19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

Um þingsköp

Þingsköp. Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þetta mál sem hér á nú að taka á dagskrá og til 1. umr. hefur verið lengi á dagskrá. Um það atriði þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum. Framlagning þess dróst í margar vikur í upphafi þings. Til að rökstyðja þann drátt beitti hæstv. forsrh. á sínum tíma meiri kímnigáfu en hann hafði áður sýnt, þegar hann sagði að það stafaði af óeiningu innan stjórnarandstöðunnar að hann treysti sér ekki til að leggja málið fram. Allir vissu þó hið rétta.

Innan ríkisstj. var þá sem oft áður og síðar ágreiningur um framlagningu fylgifrv., svo sem um orlof og nýtt viðmiðunarkerfi. Orlofsfrv. kom fram að kröfu Alþb., en Framsfl. lét hins vegar af kröfu sinni um að viðmiðunarfrv. yrði lagt fram í tengslum við staðfestingarfrv. brbl. En um þetta ætla ég ekki að fara frekari orðum að þessu sinni eða gera það frekar að umræðuefni. Mál þetta er loks komið frá fyrri deild og því má út af fyrir síg fagna.

Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs um þingsköp til að gera grein fyrir því að ég hefði farið þess á leit við hæstv. forseta deildarinnar að 1. umr. um þetta frv. færi ekki fram fyrr en á mánudaginn kemur. Við þessari beiðni varð hæstv. forseti ekki, að ég ætla vegna andstöðu hæstv. forsrh., en á því koma væntanlega skýringar hér á eftir. Ég ætla því hér í hv. þd. að ítreka þá kröfu að umr. verði frestað til mánudagsins 24, þ.m. Ástæður fyrir þessari kröfu eru ósköp einfaldar. Það verður ekki séð að nein nauður reki ríkisstj. til að knýja málið fram nú í dag gegnum 1. umr. og koma því þannig til nefndar.

Í fyrsta lagi hefur ríkisstj. fyrir löngu komið fram þeim vilja sínum að skerða kjör manna eins og brbl. ákváðu og staðfesta á með þessu frv.

Í öðru lagi verður ekki séð að óbætanlegur tími tapist þótt málið bíði í nokkra daga. Það verður ekki unnt að boða til fundar í fjh.- og viðskn. Nd. þar sem formaður n., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, er erlendis í erindum Alþingis og getur því varla haldið fund í n. í þessari viku þótt hann sé væntanlegur heim á morgun. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki með þessum orðum að gagnrýna þessa fjarveru hv. formanns n. Hann er í opinberum erindagerðum erlendis.

Úr þessu hefði kannske mátt bæta með því að varaformaður n., hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, kallaði nefndina saman. Hann er hins vegar erlendis líka, en í einkaerindum að því er ég best veit, og getur þess vegna ekki leyst úr þessum vanda. Sjálfsagt hefði hann hins vegar notið þess að stjórna nefndarfundi, sem fjallaði einmitt um þetta mál, kjaraskerðingu þess fólks sem hann telur sig sérstaklega í forsvari fyrir og úthlutun láglaunabótanna, sem tóru víst eitthvað annað en ætlunin var.

Í þriðja lagi sýnist full þörf á því að þeir menn sem leiða eiga nefndarstarfið við meðferð þessa máls séu viðstaddir 1, umr. hér í deild, þar sem ætta má að skýringar verði gefnar á þeim atriðum sem ekki fengust rædd að ráði í hv. Ed. í gær og samkomulag varð um þar að skyldu athuguð í sameiningu af hv. fjh.- og viðskn. Ed. og Nd.-nefndinni. Það sýnist t.d. full þörf á að þessir aðilar hlusti á hæstv. sjútvrh. þegar hann mælir fyrir brtt. sinni um ráðstöfun gengismunar, þessara milljónatuga sem útbýta á til frystihúsa og fiskvinnslustöðva um allt land að því er maður heyrir — eða kannske á ekkert að flytja þessa till. hér við 1. umr. málsins. Hún hefur verið flutt í sjónvarpinu og það á kannske að duga.

Þessar ástæður saman og raunar hver um sig ættu að nægja til þess að orðið yrði við svo sjálfsagðri kröfu sem þeirri að fresta umr. til mánudagsins næsta.

Ég hef hér í stuttu máli rökstutt þessa beiðni mína. Verði henni enn hafnað, þá bið ég um skýringar hæstv. forseta á því hvers vegna hann getur ekki orðið við beiðninni. Og ég spyr: Er eitthvert ákvæði í þessu frv. sem ekki hefur enn komið til framkvæmda? Er von á brtt. við frv. sem kallar á skjóta afgreiðslu Alþingis? Eða getur það verið að hæstv. ríkisstj. þurfi sérstaklega á viðveru eða fjarveru tiltekinna þm. í deildinni að halda, til þess að fá fram afgreiðslu á málinu sem henni kann að vera þóknanleg?

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa miklu fleiri orð nú um þetta mál. Ef hæstv. forseta þykir sem hér sé hreyft spurningum sem öðrum en honum beri að svara, þá ætla ég að hér í þingsalnum finnist menn sem geta þar hlaupið undir bagga.