19.01.1983
Efri deild: 30. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

160. mál, sektarmörk nokkurra laga

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það um breytingu á sektarmörkum nokkurra laga sem hér er lagt fyrir hv. Ed., fjallar um sektarviðurlagaákvæði í 74 lögum sem hafa að geyma ákvæði þar sem sektin er tiltekin krónutala. Frv. þetta er framhald þeirrar endurskoðunar sem hófst með framlagningu og samþykkt frv. á síðasta þingi, þar sem breytt er sams konar ákvæðum 52 laga. Með þessu frv. má telja að tæmd séu þau lagaákvæði sem hafa tiltekna krónutölu sektar og ástæða er til að ætla að hafi raunhæft gildi.

Skrá sú sem hegningarlaganefnd lét taka saman um slík lagaákvæði hafði upphaflega að geyma um 200 ákvæði. Við athugun ráðuneytanna á ákvæðum þessum voru allmörg þeirra talin úrelt eða þýðingarlaus þannig að eftir standa 126 ákvæði og þar af hefur 52 þegar verið breytt.

Tilgangurinn með þessari breytingu á sektarákvæðunum er að færa sektarupphæðina undir ramma almennra hegningarlaga og nægir því að breyta sektarfjárhæðinni í 50. gr. hegningarlaganna til að sektarviðurlög fylgi verðlagsþróuninni. Hámark sektar er nú 1 millj. kr., en því hámarki þarf væntanlega að breyta fljótlega.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.