19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

Um þingsköp

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í máli manna hér við þessar umr. um þingsköp að óskað hefur verið eftir því að umr. yrði frestað um stutta stund um brbl. sem voru sett í ágúst í sumar og voru lögð fyrir Alþingi seint og síðar meir fyrir jól og hafa síðan legið í Ed. og loks afgreidd þar í gær með miklu hraði. Það kemur jafnframt fram að hæstv. forsrh. hefur lagst gegn slíku og við því er ekkert að segja. Auðvitað hlýtur þá umr. að eiga sér stað. Það er full ástæða til þess að nefna það í þingskapaumræðum að það hafa komið fram upplýsingar í þessu máli, sem hljóta að verða til þess, að áður en efnt er til 1. umr. í þessari hv. deild geri hæstv. ríkisstj. hreint fyrir sínum dyrum og segi hvað hún ætli að gera í ákveðnum málum, sem snerta brbl. beint, og reyndar öðrum málum líka sem snerta þessi lög óbeint.

Í fyrsta lagi sýnist mér algerlega óhjákvæmilegt að hæstv. sjútvrh. geri grein fyrir þeim hugmyndum sínum að ráðstafa gengismun með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í brbl. Hann þarf jafnframt að segja hv. Alþingi frá því, áður en til 1. umr. kemur, hvort hann hyggist flytja brtt. við brbl., í hverju hún verði fólgin og hvernig á því standi að til ráðstöfunar er miklu meira fjármagn en gert var ráð fyrir í upphafi. Þetta er auðvitað mál sem hefði átt að leysast í Ed., en í trausti þess að tækifæri gefist til að fá slíkar upplýsingar áður en málefnið er lagt fyrir nefnd í Nd. hlýtur maður að fara fram á að hæstv. sjútvrh. skýri út fyrir þjóðinni hvað hann átti við í þessum efnum.

Í öðru lagi vil ég lýsa yfir undrun minni á því að hæstv. fjmrh. skuli ekki sjá sóma sinn í því, þegar Alþingi kemur saman, að gera þjóðinni grein fyrir því með ræðu á Álþingi, sem auðvitað er réttur vettvangur til þess, hvernig til hafi tekist með að dreifa láglaunabótum til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það er furðulegt að lögð skuli vera áhersla á það að 1. umr. fari fram í dag, mál fari til nefndar, þegar ekki er búið að gera grein fyrir þessu máli og það er ekki hægt — vegna þess að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er fjarstaddur og getur ekki gert grein fyrir skoðunum Alþýðusambands Íslands og Verkamannasambandsins og Verkamannafélagsins Dagsbrúnar varðandi þetta mál — að ætlast til að málið verði afgreitt til n. Þar á ofan er hv. Guðmundur J. Guðmundsson varaformaður í fjh.- og viðskn. Nd. og getur þess vegna ekki látið þá nefnd starfa vegna fjarveru formanns n., hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, sem er staddur á vegum Norðurlandaráðs erlendis.

Í þriðja lagi óska ég eftir því að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því áður en þetta mál kemur til meðferðar hér í hv. Nd. hvar á vegi statt er svokallað viðmiðunarmál. Það var margoft tekið fram í dagblöðum og á Alþingi af ýmsum fulltrúum hæstv. ríkisstj. að ekki kæmi til greina að afgreiða brbl. eða fylgifrv. brbl., þar á meðal orlofslögin, nema búið væri að ná endanlegum samningum innan hæstv. ríkisstj. um svokölluð viðmiðunarmál. Nú skulum við hafa það í huga að í sumar, þegar gengið var frá brbl. í ágúst, lá fyrir samkomulag hæstv. ríkisstj. um þetta mál. Þar er skýrt tekið fram að koma skuli á nýjum vísitölugrundvelli, sem sé miðaður við nýja framfærsluvísitölu, og að auki að breyta skuli viðmiðunum kauplags og nýrrar framfærsluvísitölu á grundvelli niðurstaðna, sem þriggja manna nefnd, vísitölunefnd, sem starfar á vegum ríkisstj., komst að í sumar. Það er haft fyrir satt að Alþb. sé að reyna að stöðva þetta mál. Það hefur komið fram í fjölmiðlum oftar en einu sinni af hálfu hv. framsóknarmanna að þeir telji að fulltrúar Alþb. innan hæstv. ríkisstj. og utan séu að reyna að koma í veg fyrir framgang þessa máls. Og vitað er hver afstaða sumra forráðamanna Alþýðusambandsins er til málsins. Ekkert hefur bólað á þessu máli, þessu fylgifrv. brbl., sem nú eru komin til Nd. loksins eftir margra mánaða þóf og vist í hv. Ed. Þá bregður allt í einu svo við, að hæstv. forsrh. fer fram á það af fullum þunga að keyra skuli málið til nefndar.

Ja, öðruvísi mér áður brá. Kann að vera að jólafrí þm. hafi hæstv. ríkisstj. notað til að ná samkomulagi í þessu máli? Liggur það fyrir? Eða hefur hæstv. forsrh. gefist upp við að ná samkomutagi um málið? Þetta mál er svo brýnt, og nú þegar liðið er á árið 1983 hlýtur það að vera krafa hv. þm. og þjóðarinnar að hún og hv. þm. fái að vita hvernig á því stendur að ekki heyrist eitt einasta orð um þessi viðmiðunarmál. Þetta viljum við fá að vita. Ég veit að þetta er náttúrlega óbilgjörn krafa, áður en brbl. verða send til nefndar eftir 1. umr. hér í þessari hv. deild. Mér finnst satt að segja ekki vera til mikils mælst, en það má vel vera, að hægt sé að skýra það út og sýna fram á að þetta sé aldeilis óguðleg krafa af okkar hálfu.

Herra forseti. Til viðbótar þessu hefur það gerst, sem auðvitað hlýtur að leiða til þess að menn þurfa aðeins að hugsa sig um, að nýr flokkur hefur verið stofnaður í landinu, Bandalag jafnaðarmanna, stofnaður með pomp og prakt síðasta laugardag. Hv. þm. Árni Gunnarsson sagði að það væri geðklofi í Sjálfstfl. Það kann vel að vera rétt. En í Alþfl. fyrirfinnst kannske ekki það fyrirbrigði, vegna þess að ef ágreiningur kemur upp í þeim flokki, þá hreinlega klofnar hann alveg og úr honum verða tveir flokkar. Sagði einhver að lengi mætti kljúfa eldspýtu.

Það er full ástæða til þess, þegar nýr þingflokkur stofnast, að það komi skýrlega fram frá talsmanni þess flokks hver staða hans er hér í þinginu. Er hann stuðningsmaður ríkisstj. í öllum málum eða bara sumum málum? Við vitum að hv. þm. Vilmundur Gylfason er stuðningsmaður ríkisstj. í a.m.k. þeim málum sem hæstv. sjútvrh. hafði til meðferðar um jólaleytið. En það hefur ekki komið skýrt fram hvort hv. þm. Vilmundur Gylfason hafi breytt afstöðu sinni í fleiri efnum gagnvart ríkisstj. Þetta er auðvitað ástæða til að fram komi. Það er full ástæða til að þingflokkar á hv. Alþingi fái að vega og meta stöðuna með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa vegna þess að Alþfl. hefur klofnað.