18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég var nú að velta því fyrir mér hvort hv. 3. þm. Vestf. hefði alltaf þótt hv. 4. þm. Reykv. svona vitlaus, eða hvort það sé nýkomið til og af einhverjum ástæðum sem ég botna þá ekki alveg í.

Það er nú orðið áliðið þessa fundar og sennilega tilgangslítið, en ég mun þó ekki komast hjá því að gera örstutta athugasemd og fékk leyfi hæstv. ráðh. til að skjóta mér fram fyrir hann á mælendaskránni til þess.

Í fyrsta lagi þá sagði ég hér áðan að ég áskildi mér auðvitað allan rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. Þá stendur það eitt eftir að þessi ákvörðun er tekin alveg án þess að reynt hafi verið að setja skilyrði eða nálgast menn með þeim hætti. Og það eru satt að segja vinnubrögð sem ég vil viðhafa. Það sem hér var verið að lýsa var það að menn ættu að setja upp einhvern sæg af skilyrðum. Á því hef ég nákvæmlega engan áhuga. Eins og ég hef sagt vil ég með hjásetu stuðla að því að gerðir samningar standi. Það er allt og sumt. Og ég hélt satt að segja að það lægi í augum uppi.

Stjórnarsinnar í þessari deild eru 20. Það er augljóst að þeir koma ekki lagafrv. fram. En það þýðir líka að stjórnarandstæðingar eru 20. Þeir koma heldur ekki lagabreytingum fram. Þeir geta fellt mál. Það er það sem ég vil ekki. Og auðvitað er það það sem hv. 3. þm. Vestf. er að býsnast yfir.

Í annan stað örfáar setningar um 10. gr. l. um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Það var auðvitað tóm endaleysa sem hér var sagt, þar sem lagt er til að yfirnefndin, en í henni er oddamaðurinn, sé lögð niður. Þar með hefur ríkið dregið sig út úr þeim samningi. Ríkið getur auðvitað eftir sem áður skipað sáttasemjara hvenær sem er. Það er bara allt, allt annar hlutur. Þetta er reginmisskilningur. Við höfum lagt til að þetta gerist í áföngum. Það er þessi 10. gr. sem er inngripagrein ríkisvaldsins þó að hv. þm. átti sig ekki á því. En hitt verður hann að skilja, að stundum geta menn gert hluti án þess að setja skilyrði. Við höfum oft nóg af skilyrðum hér frá hv. þm. Eggert Haukdal, svo að ég nefni dæmi sem þjóðin öll þekkir. Það er það sem hv. 3. þm. Vestf. er að biðja um. Það er það sem ég tek ekki þátt í.