu verðbóta sem framkvæmd var með brbl. ríkisstj. fyrir skömmu. Þessi samþykkt um skerðingu verðbóta á laun er um leið skerðing á möguleika fiskimanna til að fá hækkað fiskverð. Plásturinn sem samþykktur var, ekki aðeins af stuðningsmönnum stjórnarinnar heldur einnig af þm. Alþfl., er um leið skerðing á möguleikum íslenskra fiskimanna til að fá hækkað fiskverð. Það er ekki nema von að það sé talið sjálfsagt af hæstv. ríkisstj. að senda alþm. heim í mánaðar frí, þótt báðir stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstfl. og svo hinn klofni Alþfl., séu reiðubúnir að mæta hér hinn 3. jan. til að ræða þessi vandamál.

Það er rétt, sem sagt var hér áðan, að í Dagblaðinu og Vísi í gær var skýrt frá því að líkindi væru á 15% gengisfellingu um áramót. Ég tel nauðsynlegt, áður en við ljúkum störfum okkar hér á Alþingi fyrir jól, að hæstv. ráðh., og það kannske allra frekast hæstv. sjútvrh., skýri þm. frá hvernig staða þessara mála er nú og hvort þann vanda, sem ég hef drepið á lauslega, eigi að leysa með brbl. um áramótin. — Ég veit að það er eðlilegt að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hlæi að þessum vandamálum. Þau eru líklega ekki svo mikil í hans kjördæmi. Ég sé ekki ástæðu til að fara nemum orðum um hraðvaxandi erlend lán eða viðskiptahalla í sambandi við þessi mál, heldur bið ég hæstv. ráðh. um að gefa okkur einhverjar upplýsingar um hvernig þessi mál standa. Það er ekki nóg að afgreiða málið á þann hátt að segja: Það á að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Við erum hér starfandi í sjútvn. beggja deilda úr stjórnarandstöðunni og við höfum alltaf verið reiðubúnir að mæta, þegar kallað hefur verið á okkur, með skynsamlegum fyrirvara. En það þykir ekki nóg núna. Nú á að gripa til einhverra annarra töfrabragða. Mættum við fá meira að heyra hæstv. sjútvrh.?