18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur og lýsir algerri vanþekkingu á eðli þessara mála ef menn halda að ekki hafi komið önnur leið til greina til lausnar á fiskverði og hliðarráðstöfunum vegna þeirrar ákvörðunar en sú sem lögð er hér til. Þvert á móti, hafi menn fengið upplýsingar um þær athuganir sem fóru fram á vegum hæstv. sjútvrh. áður en ákvörðunin var tekin, hljóta menn, ef menn á annað borð hafa lesið þau gögn, að hafa gengið úr skugga um að fjölmargar aðrar ráðstafanir koma til greina sem með sama hætti hefðu greitt fyrir ákvörðun fiskverðs. Menn hljóta líka að hafa orðið þess varir, að sú ákvörðun, sem hér hefur verið tekin afstaða til í ríkisstj. að leggja fyrir Alþingi, hefur m.a. valdið því að sjómannasamtökin hafa boðað til fundar forustumanna allra aðildarsambanda til þess að ræða framtíðarsamskipti sín í Verðlagsráði sjávarútvegsins og hvaða hátt þau kunni að hafa á með óskir um breytingar á þeim reglum sem fylgt hefur verið um verðákvarðanir á sjávarafurðum.

Allt þetta hlýtur að gera það að verkum að menn, sem eru ekki þeim mun bundnari ríkisstj. eða þeim mun bundnari ákveðnum hugmyndum um kjördag, hljóta að vilja halda þannig á máli í meðferð þingsins á þessu frv. að leggja sig fram um það sjálfir, ekki láta aðra um að leita að því, hvort ekki sé möguleiki á að fá meiri frið og betra samkomulag við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um fiskverðsákvörðun en orðið hefur með þessari aðferð með einhverjum tilteknum breytingum á því frv. sem hér liggur fyrir. Vitað er t.d., eins og ég sagði áðan, að sjómenn hyggjast koma til fundar, Sjómannasamband Íslands hefur boðað til fundar út af þessu máli, og það er líka vitað að sjómenn eru það andvígir því millifærslukerfi sem hér er verið að koma á fót að það hefur áður komið í ljós að þeir eru reiðubúnir að taka á sig talsverðar byrðar til að koma í veg fyrir að út í slíkt kerfi verði farið.

Eftir þá yfirlýsingu sem fram kom hér áðan hjá hv. 4. þm. Reykv. hefði slík leið orðið næsta tilgangslítil, vegna þess að þegar liggur fyrir að þm. úr stjórnarandstöðu lýsir sig reiðubúinn að stuðla að afgreiðslu stjfrv., sem fyrir hefur verið lagt, með hjásetu. Þó svo hann hafi fyrirvara um að flytja eða fylgja einhverjum óskilgreindum brtt. liggur það auðvitað alveg ljóst fyrir að það er engin þörf á því fyrir ráðh. eða stjórnaraðila, sem leggja slíkt frv. fram, að leita eftir því hvort möguleiki sé á friðsamari lausn með breytingum á því frv. því að fyrir liggur að þeir geta gengið að þessari liðveislu vísri. Hún hefur verið boðin fram án nokkurra sérstakra skilyrða og án þess að tilboðshafi hafi fyrir því að reyna á það sjálfur, þegar honum gefst færi á því sem alþm., eða beita sér fyrir því að fá frið um aðra og betri lausn en þá sem hér er um að ræða.

Einmitt þess vegna fagna ég því sérstaklega að yfirlýstur stuðningsmaður ríkisstj., hv. þm. Garðar Sigurðsson, skyldi eftir þetta flytja þá athyglisverðu ræðu sem hann flutti hér áðan, því að þvert ofan í það sem hv. 4. þm. Reykv. hafði sagt benti hv. þm. Garðar Sigurðsson, formaður sjútvn., á ýmsa mjög alvarlega galla á þessari framkvæmd og lýsti því yfir fyrir sitt leyti að hann mundi beita sér fyrir því sem formaður sjútvn. að leita leiða til þess að fá fram breytingar á frv. og meiri frið um lausn á þessu máli en nú blasir við. Ég fagna því að þessi yfirlýsing skuli vera gefin af hálfu formanns sjútvn. og ég er sannfærður um það, þó að ég hafi ekki fengið tíma til þess að ræða það við mína félaga, að Alþfl. mun vera reiðubúinn að halda á málinu með þeim hætti sem hv. þm. Garðar Sigurðsson gat um, enda tók ég það sérstaklega fram að af hálfu okkar Alþfl.-manna hefði aldrei staðið til að reyna með einhverjum hætti að fá framgengt því, sem hv. 4. þm. Reykv. kallaði óskastöðu sjútvrh., að flotinn mundi stöðvast vegna afgreiðslu Alþingis í þessu máli. Þeim mun meira virði er yfirlýsing hv. þm. Garðars Sigurðssonar og sanngjarn málflutningur hans í þessu máli þegar fyrir lá að einn úr röðum stjórnarandstæðinga hafði boðið sig fram til liðveislu ríkisstj. um afgreiðslu óbreytts máls. Þeim mun meiri ástæða er fyrir okkur stjórnarandstæðinga að ganga til móts við málflutning hv. þm. Garðars Sigurðssonar. Og ég ítreka að ég er sannfærður um að þm. Alþfl. eru fyrir sitt leyti reiðubúnir til þess í sjútvn., þegar þar að kemur, að leita eftir samráði, m.a. við fulltrúa sjómanna, um breytingar á þessu frv. í þá veru að meiri friður geti um það ríkt.

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. segist vera á móti millifærslufrumskóginum. Mál það sem hér er til umr. fjallar um að gróðursetja nýtt tré í þeim frumskógi. Hv. þm. segist ekki vilja beita sér gegn því vegna þess að þetta sé svo lítið mál hjá skóginum öllum. Ef menn vilja frumskóg burt verður það ekki að veruleika öðruvísi en byrjað sé á því að fella einstök tré. Menn geta ekki komið frumskógi burt án þess að takast á við trén í skóginum. Það er auðvitað ekkert samræmi í því að segjast vera á móti frumskóginum, en hins vegar ekki aðeins reiðubúinn að vernda hin einstöku tré sem frumskóginn mynda, heldur taka ábyrgð á sig á því að gróðursetja þau. Það eru engin rök að halda því fram að menn séu svo litlir prinsipmenn að vegna þess að þeir geti ekki fellt prinsippið í heild sinni séu menn reiðubúnir að skjóta fleiri rótum undir hið illa prinsip. Maður sem er á móti frumskógi gróðursetur ekki í honum fleiri tré.

Hv. þm. sagði að þetta væri lítið mál hjá skóginum öllum. Þetta er nú ekki minna millifærslumál en það, herra forseti, að sama fjárhæð er hér í spilinu og sú fjárhæð sem á ári er áætlað að renni til útflutningsbóta á landbúnaðarafurðir. Hingað til hefur hv. 4. þm. Reykv. ekki fundist það lítið tré í millifærslufrumskóginum þar sem er útflutningsbótakerfið. Hér er um að ræða jafnstórt fjárhagslegt mál.

Hv. þm. segist alls ekki geta annað en tekið ábyrgð á þessu vegna þess að menn neiti að ráðast gegn kerfinu og þetta tré sé svo smátt. Hverjar eru tillögur hv. þm. um breytingar á kerfinu? Þær felast í 122. máli, frv. til l. um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

Ég fullyrði það af þeirri takmörkuðu þekkingu sem ég hef á sjávarútvegsmálum, sem er að mínu viti talsvert meiri en þekking hv. 4. þm. Reykv., að þó svo það frv. yrði samþykkt mundi ekki einu sinni eitt blað falla til jarðar í millifærslufrumskóginum, vegna þess að með frv. á þskj. 125 er ekki lögð til ein eða nein breyting á millifærslufrumskóginum, ekki einu sinni þó að menn takmarki sig við þá einu atvinnugrein, sjávarútveg. Þar er aðeins lagt til að ein grein, 10. gr. í lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins, falli niður, en allar aðrar greinar í þeim lögum standi óbreyttar. M.ö.o. standi allt verðákvörðunarkerfi sjávarútvegsins óbreytt nema ein grein.

Sú grein fjallar um yfirnefnd verðlagsráðs, — þann aðila sem tekur verðákvarðanir til úrskurðað, ef verðlagsráðið nær ekki samkomulagi um málið, með aðild oddamanns sem skipaður er af ríkisstj. Yrði þessi grein felld mundi sú eina breyting á verða að skipulag samninga á milli kaupenda og seljenda fiskjar stæði algerlega óhaggað. Skipulagið stæði allt algerlega óhaggað. Það væri ákveðið með lögum eftir sem áður að sjómenn og útvegsmenn annars vegar og fiskkaupendur hins vegar skyldu mynda kerfi Verðlagsráðs sjávarútvegsins, sem á að hafa það hlutverk að semja um fiskverð. Þetta er eftir sem áður opinbert stjórnvald. Það er ekki einu sinni lagt til að afnema verðlagsráðið. Það á áfram að vera opinbert stjórnvald. Ef þetta ætti að vera einhver ný leið og menn ætluðu að vera samkvæmir sjálfum sér, þá ættu menn að flytja frv. um kauplagsráð atvinnumarkaðarins, þess efnis, að sett skyldi á fót kauplagsráð með aðild vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar, sem hefði það hlutverk með höndum að semja um kaup á hinum almenna vinnumarkaði, og kauplagsráðið skyldi vera opinber stofnun með sama hætti og Verðlagsráð sjávarútvegsins.

En þetta er ekki frjálst fiskverð. Fiskverð er eftir sem áður ákveðið af opinberu stjórnvaldi, Verðlagsráði sjávarútvegsins, sem aðilar að verðákvörðuninni eru skikkaðir með lögum til að skipa fulltrúa í. Eina breytingin er sú, að ákvæðið um yfirnefndina er fellt út. Og hverju breytir það? Aðilar vinnumarkaðarins eiga að semja sín á milli án nokkurs slíks kerfis, án nokkurs slíks opinbers stjórnvalds. Engu að síður hefur það orðið þeirra fyrsta verk í öllum kjarasamningum á umliðnum árum að óska eftir aðild þriðja aðila að þeim kjarasamningum, óska eftir aðild fulltrúa frá ríkisvaldinu, og ríkisvaldið hefur ávallt talið sig til knúið að senda slíkan aðila á vettvang frá sjálfu sér. Halda menn að aðilar að fiskverðsákvörðun mundu eitthvað hika við að leika þann leik? Og hvernig ætla menn að banna með lögum að ríkisstj. yrði við slíkum óskum aðila? Það er ekki lagt til. Það er ekki lagt til að banna það með lögum, þannig að kerfisbreytingin er ekki einu sinni formsbreyting. Hún mundi engu breyta. Og láta menn sér detta það í hug að þó að ein grein um Verðtagsráð sjávarútvegsins sé felld út úr gildandi lögum sé því breytt að skráning á gengi íslensku krónunnar verði að taka mið af stöðu helstu útflutningsatvinnugreina landsmanna? Hverjum dettur í hug að halda þessu fram? Eftir hverju ætti þá skráning á gengi íslensku krónunnar að fara fram? Spyr sá sem ekki veit. Hver treystir sér til að svara því? Skyldu þessir aðilar í þessu opinbera stjórnvaldi, Verðlagsráði sjávarútvegsins, semja sín á milli um hærra fiskverð en afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi mundi þola? Skyldu menn halda að það tryggði að gengi yrði ekki skráð upp á nýtt þó svo ríkisvaldið ætti enga aðild að ákvörðuninni? Ég er alveg bit að hlusta á þann málflutning. Þetta er alger fjarstæða. Það eru engin rök til í þessu. Þetta er algerlega út í hött. Þetta breytir engu.

Nei, ef menn vilja ráðast gegn millifærslufrumskóginum er það að sjálfsögðu ekki nóg að ráðast gegn trjánum, sem þann frumskóg mynda, og fella þau eitt af öðru. Kjarni málsins hlýtur að vera a.m.k. sá, hafi menn engar tillögur um slíkt að gera, að menn vari sig a.m.k. á því að gerast garðyrkjumenn í þeim frumskógi og bera ábyrgð á því að gróðursetja fleiri tré.

Herra forseti. 122. mál þessarar deildar er ekki til umr. hér, en ég vildi aðeins fara þessum fáu orðum um það mál vegna þess að því var haldið hér fram að það skipti einhverjum sköpum um millifærslukerfið í sjávarútvegi og með því væri unnt að afnema það kerfi sem hér stendur til, verði þetta frv. samþykkt, að útfæra, að efla.

Þó að 122. mál sé ekki til umr., eins og ég sagði hér áðan, skal ég fúslega lýsa yfir hér og nú og umhugsunarlaust: Ég skal fallast á að samþykkja það frv. þannig að ekki verði mér legið á hálsi eftirleiðis fyrir að ég sé ekki reiðubúinn til fylgis við það mál. En það bara skilar engu. Það breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut, því miður.

Ég er sammála því sem hefur ekki aðeins komið fram hjá hv. 4. þm. Reykv., heldur t.d. í ályktunum og yfirlýsingum Alþb. upp á síðkastið. Ég er eindregið sammála því, að það þarf að taka verðmyndunarkerfi sjávarútvegsins og landbúnaðarins til endurskoðunar og gagngerðrar endursköpunar, en slík endursköpun felst ekki í því að afnema eina grein í gildandi lögum um núgildandi verðlagskerfi, en láta kerfið að öllu öðru leyti standa óbreytt. Þó að það mál hafi ekki verið afgreitt er það engin afsökun fyrir því að menn bjóði sig fram til þeirrar þjónustu að taka ábyrgð á því að gróðursetja fleiri tré í „aldingarði millifærslufrumskógarins“ en þegar spretta á því svæði.

Herra forseti. Ég ítreka að mér þótti vænt um þau orð sem formaður sjútvn. þessarar deildar lét falla, og ég er sannfærður um að Alþfl. er reiðubúinn að eiga hlut að því með honum og öðrum að skoða mjög vandlega hvort ekki sé hægt, m.a. í samráði við sjómannasamtökin, að fá aðra lausn, sem meiri friður gæti orðið um, varðandi frv. þetta en þar er gerð till. um. Ég er sannfærður um að sjómannasamtökin eru reiðubúin til samstarfs við sjútvn. og Alþingi um slíka hluti. Það er byggt á misskilningi og vanþekkingu ef menn halda að annaðhvort sé að fallast á að afgreiða þá lausn sem hér er lögð fram ellegar þá hitt að þurfa að horfast í augu við að flotinn stöðvist, hvað svo sem líður óskum hæstv. sjútvrh. þar um. Það vill enginn okkar, sem hefur áhuga á því að standa þannig að málum, að atvinnulífið í þessu landi stöðvist með stöðvun fiskveiðiflotans, en menn skulu gera sér grein fyrir því, ef menn fallast á gegn vilja sínum að afgreiða mál frá ríkisstj. vegna þess að þeir trúa sjálfir þeim rökum hennar að verði slík mál ekki afgreidd óbreytt frá henni komin muni atvinnulífið stöðvast hér í landinu, hvar þeir ætla þá að setja endapunktinn við sýna afstöðu sína.

Innan örfárra daga munu væntanlega koma til afgreiðslu í Nd. Alþingis brbl. hæstv. ríkisstj. frá því í ágústmánuði á s.l. hausti. Einnig þar, herra forseti, er staðhæft að sé ekki Alþingi reiðubúið að samþykkja þau brbl. muni fylgja lokun fyrirtækja og atvinnuleysi, og einnig þar liggja fyrir yfirlýsingar ráðh. um að fáist ekki afgreiðsla á því máli muni þeir stefna þjóðinni þegar í stað út í kosningar. Menn sem eru búnir að segja a, sem eru búnir að samþykkja slíka röksemdafærslu nú þegar, verða að horfast í augu við að þeir verða eftirleiðis að vera samkvæmir sjálfum sér. Og hvaða afsökun ætla þeir menn að nota fyrir því að „fella ríkisstjórn“ á því máli eftir tvo eða þrjá daga eða kannske fimm daga sem segjast í dag alls ekki geta snúist gegn málatilbúnaði hennar vegna þess að með því sé verið að taka þá áhættu að hún fari frá — og hvers konar röksemd er það hjá stjórnarandstöðu að gefa þá yfirlýsingu að menn séu andvígir efnisatriðum máls, en treysti sér ekki til að standa gegn því, því þá sé hætta á því að ríkisstjórnin, sem þeir séu á móti, segi af sér? Hvaða vit er í svona röksemdafærslu? Hvers konar stjórnarandstaða er það sem lýsir því yfir, að ef hún telji hættu á því að ríkisstj., sem hún er á móti, segi af sér vilji hún miklu heldur greiða fyrir henni við afgreiðslu mála sem viðkomandi stjórnarandstaða sé andvíg?

Það er ekki heil brú til í svona röksemdafærslu og mér finnst mjög leitt að ég skuli heyra henni beitt af gömlum og gegnum félaga mínum, sem ég ber mikla virðingu fyrir.