26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. sjútvrh. jákvæðar undirtektir við þessa till., sem hefur satt best að segja vakið meiri og víðtækari umræður en ég átti von á. Mér var kunnugt um að hæstv. ráðh. hafði nokkuð látið athuga það mál sem till. fjallar um. Ég held hins vegar að brýnt sé að sú athugun sé gerð að nýju og ekki síður að athugun á þessu máli sé stöðugt í gangi og þessir möguleikar séu kannaðir.

Ég minnist þess ekki að sagt hafi verið í þessum umræðum að stærsta og eina efnahagsvandamál Íslendinga væri of stór fiskifloti. Ég held að þar hafi verið fulldjúpt í árinni tekið hjá hæstv. ráðh. Hins vegar höfum við Alþfl.-menn margsinnis bent á að eitt af okkar vandamálum er taumlaus eða taumlítill innflutningur fiskiskipa, sem hefur verið leyfður í ráðherratíð hæstv. sjútvrh. Við höfum bent á að hann hafi skapað margvísleg vandamál. Það þýðir ekkert að standa hér í ræðustól og afneita beinhörðum tölum og segja bara: Þetta eru reikningskúnstir. Ég hélt satt að segja að það væri fyrir neðan virðingu hæstv. ráðh. að leyfa sér málflutning af því tagi. Menn verða auðvitað að taka staðreyndum þó að þær séu óskemmtilegar. En ég þakka ráðh. jákvæðar undirtektir við till.

Megintilefni þess að ég kvaddi mér hér hljóðs að nýju var þó kannske fyrst og fremst ræða sú sem hv. 4. þm. Vesturl. flutti hér áðan og nokkur ummæli sem hann lét sér um munn fara. Í fyrsta lagi að þessi till. kallaði á veiðar annarra þjóða hér við land. Það er ekkert í þessari till., ekki stafur, ekki orð, ekki setning, sem gefur tilefni til þess, ekki nokkur skapaður hlutur. Menn tala hér enn um stærð fiskiflotans. Það gerði líka hv. þm. Skúli Alexandersson og vildi nú ekki gera mikið úr því. En það er athyglisvert að bæði hann og hæstv. sjútvrh. notuðu orðin „ívið of stór, heldur stór“. Hvað er það annað en viðurkenning á því að fiskiskipaflotinn sé of stór, þegar sagt er að hann sé heldur stór, ívið stór eða eitthvað í þá áttina? Það þýðir bara á mannamáli að fiskiflotinn sé of stór, og ástæðulaust að vera að skafa neitt utan af því. En það sem mér fannst þó kannske alvarlegast og einkennilegast í þessari ræðu var það að við ættum að flytja inn fleiri Júgóslava og Araba til að vinna í fiski. Það var sagt hér úr þessum ræðustól. Þetta er alrangt. Það koma þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga á vinnumarkaðinn á hverju ári og við eigum að gera störfin bæði við fiskveiðar og fiskvinnslu aðlaðandi fyrir þetta fólk. Við eigum ekki að stefna að því að flytja inn fleiri Júgóslava og fleiri Araba til að starfa í okkar fiskiðnaði. Það er alröng stefna. Satt að segja átti ég ekki von á því, það kemur mér mjög á óvart að heyra þetta frá hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Ég vona bara að honum hafi orðið á mismæli í sinni ræðu hér áðan, vegna þess að við eigum að gera þessi störf aðlaðandi fyrir okkar fólk, við eigum ekki að stefna að því að hafa útlenda farandverkamenn sem uppistöðuna í okkar fiskiðnaði og fiskvinnslu, það er alröng og raunar hættuleg stefna. Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum að því.

Hv. þm. Skúli Alexandersson kom hér í ræðustól og nafngreindi ákveðin skip, hvort að við tillögumenn værum með í huga að það ætti að senda Skarðsvíkina á veiðar einhvers staðar við strönd Norður-Ameríku eða Vestur-Afríku. Ég á von á því að næst komi annaðhvort hann eða hv. þm. Ólafur Þórðarson og spyrji hvort við viljum ekki nafngreina menn sem eigi að senda til þessara veiða. Þetta er auðvitað svo fáránlegur og furðulegur málflutningur að það tekur engu tali. Þessi till. fjallar eingöngu um það að kanna möguleika á kaupum veiðileyfa og öflun veiðiaðstöðu fyrir íslensk skip, þetta fjallar eingöngu um það að nýta betur þau fiskiskip sem við eigum. Það er enginn að tala um að gera einhverjar ráðstafanir sem leiði til atvinnuleysis hér. Hver hefur minnst á það? Jú, hv. þm. Ólafur Þórðarson hefur minnst á það. Það dettur auðvitað engum manni slíkt í hug. Þetta er eingöngu hugsað til þess að skapa íslenskum sjómönnum og íslenskum fiskiskipaflota aukin og ný verkefni, leita á nýjar slóðir. Það viðurkenna allir að flotinn er of stór. Hann gæti nýst okkur betur. Hann gæti aflað aukinna verðmæta. Það er allt og sumt sem vakir fyrir okkur með flutningi þessarar till.