18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við ósk hv. þm. um að gefa upplýsingar. Það sem hæstv. sjútvrh. minntist á í fjölmiðlum, sjónvarpinu var það víst, í fyrradag var það að Seðlabankinn hefur reiknað út að nýju hver gengismunurinn vegna gengisbreytingar í ágústmánuði muni verða. Þessir nýju útreikningar Seðlabankans benda til þess að gengismunurinn muni verða töluvert meiri en Seðlabankinn áætlaði þá. Þegar þetta mál er fullkannað geri ég ráð fyrir að þurfi að flytja brtt. við frv. og hæstv. sjútvrh. hefur þá gert ráð fyrir að ef það liggur fyrir endanlega við þessa útreikninga að breyta þurfi tölum í þessu frv. eða brbl., þá verði till. um það flutt í Nd. Ef sú breyting verður samþykkt þar, þá kemur málið að sjálfsögðu aftur hingað til þessarar hv. deildar.