18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar fékk frv. til meðferðar í nóvembermánuði. Nefndin hefur haldið fjölmarga fundi um frv. og á þá fundi hafa komið fulltrúar frá fjölmörgum hagsmunasamtökum og stofnunum í þjóðfélaginu. Við höfum fengið ítarlegar greinargerðir og upplýsingar frá Seðlabankanum, frá Þjóðhagsstofnun, frá fjmrn., frá Fiskveiðasjóði og fjölmörgum öðrum aðilum. Það var ætlunin að afgreiða frv. frá þessari hv. deild fyrir jól, en vegna anna í þinginu og ákvarðana um að gera hlé á störfum þingsins fyrr fyrir jól en ella hafði verið ákveðið varð það að samkomulagi milli flokkanna að afgreiðsla þessa máls frá deildinni biði þangað til nú.

Frv. snertir, eins og allir vita, staðfestingu á brbl. sem ríkisstj. gaf út s.l. sumar. Ekkert mál hefur fengið jafn ítarlega umfjöllun í þjóðfélaginu og á þinginu nú í vetur eins og þetta frv. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fara að endurtaka hér í ræðustól þær fjölmörgu röksemdir og upplýsingar sem fluttar hafa verið frv. til stuðnings. Það þjónar ekki neinum sérstökum tilgangi mér vitanlega að gera það hér og nú, þar sem öllum hv. alþm. og þjóðinni allri er efni þessa frv. mjög rækilega kunnugt — og hefur reyndar verið mánuðum saman.

Þess vegna, herra forseti, legg ég til fyrir hönd meiri hl. n. að frv. verði samþykkt og því vísað til Nd. svo að hún geti tekið við að fjalla um málið.