18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt var þetta mál á dagskrá þessarar hv. deildar í gær. Á fundi formanna þingflokka og forseta þingsins var hins vegar ákveðið að taka málið ekki til umr. í gær, þótt það hefði verið ætlunin, og verða við óskum sem fram komu um fundi í þingflokkum þá og reyndar ýmsa aðra fundi, sem menn þurftu að sitja, og taka jafnframt tillit til ýmissa annarra atriða sem við þurfum að hafa í huga á þessum tímum sem nú eru. Þess vegna varð það niðurstaða okkar, formanna þingflokka og forseta þingsins, að eðlilegt og nauðsynlegt væri að geta gert vinnusamkomulag um meðferð mála á þessum fundum. Ef störfin hér í þinginu eiga að geta gengið með greiðum og eðlilegum hætti, þá er nauðsynlegt að menn hafi vettvang sem þennan til að taka ákvarðanir af þessu tagi.

Nú má segja að þegar eitthvað nýtt kemur upp í meðferð mála, þá getur verið ástæða til að taka slíkt til endurskoðunar, en það hefur ekki gerst hér og nú. Þetta mál á eftir að fara til Nd., á eftir að fjalla um það þar í nefnd. Ég veit að vísu að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson ber manna mest virðingu fyrir þessari hv. deild og telur það enga afsökun fyrir meðferð mála í þessari hv. deild að mál eigi eftir að fara fyrir Nd. Ég veit því að röksemd af því tagi á ekki mikinn hljómgrunn hjá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni á grundvelli þeirrar almennu virðingar sem hann ber fyrir þessari hv. deild.

Það getur vel komið til álita að halda fund í fjh.- og viðskn. þessarar deildar í dag. Ég skal ekkert leggjast gegn því að halda slíkan fund, ef það er þá tryggt að það hafi ekki áhrif á þá vinnuniðurstöðu, sem ég tel að hafi verið samkomulag formanna þingflokka og forseta í gær, að málið yrði afgreitt frá deildinni í dag. Við gætum þá þurft að halda hér fundi í kvöld í deildinni, og það er allt í lagi. Ef óskin um fund hér er þannig til komin að menn vilja eingöngu fá einhvern stuttan tíma til að skoða einhverja afmarkaða þætti, þá er sjálfsagt að verða við því. En ef óskin er til komin vegna þess að menn ætli að fara að taka upp einhverja veigamikla þætti í málinu á nýjan leik, þá er mér nú ekki alveg ljóst hvaða þættir það eru né heldur hvað menn eru þá með í huga. Ég vil þess vegna taka undir orð hæstv. forseta um það að nauðsynlegt væri að menn notuðu þetta hlé núna til þess að ræða saman um það atriði.

Mér hefði hins vegar fundist eðlitegra að ljúka 2. umr. og ræða þá möguleikana á nefndarfundum milli 2. og 3. umr. Óskin er hins vegar um það að gera hlé á umr. núna og ræða þessi mál, og ég er fyllilega reiðubúinn til þess að skoða það, en minni hins vegar mjög eindregið á þetta vinnusamkomulag frá því í gær. Ef þingið á að geta verið sæmilega farsæll vinnustaður, þá bið ég menn um að fara ekki að taka slíka niðurstöðu upp að nýju, nema ærnar ástæður séu til, sem ég held að sé ekki í þessu tilviki.