18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að það væri tilgangslítið að bera fram spurningar til hæstv. forsrh. Ég spurði hann um það hvernig þetta mál stæði í ríkisstj., hvernig þar hefði verið um það fjallað og hvort till. kæmi fram. Hann sagði hér, eins og þið heyrðuð, hv. þm., „geri ég ráð fyrir að þurfa að flytja“ o.s.frv. Þau voru nú ekki skýr svörin úr þeirri áttinni fremur en fyrri daginn.

Hæstv. viðskrh. sagði hins vegar að ráðh. væri ekki fær um það eins og stæði að gera tillögurnar. Hann boðaði þessar till. í sjónvarpi og ég skildi hann svo að hann væri búinn að gera upp hug sinn í því og mundi flytja slíkar till. Þetta er sem sagt allt á sömu bókina lært. Það sem var allt í lagi með í fyrradag er stöðvað nú vegna þess að hvergi er samkomulag eða samstaða um eitt eða neitt í þessari ríkisstj., sem auðvitað á að segja af sér, sjá sóma sinn í því. En það er athyglisvert að þessi ríkisstj. fæst aldrei til að segja af sér. Hún getur hugsað sér að rjúfa þing til þess að styrkja sinn meiri hluta, til þess að halda þessu áfram eftir kosningar, þessum ósköpum. Því fer fólk nú bráðum að átta sig á, að það er ekki meiningin að rjúfa neitt þing til að gefa rúm til þess að mynda heiðarlega og heilbrigða ríkisstj. heldur til að framlengja líf þessarar óskapa ríkisstj., sem er áreiðanlega sú allra versta á öldinni, frá heimastjórn. Það held ég að menn séu nú yfirleitt að verða nokkuð sammála um.

En það er rétt hjá forseta að við ætlum ekki að hindra hér mál - og jafnvel að lána atkvæði stjórninni í nauðum til að klára 2. umr.