18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég verð nú fyrst að biðjast afsökunar á því að ég tafðist við að koma til þessa fundar en vona að það komi ekki að sök.

Þegar þessi brbl. voru sett, 21. ágúst 1982, lét ríkisstj. frá sér fara yfirlýsingu um hvers vegna lögin væru sett og hvert væri markmiðið með þessari lagasetningu. Í yfirlýsingu ríkisstj. var það talið til ógnvekjandi tíðinda að viðskiptahallinn stefndi í um 3000 millj. kr. á þessu ári og ennfremur var sagt að það væri líklegt að án aðgerða yrði verðbólgan um 75% á næsta ári, eða um það leyti sem ár væri liðið frá því að lögin voru sett, þ.e. í júlí til ágúst n.k.

Markmið ríkisstj. var talið samkv. þessari yfirlýsingu af fernum toga eða eins og þar segir: „Aðgerðir ríkisstj. mótast af eftirfarandi fjórum meginmarkmiðum“ og öll hljóma þau göfuglega:

„1. Að draga verulega úr viðskiptahalla, þannig að á næstu tveimur árum megi í áföngum ná hallalausum viðskiptum við útlönd.

2. Að treysta undirstöður atvinnulífsins með aðgerðum til að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins og tryggja þannig öllum landsmönnum næga atvinnu.

3. Að verja lægstu laun eins og unnt er fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í þjóðartekjum.

4. Að veita viðnám gegn verðbólgu.“

Ég rifja það upp að ríkisstj. sagði að það teldist til alvarlegra tíðinda, og vissulega er það rétt, að verðbólgan um það leyti væri allmikil og hún stefndi í 75% á ári, að viðskiptahallinn stefndi í um 3000 millj. á árinu 1982 og það bæri nauðsyn til að draga úr honum. Þessi lög hafa fengið að halda gildi sínu. En hvert stefnir nú samkv. opinberum gögnum? Viðskiptahallinn stefnir í yfir 3000 millj. á árinu 1983, einhvers staðar á bilinu 3000–5000 millj., meiri viðskiptahalli en það sem varð ríkisstj. tilefni til þess að gripa til aðgerða. Verðbólgan stefnir í 75–81% samkv. nýjum gögnum frá Þjóðhagsstofnun, dags. 17. jan. á þessu ári. Hún stefnir á þær tölur sem ríkisstj. var að vara við og þóttist ætla að komast úr. Samkv. þessari spá verður verðbólguhraðinn 1. febr. n.k. 75%. Samkv. henni verður verðbólguhraðinn í maí kominn upp í 81%. Ef ekkert sérstakt kemur til gæti hugsanlega dregið eitthvað úr verðbólgunni síðari hluta ársins. Á ársgrundvelli eru þessar tölur fyrir maí og ágúst 73–74% samkv. þessari varfærnu spá Þjóðhagsstofnunar. Lögin hafa fengið að halda gildi sínu. Verðbólgan, sem átti að hindra, verður samt. Það verður engu að síður sú 75% verðbólga sein ríkisstj. varaði við. Viðskiptahallinn verður meiri en á árinu 1982. Þannig hefur farið um bæði fyrsta og fjórða markmiðið með þessum aðgerðum.

Í öðru lagi sagði að ætti að treysta undirstöður atvinnulífsins svo að allir hefðu fulla atvinnu. Núna eru á þriðja þús. manns atvinnulausir á Íslandi, fleiri en nokkru sinni á undanförnum árum. Fjöldi atvinnufyrirtækja hefur stöðvast og öðrum liggur við stöðvun. Ekki hefur tekist að treysta undirstöður atvinnulífsins samkv. þessu. Þvert á móti stendur atvinnulífið nú mun verr en um langan tíma og atvinnuöryggi er minna en það hefur verið í mörg ár. Þannig fór fyrir þriðja markmiðinu, sem reyndar var talið nr. 2.

Þriðja markmiðið, það sem talið var hið þriðja í röðinni, var að verja lægstu laun. Það átti að grípa til sérstakra aðgerða, svonefndra láglaunabóta. Að vísu hefur aðstoðarmaður fjmrh. lýst því yfir, að þetta hafi verið misskilningur, ekki hafi þetta nú verið láglaunabætur, því að auðvitað geti það varla talist svo þegar bæturnar eru síhækkandi með hækkandi launum. Fólks á meðal eru þetta auðvitað kallaðar hálaunabætur. Og óréttlætið í úthlutun þeirra ætti að vera öllum hv. alþm. nægilega kunnugt. Ég kann mörg dæmi um það. Ég kom t.d. á vinnustað í Hafnarfirði fyrir nokkru, þar sem tvær stúlkur sátu hlið við hlið og voru að bera saman bækur sínar. Önnur var gift skipstjóra. Hún hafði fengið láglaunabætur. Hin var einstæð móðir. Hún hafði ekki fengið láglaunabætur, hún hafði ekki nógu háar tekjur til þess, var henni sagt. Þetta er einfalt dæmi um það hvernig það markmið að verja lægstu laun, afkomu þeirra sem verst eru settir, hefur tekist samkv. þessum aðgerðum.

Fjögur markmið voru sett upp. Ekkert þeirra hefur staðist. Verðbólgan er jafnmikil og varað var við, viðskiptahallinn meiri en á árinu 1982. Það að verja lægstu laun er framkvæmt með þeim hætti að því hærri tekjur, þeim mun meiri bætur. Og þeir sem lægstar tekjurnar hafa fá auðvitað ekki neitt. Og það að treysta undirstöður atvinnulífsins hefur nú tekist þannig til, að það eru fleiri atvinnulausir á Íslandi núna en um langt árabil, á þriðja þúsund manns og fer að öllum líkindum vaxandi.

Flokksstjórn Alþfl. ræddi þessi mál á fundi í gær. Lýsti hún áhyggjum sínum yfir hinu alvarlega ástandi í atvinnumálum og hvatti til þess að stjórnmálaflokkarnir tækju saman höndum um að spyrna gegn þessari þróun og að leitað yrði ráða til þess t.d. með skipun nefndar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, sem hefði þetta eina verkefni. Ég skal ekki rekja það nánar, en það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar atvinnuleysi knýr dyra hjá fjölda fólks víðs vegar um land.

Þegar þessar ráðstafanir voru kynntar bentum við talsmenn Alþfl. á það að þær mundu ekki koma að haldi. Við bentum á það að ekki yrði langt í næstu gengisfellingu. Hefur það komið í ljós? Já. Það er búið að fella gengið einu sinni enn, næstum því jafnmikið og gert var hinn 21. ágúst. Og skriðan í verðbólgunni; í afkomu atvinnuveganna, í viðskiptahallanum heldur áfram. Þetta kemur okkur ekki á óvart. Eins og til þessa var stofnað var augljóst að þessi ráð mundu ekki koma að haldi. En ríkisstj. og talsmenn hennar máluðu upp gósenland ef þessi lög fengju að halda gildi sínu. Það átti að vera yfirgengilegt ábyrgðarleysi að hrópa ekki húrra fyrir því hvers konar fínheitaaðgerðir hér væri um að ræða. En nú tala staðreyndirnar sínu máli: í viðskiptahalla, í verðbólgu, í atvinnuleysi og í því hvernig ríkisstj. fór að því að verja þá lægst launuðu.

Staðreyndin er vitaskuld sú, að þetta eru gamalkunn ráð. Þær ráðstafanir sem í þessu frv. felast eru nákvæmlega eins og þær sem menn hafa verið að reyna á fjölmörgum undanförnum árum. Þetta er einhliða ákvörðun ríkisstj. um lækkun launa og skattahækkun og einhver tilfærsla á fjármunum í kjölfar gengisfellingar. En fyrst og fremst er þetta launalækkun. Ef við lítum yfir árangurinn af aðgerðum liðinna ára, þá sjáum við að hann er harla lítill. Hann getur ekki talist mikill þegar útkoman er 60, 70, 80% verðbólga. Það sem er sannleikurinn í þessu máli — og það sem er harðast í þessu máli er það, að þessar stöðugu bráðabirgðalausnir hafa hindrað það að menn kæmust til almennilegra verka. Þær hafa hindrað það að nokkur raunveruleg stefnubreyting ætti sér stað í stjórn efnahagsmála. Og þannig hefur einnig farið nú. Þessar aðgerðir, ef aðgerðir skyldi kalla, hafa þegar runnið út í sandinn eins og við Alþfl.-menn bentum á.

Við höfum ítrekað sagt það á undanförnum árum, Alþfl.-menn, að aðgerðir af þessu tagi væru gersamlega þýðingarlausar, þessi braut væri löngu runnin á enda. Það að hjakka í fari þessara bráðabirgðalausna gengi ekki og það hefur margsannast. Þess vegna er meginatriðið að menn láti þessu lokið, láti aðgerðum af þessu tagi lokið og stígi í þeirra stað fyrsta skrefið í átt til gerbreyttrar stefnu og stjórnunar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég skal rekja nokkur atriði varðandi það mál, atriði sem sumra hverra væri þegar hægt að grípa til. Við höfum bent á það að með breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt væri hægt að koma á afkomutryggingu fyrir þá sem verst eru settir. Í öðru lagi, með breytingum á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins ætti að stíga fyrsta skrefið í afnámi útflutningsbóta, en veita í staðinn tímabundinn framleiðslu- og framleiðnistyrk til að styrkja nýjar og ábatasamar búgreinar. Við höfum talað fyrir daufum eyrum, allt frá því að þessi ríkisstj. komst til valda, gegn því að skipastóllinn væri sífellt stækkaður og það væri gegndarlaus innflutningur á fiskiskipum. Ríkisstj. hefur víst tekið við sér í því máli, að vísu ekki með lagasetningu, eins og hefði verið eðlilegt og rétt og við Alþfl.-menn fluttum hér till. um. En ég ætla að vona að hún hafi staðið við það heit sitt, að skrúfa fyrir þennan straum. Skaðinn hefur þegar átt sér stað. Verulegan hluta af okkar vanda má rekja til þess innflutningsstraums á fiskiskipum sem ríkisstj. setti í gang. Það ætti þegar að setja lög um hvernig með slíkt mál skyldi fara.

Við höfum líka lagt til að kosin yrði nefnd á vegum Alþingis til þess að gera, í samráði við sjómenn og útvegsmenn, tillögur um veiðileyfastjórn á fiskveiðum, þannig að full og hagkvæm nýting fáist á íslenskum fiskimiðum og hagstæðustu útgerðarstaðirnir fái að njóta sín. Það stjórnkerfi sem við notumst við í fiskveiðunum hefur gengið sér til húðar. Það virðist ekki geta gengið upp öllu lengur. Þá er nauðsynlegt að aðrar stjórnunaraðferðir verði skoðaðar með opnum augum og á hlutlausan hátt, þannig að menn standi ekki ráðþrota frammi fyrir því að taka ákvörðun um það hvernig eigi að stjórna fiskveiðum við Íslandsstrendur, heldur hafi kynnt sér í staðinn kosti og galla þeirra aðferða sem farið er að tileinka sér, m.a. hjá okkar mestu samkeppnisþjóð, Kanadamönnum.

Við höfum sagt í fimmta tagi: Allt sparifé á að vera verðtryggt, og við höfum flutt um það tillögur á Alþingi, til þess að tryggja það að sparifjáreigendur séu ekki hlunnfarnir, til þess að tryggja það að þegar þeir leggja fé sitt inn í banka, þá skili bankinn þeim sömu verðmætum til baka en ekki minni verðmætum þegar þeir ætta að taka peningana út. Með því mundi skapast á ný meira framboð af lánsfé af innlendum toga. Með því mundi draga úr viðskiptahalla. En jafnframt er vitaskuld nauðsynlegt, eins og við höfum líka flutt frv. um, í fyrsta lagi að lánskjaravísitala fái ekki að virka með þeim hætti að greiðslubyrði venjulegs fólks af lánum fari langt fram úr kaupgjaldsþróun, heldur að greiðslubyrðin takmarkist við kaupgjaldsþróun, svo sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt frv. um, og í annan stað — og það er þá 6. liðurinn sem ég tel upp sem lið í efnahagsaðgerðum — að gert verði átak til þess að auka lán til unga fólksins sem þarf að eignast húsnæði. Um það höfum við líka flutt frv., bæði á þessu þingi og áður, um sérstök viðbótarlán úr bankakerfinu til langs tíma til allra þeirra sem fá húsnæðisstjórnarlán.

Það mun líka reynast nauðsynlegt — og það skal vera 7. atriðið í þessari upptalningu — að á næstu þremur árum verði ný erlend lán takmörkuð við skuldbreytingar og erlenda kostnaðarþætti arðbærra framkvæmda, en erlendar lántökur til hallærisrekstrar og til þess að standa undir ríkisrekstri og ríkisútgjöldum verði bannaðar. Með aðgerðum af þessu tagi telur Alþfl. að megi stíga fyrsta skrefið í átt til kerfisbreytingar í efnahagsmálum og breyttra stjórnarhátta. Síðan þarf að fylgja uppstokkun af svipuðu tagi og átti sér stað í íslensku efnahagslífi á árunum 1959–1960, kaflaskil. Í þeim kaflaskilum verður að felast það að menn séu ábyrgir gerða sinna, að bakreikningum verði ekki í sífellu vísað á ríkið og þaðan á skattborgarana, að verðlagsákvarðanir séu ekki teknar með tilliti til þess að þeim verði ævinlega vísað áfram í kerfinu og þær endi hjá neytendum, heldur að hver og einn sé ábyrgur, hvort heldur það eru einstaklingar, atvinnurekendur, samtök þessara aðila, sveitarfélögin eða ríkið sjálft. Í þeirri uppstokkun verður líka að felast endurskoðun á verðlagningarkerfinu á landbúnaðarafurðum og að því er varðar fiskverð. Hvor tveggja þessi kerfi hafa gengið sér til húðar. Aðstæður hafa gerbreyst frá því að þessi ákvæði voru sett á sínum tíma og það mun reynast nauðsynlegt að stokka þessa þætti upp, taka upp nýjar aðferðir við þessar verðlagsákvarðanir.

Herra forseti. Það frv. til l. til staðfestingar á brbl. sem hér liggur fyrir gerir einungis ráð fyrir kaupskerðingu hjá launafólki. Slík ráðstöfun er ósanngjörn og það hefur þegar sýnt sig að hún mun ekki skila árangri. Ekkert þeirra markmiða sem ríkisstj. setti sér hefur náðst, ekkert, ekki eitt einasta. Alþfl. er andvígur þessu frv. og þm. Alþfl. munu greiða atkv. gegn 1. gr. þess.