20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

121. mál, varnir gegn mengun frá skipum

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um staðfestingu alþjóðasamnings um varnir gegn mengun frá skipum, er var gerður 1973, og bókunar 1978. Í aths. sem fylgja með þessari þáltill. er gerð grein fyrir tilurðarsögu þessa samnings og hvert er innihald hans í aðalatriðum.

Þessi alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum var undirritaður af fulltrúum 73 landa á ráðstefnu sem haldin var á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í London 8. okt. til 2. nóv. 1973.

Bókunin frá 1978 við alþjóðasamninginn um varnir gegn mengun frá skipum 1973 var undirrituð af fulltrúum 64 landa á ráðstefnu sem haldin var á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í London dagana 6.–17. febr. 1978. Bókunin var fyrst og fremst gerð til þess að flýta fyrir gildistöku samningsins.

Þessi alþjóðasamningur kemur í stað alþjóðasamþykktar frá 1954 um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu ásamt síðari breytingum. Ísland hefur staðfest þann samning og hann hefur öðlast lagagildi hér. Allt efni þeirrar samþykktar hefur verið tekið upp í þennan samning með nokkrum viðbótum og breytingum auk þess sem samningurinn fjallar um fleiri þætti mengunar frá skipum en olíumengun.

Samningurinn og bókunin er hvort tveggja prentað sem fskj. með þessum samningi og sé ég ekki ástæðu til að rekja samninginn og efni hans. Það er aðeins gerð grein fyrir því í stuttu máli í aths. þeim sem fylgja með samningnum að til þess að samningurinn öðlist gildi þurfa 15 ríki að hafa staðfest hann, 15 ríki með minnst 50% af kaupskipaftota heimsins, og þá öðlast hann gildi 12 mánuðum eftir að því marki hefur verið náð.

Allmörg ríki hafa þegar fullgilt samninginn, þ. á m. Norðurlöndin öll að Íslandi undanteknu, og það er nú gert ráð fyrir því að hann muni öðlast gildi seint á þessu ári. Það sem þarf til framkvæmda þessum samningi er reglugerð sem samgrh. mun setja. Þarf lagaheimild til þess að setja þá reglugerð og hygg ég að alveg á næstunni sé væntanlegt frv. um það efni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt um þetta, en leyfi mér að óska eftir því að umr. verði frestað og till. vísað til utanrmn.