18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vonast til að þingheimur heyri hvað ég segi, þó að ég noti ekki 100 desíbela styrk, því að það er nefnilega búið að uppgötva míkrófóninn heima í Eyjum fyrir löngu.

Hv. þm. Karvel Pálmason er nýbúinn að grafa sig út úr snjósköflunum fyrir vestan og lætur illa og er feginn frelsinu eins og kálfur sem settur er út á vorin. Og hann hefur hátt, lætur illa, — en um hvað? Hann er á móti þessari lausn, sem verið er að leggja til. En ég hélt að stjórnmálamenn, ef þeir eiga skilið að heita það, mættu ekki leyfa sér að vera á móti ef þeir geta ekki bent á annað í staðinn.

Hér er mikill vandi á ferðinni. Það vantar mikla fjármuni. Olían er dýr og misdýr þó hv. aðalritari Bandalags jafnaðarmanna hafi ekki hugmynd um hverjir eyða meiri eða minni olíu. Þennan vanda þarf að leysa og til þess þarf mikla fjármuni og þessi vandi, eins og aðrir af svipuðu tagi, leysist ekki með hávaða. Það þykir sjálfsagt engum gott, sem þekkir þessa sögu, að þurfa að grípa til þess að setja á laggirnar á nýjan leik olíusjóð. Við vorum allir fegnir á sínum tíma þegar sjóðakerfið var brotið upp. Peninga þarf til, og þar er um stórar upphæðir að ræða, til þess að flotinn geti gengið. Því miður er svo ekki komið að skipaflotinn, togaraflotinn og bátaflotinn, geti drifið aflvélar sínar með hávaðanum í hv. þm. Karvel Pálmasyni. Þá gerði hann fyrst eitthvert gagn. En með þessum hávaða og þessu atferli er hann sjálfum sér til skammar og Alþingi, og þjóðin hlustar enn á Alþingi, og málflutningur af þessu tagi er þinginu til vansæmdar.

Það er hægur limur tungan, en hún skaffar ekki þá fjármuni sem þarf til að leysa þessi vandamál. Það er greinilegt að það er ekki liðinn langur tími frá því að hv. þm. Vilmundur Gylfason, aðalritari Bandalags jafnaðarmanna (Gripið fram í.) Hann er aðalritari eins og Leonid Brezhnev heitinn var. En ég held að menn, sem byrja á því að kynna málstað nýs bandalags, ættu að gera það með öðrum hætti en hann gerði, þar sem var hreinn samansetningur af innihaldslausum og ómerkum fullyrðingum og stóryrðum sem hann má þakka fyrir að þurfa ekki að endurtaka annars staðar.

Hann segir t.d., að þeir sem reka útgerðarfyrirtæki, fiskvinnslufyrirtæki í þessu landi, séu oftar en ekki óhæfir til atvinnureksturs. Þetta er býsna stór fullyrðing. Auðvitað eru menn mishæfir til þess að reka fyrirtæki eins og menn eru misjafnlega hæfir til að gera hvað sem er annað. En ég þekki marga menn og hóp af mönnum og félög, sem standa í því að draga fisk úr sjó og vinna hann og koma honum í geymslu og verðmæti og til sölu, sem leggja mikið á sig til þess að gera eins vel og þeir geta, og mjög mörg fyrirtæki eru sem betur fer í landinu vel rekin. Afurðir þeirra gefa okkur þá fjármuni sem öll þjóðin lifir á líka formaður Bandalags jafnaðarmanna og skólastrákarnir hans. Þetta er afar slæm byrjun hjá hv. nýformanni.

Út af hans munni gengu einnig orð í þá veru, að með þessu frv. væri verið að færa fjármuni frá hinum hæfa til hins óhæfa. Sá sem þarf mesta olíu til að ná í sinn fisk er oft ekki síður hæfur en sá sem þarf litla olíu á hvert tonn. Það fer allt eftir aðstæðum, eftir útgerðarháttum, eftir veiðarfærum o.s.frv. Þeir sem róa með net þurfa aðeins að eyða lítilli olíu miðað við aflamagn; skipin með litlar vélar, skammt farið og lítilli olíu eytt á meðan dregið er. En þeir sem stunda togveiðar þurfa hins vegar að draga á eftir sér þungt verkfæri, víra og hlera á alls konar botni og djúpu vatni og þurfa til þess gífurlega orku. Í tilfellum stóru togaranna eru það 3 þús. hestöfl og meira. Þessi atvinnutæki þurfa hlutfallslega miklu meiri orku. Þeir fiskimenn eru síður en svo óhæfari en aðrir. Þarna leyfir hinn nýi formaður sér að tala eins og hann hefur oft gert áður um það sem hann veit ekkert um, skilur ekki. Það er synd með svo góðan dreng, að hann skuli leggja sig niður við það að standa gapandi hér í ræðustóli um hluti sem hann veit ekkert um. Ég tel skynsamlegt að sá hv. þm. sparaði stóru orðin, einkum og sér í lagi í þeim tilfellum þegar hann veit ekki hvað hann er að tala um — og það er býsna oft.

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér til að gera aths. við hluta 2. gr. Ég mun að sjálfsögðu hafa samband við hæstv. sjútvrh. og nefna það við hann að ég vildi að þessi grein yrði skoðuð nánar. En um málið í heild vil ég fyrst segja það, að mér finnst býsna langt gengið í niðurgreiðslunni, þó vandinn sé mikill. Mér finnst býsna langt gengið að greiða niður 35% af olíu, auk þess sem hvert skip, hver útgerðarmaður, fær utan skipta 7% af aflaverðmæti í olíugjald. Það er svo nú, áður en til þessarar niðurgreiðslu kemur. Hluti flotans, bátar og jafnvel togarar í tilfellum, getur látið sér duga 7% olíugjald, — ekki til þess eins að draga úr þeirri byrði að eyða þessari dýru olíu, heldur auk þess til að borga alla olíuna með þessum peningum.

Með niðurgreiðslum hlýtur að vera hugmyndin að létta þessari byrgði af útgerðinni. En í mínum augum hefur það aldrei verið takmarkið að menn eigi ekki að borga neitt fyrir olíu. Þaðan af síður tel ég til bóta, sem hefur komið fyrir og það hjá ansi mörgum sem ég þekki, að menn hafa ekki einungis gert út á frírri olíu, heldur átt afgang og kannske keypt sér bíl fyrir eða svo.

Þegar 35% niðurgreiðsla er komin á og þetta olíugjald bætist við léttist auðvitað byrði olíukostnaðar mjög sem betur fer og er ekki vanþörf á. En það er mín skoðun, að það hafi verið gengið heldur langt í þessa átt, ekki síst vegna formsins á olíugjaldinu, og þá ætla ég að biðja menn að rugla ekki saman olíusjóði og olíugjaldi. Þar fá menn greitt eftir aflaverðmæti, hvort sem menn eyða olíu eða ekki. Menn geta nefnilega stundað sjó án þess að eyða olíu sem heitið getur, t.d. eins og í fyrrahaust, og þá á ég við haustið 1981, en þá stunduðu menn t.d. síldveiðar inni í Austfjörðum við bryggjurnar og þurftu varla að sleppa. Þeir þurftu að keyra hringinn og draga í nótina og skófla þessu kannske jafnvel beint út á bryggjuna eða dæla. Þá eyddist ekki mikil olía. En útgerðin fékk 7% af þessu aflaverðmæti til þess að kaupa olíu sem hún eyddi ekki og þurfti ekki á að halda.

Við höfum margsinnis breytt olíugjaldinu hér og í hvert skipti sem það hefur komið hér til umr. hefur verið bent á að þetta sé röng aðferð. Ekki þar fyrir að auðvitað þurfa langflestar útgerðir á þessu að halda og það miklu meira en 7% olíugjaldi, en þetta er ekki rétt leið að mínum dómi. En ég vona að menn geti gefið sér nægan tíma til að skoða þessi mál og reyna í samkomulagi við aðila að finna einhverja leið sem er bæði skynsamleg og samkomulag getur náðst um. t því efni verða allir að slaka á. Það þýðir ekki að segja eins og hv. þm. Karvel Pálmason og aðrir af þeirri gerðinni: Við viljum auðvitað fá peningana, en okkur kemur ekkert við hvaðan þeir koma. — Svoleiðis eiga menn ekki að tala.

Herra forseti. Það er 2. gr. Þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Útflutningsgjald af sölu fiskiskipa í erlendri höfn skal reiknast af brúttósöluverðmæti“ o.s.frv. Þá á að draga útflutningsgjaldið frá söluverði áður en kemur til hlutaskipta eða aflaverðlauna. Hvað er að ske í þessu? Það er tilgangurinn með því að leggja þetta útflutningsgjald á, sem ég hefði viljað kalla sérstakt olíugjald, útflutningsgjaldið, að þessir miklu fjármunir, 4% ofan á 5.5%, eru teknir í ákveðnum tilgangi til þess að greiða útgerðinni hluta af olíukostnaðinum, og það sætti ég mig við eftir atvikum. Ég treysti mér ekki til þess að verða á móti þessu. Ég sé enga ástæðu til þess. Við verðum að halda flotanum úti, en tilgangurinn er að bæta hag útgerðarinnar. En þegar skip stundar veiðar hér við land og siglir til útlanda, oftast Bretlands eða Þýskalands, þá er lagt á útgerðina 4% útflutningsgjald. Það er tekið 4% af aflaverðmætinu, sem fæst í útlöndum, — það er tekið af þeim og sett í olíusjóð. Skyldi nú ekki þetta olíugjald, sem átti að hjálpa útgerðinni, draga frá útgerðinni í þessu tilfelli. Í staðinn fyrir að auka þeim tekjur, þá er tekið af þeim. En niðurgreitt, segir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen. Þeir sem sigla til útlanda tvisvar eða þrisvar á sumri kaupa ekki niðurgreiddu olíuna sem þeir eru að greiða niður með þessu 4% útflutningsgjaldi. Þeir kaupa olíu náttúrlega í Bretlandi, því að hún er miklu ódýrari þar. Af einhverjum ástæðum eru svo ofboðslegar álögur á olíu hérna, sem er óþolandi. (Gripið fram í.) Það veit hv. 1. þm. Reykn. ekkert um. (Gripið fram í: Það stendur til.) Ég sé enga ástæðu til þess að vera að bera blak af þessum olíuburgeisum hér — eða þessum sköttum sem á olíuna eru lagðir, hver sem gerir það.

Það er einkennilegt að leggja skatta á fyrirtæki sem ríkið verður síðan að styrkja. Ég hef aldrei botnað neitt í því, hvort sem þar er um útgerðina að ræða eða t.d. Flugleiðir, sama hvað er. Við verðum að halda því gangandi líka með einhverjum ráðum þó illa gangi. En þegar skip selur afla í erlendri höfn fær það ákveðna summu fyrir sinn fisk. Af þessari summu eru tekin strax ekki 10% heldur 16% í stofnfjársjóð, —16%, 6% meira en öðrum. Það má segja að útgerðin fái þennan pening. Það leggst inn á sjóðareikninga útgerðar. En lausafjárstaðan versnar. Hún er býsna mikið vandamál í þessu snarvitlausa þjóðfélagi.

Menn hafa sætt sig við þetta, en það er fleira sem er tekið. Það eru 5% í tryggingasjóð, það er 51/2% útflutningsgjald fyrir og ef við tökum 4% sérstakt útflutningsgjald, við skulum kalla það það, sem er tekið af í sérstökum tilgangi, þá verður tekið strax af aflanum, áður en kemur til skipta milli útgerðar og manna, 30.5%, ef ég hef lagt rétt saman, auk löndunarkostnaðar.

Það er nú svo, að það eru til allmörg togskip í þessu landi sem reyna að bjarga sér, þó að þau hafi ekki nema brot af afköstum á við togara, með því að reyna að fá aðeins meira fyrir fiskinn en hér heima fæst. Þetta er nú ekki stundað nema á örfáum skipum yfir allt árið og þarna er ekki um miklar fjárhæðir að ræða, enda má líka takmarka þessar siglingar ef þær fara úr hófi. Við getum haft öll tök á því. En með þessu sérstaka olíugjaldi á þá sem ekki kaupa niðurgreiddu olíuna og þurfa að missa þarna 4% af brúttóaflaverðmæti í sjóð sem þeir brúka ekki, a.m.k. ekki meðan þeir eru í siglingunum, — nei. Og það er annað atriði. Þarna er greinilega verið að taka 4% af aflanum fram hjá skiptum í þessu tilfelli. Um það er ekki að villast.

Auðvitað má segja það eins og við sögðum hér fyrir allmörgum árum, þegar við vorum að ræða mál af svipuðu tagi, 8 árum eða 9 líklegast, að með því að taka ekkert útflutningsgjald hefði verið hægt að greiða hærra fiskverð o.s.frv. Þarna er um mjög stóran og sérstakan vanda að ræða og varla verður undan því vikist að finna á honum einhverja lausn og helst þá lausn sem flestir geta sætt sig við og lausn sem er sanngjörn og skynsamleg og kemur að sem bestum notum. Það er augljóst á þessu frv., eins og öðrum þar sem olíugjald er með, að við þurfum endilega að gefa okkur tíma til að skoða það og taka okkur þá bara eitthvað minna frí — eða þeir sem verða hér þegar það verður gert.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta lengra, en ég vildi vekja á þessu athygli og ég mun hafa samband við hæstv. ráðh. út af þessu og aðra aðila sem eru tengdir þessu máli. Og þetta kemur fyrir þá nefnd sem ég sit í og þar munum við ræða þennan þátt eins og aðra auðvitað.