18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Forseti (Helgi Seljan):

Svo hafði verið ráð fyrir gert á fundi formanna þingflokka og forseta áðan, að að loknum framsöguræðum meiri hl. og beggja minni hl. hv. fjh.- og viðskn. yrði gefið kaffihlé. Það mun nú verða gert. Þá óskuðu menn eftir því að fá um leið nokkurt þingflokksfundahlé. Nú hefur þess verið farið á leit af talsmanni þingflokks Sjálfstfl. að þetta mál gangi nú til nefndar, þ.e. nú í miðri 2. umr., en auðvitað er 3. umr. einnig eftir í þessu máli.

Ég vil aðeins taka það fram áður en ég fresta nú fundi að ég óska eindregið eftir því, að það kaffihlé sem nú verður gefið verði nýtt til þess að menn geti staðið að fullu við það samkomulag sem gert var í gær um afgreiðslu þessa máls, og þá kannað hvaða leiðir væri unnt að fara til að verða að einhverju við þeirri ósk sem hér hefur fram komið. En ég tek það fram að í gær var gert um það samkomulag milli allra forseta og formanna þingflokka að þetta mál færi hér í gegn í dag, bæði 2. og 3. umr. Ég óska sem sagt eftir því að þetta fundahlé verði nýtt til þess að menn beri saman bækur sínar um það samkomulag sem gert var. Ég mælist til af eðlilegum ástæðum að við það samkomulag verði staðið, miðað við þá góðu vinnureglu sem við höfum haft hér í hv. deild um það með hvaða hætti við afgreiddum mál.