18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

95. mál, bótaréttur vegna náttúruhamfara

Meðan nefnd sú, sem vann að samningu laga um Viðlagatryggingu, starfaði, var fjallað um ýmsa þætti, ýmiss konar mannvirki, sem hugsanlega ætti að taka undir starfsemi Viðlagatryggingarinnar. M.a. bárust nefndinni erindi og ábendingar um að æskilegt væri að tjón af völdum ofviðra yrðu tekin inn í 4. gr. laganna. Þetta mál var nokkuð rætt á síðasta þingi, vegna ofviðris sem geisaði í febrúarmánuði 1981. Þá var um það rætt að taka inn í viðlagatrygginguna ákvæði um foktryggingu. Þetta mál var og rætt mjög ítarlega í nefndinni sem undirbjó frumvarp um viðlagatryggingu, og í nefndarálitinu segir:

„Komið hefur í ljós í þau skipti sem meiri háttar ofviðri hafa gengið yfir einstaka landshluta, að þeir eru ávallt margir sem ekki hafa hagnýtt sér þá tryggingarvernd sem fáanleg er hjá tryggingafélögum gegn slíku tjóni. Menn hafa í mörg ár, a.m.k. frá 1960, átt þess kost að kaupa sérstaka foktryggingu, auk þess heimilistryggingu og húseigendatryggingu, en allar þessar tryggingar bæta tjón af völdum ofveðurs. Nefndarmenn telja æskilegast að hinn almenni vátryggingamarkaður annist þessar tryggingar, einkum þegar þess er gætt, að þótt um geti verið að ræða mörg minni háttar tjón í sama veðrinu, er það undantekning að um sé að ræða svonefnd „katastrófutjón“, þ.e. tjón af þeirri stærðargráðu sem Viðlagatryggingin er fyrst og fremst stofnuð til að mæta.“

„Reynist það hins vegar vilji Alþingis,“ segir áfram í nefndarálitinu, „að stofnunin bæti einnig tjón af völdum ofviðra, leggur nefndin til að sjálfsáhætta hinna tryggðu verði helmingi hærri þegar um slík tjón er að ræða. Nefndin telur að eigendur húseigna og lausafjár geti í flestum tilvikum komið í veg fyrir slík tjón með fyrirbyggjandi aðgerðum og eðlilegu viðhaldi eigna.“

Í frumvarpinu er m.ö.o. ekki tekin inn þessi foktrygging. Ég tel að Alþingi hafi fallist á sjónarmið nefndarinnar. Þess vegna var foktrygging ekki tekin inn á Viðlagatryggingu Íslands.

Haustið 1981 skrifaði ég tryggingafélögunum og Sambandi ísl. tryggingafélaga og óskaði eftir að þau gerðu sérstakt átak til að auglýsa þær foktryggingar sem völ er á á vegum hinna almennu tryggingafélaga. Það gerðu tryggingafélögin, og mér er kunnugt um að það var nokkuð um að fólk sneri sér til þeirra af þessu tilefni.

Ég held að það sé rétt að miða við það, að þessi tryggingastarfsemi verði almennt hjá hinum almennu tryggingafélögum í landinu, þar sem Viðlagatrygging Íslands hefur allt annað og miklu víðtækara hlutverk en getur falist í því að tryggja tjón af þeim toga sem oftast er um að ræða hér þegar óveður gengur yfir.

Í meðförum Alþingis vakti ég sérstaka athygli á þessu atriði, þannig að tækifæri gafst til umræðna og breytinga ef þingheimi sýndist svo. Eins og fyrirspyrjanda mun kunnugt varð niðurstaða Alþingis sú að taka ekki tjón vegna óveðurs (vinda) í Viðlagatryggingu.

Samkvæmt lögum um Bjargráðasjóð er stjórn sjóðsins heimilt að veita fyrirgreiðslu úr almennu deild sjóðsins vegna tjóns af náttúruhamförum sem ekki falla undir Viðlagatryggingu eða tryggt er fyrir með öðrum hætti. Á undanförnum árum hefur stjórn sjóðsins notað þessar lagaheimildir þegar um meiri háttar tjón hefur verið að ræða-vegna óveðurs sem gengið hefur yfir heila landshluta, s.s. í febrúar 1981. Þá gerði ríkið, að fengnu samþykki Alþingis, ráðstafanir til að útvega Bjargráðasjóði lánsfé sem ríkissjóður stendur undir að verulegu leyti.

Hins vegar gerði stjórn Bjargráðasjóðs samþykkt á fundi sínum 1. júní s.l. um „að eftirleiðis yrði ekki veitt fyrirgreiðsla úr sjóðnum vegna tjóna á fasteignum og lausafé af völdum óveðurs, þar eð ráðstöfunarfé sjóðsins væri mjög takmarkað og almennt væri unnt að tryggja gegn slíkum tjónum hjá tryggingafélögum.“

Var samþykkt þessi auglýst rækilega í öllum dagblöðum í júnímánuði s.l.

2. Samkvæmt lögum nr. 55/1975, um Viðlagatryggingu Íslands, bætti sú trygging tjón á brunatryggðum fasteignum og lausafé, m.a. af völdum skriðufalla. Skv. lögum nr. 88/1982 um breytingu á þeim lögum skal Viðlagatrygging Íslands frá og með 1. jan. 1983, er lögin öðlast gildi, vátryggja gegn beinu tjóni af völdum eftirtalinna náttúruhamfara: eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnaflóða.

Enn fremur er skylt að tryggja viðlagatryggingu frá sama tíma mannvirki hitaveitna, vatnsveitna, skolpveitna, svo og hafnarmannvirki, brýr, raforkuvirki o.fl.

3. Bjargráðasjóður er ekki í stakk búinn til að veita fyrirgreiðslu af eigin fé sjóðsins ef um er að ræða mikill og almenn tjón, eins og t.d. þau er urðu í febrúar 1981. Þá varð sjóðurinn að afla sér fjár með lánum með fyrirgreiðslu og ábyrgð ríkissjóðs. Möguleikar Bjargráðasjóðs til að veita fyrirgreiðslu vegna tjóna, sem ekki er tryggt fyrir, velta þess vegna á því, um hve mikið tjón er að ræða hverju sinni eða á hverju ári. Stjórn Bjargráðasjóðs getur ekki samþykkt fyrirgreiðslu, t.d. í formi óverðtryggðra lána með „byggðasjóðsvöxtum“ eins og var 1981, nema sjóðurinn njóti til þess sérstaks stuðnings.

4. Lög um Viðlagatryggingu tóku gildi 1. janúar 1983. Nauðsyn þótti bera til þess að hafa allrúman aðlögunar- og undirbúningstíma vegna framkvæmda þessara laga.

5. Samkvæmt 66. gr., 5. tölul. skattalaga nr. 75/1981 skal skattstjóri taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á að maður hefur orðið fyrir verulegu eignatjóni sem hann hefur ekki fengið bætt úr hendi annarra aðila. Efri deild, 30. fundur.