27.10.1982
Efri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

41. mál, fóstureyðingar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa um þetta mál nema örfá orð. Við höfum áður rætt það hér oft í þessari hv. deild og er litlu við það að bæta sem fram hefur komið áður. Ég vil þó aðeins segja þetta.

Á sínum tíma var þetta mjög rætt hér í þingi. Það var einmitt samflokksmaður hv. þm. Þorv. Garðars, Matthías Bjarnason, þáv. heilbr.- og trmrh., sem leiddi þetta mál til lagasetningar 1975. Þá eins og nú voru skoðanir mjög skiptar. Í raun voru pólarnir þá algerlega frjálsar fóstureyðingar annars vegar og hins vegar nær algert bann við fóstureyðingum.

Í meðferð þingsins þá var unnið gott starf að eðlilegri málamiðlun sem flestir gátu sætt sig við. Ég man að ég tók virkan þátt í umræðu og athugun þessa máls og hafði um það vissar skoðanir sem lítið hafa breyst. Þar með er ekki sagt að ég skilji ekki og virði viðhorf annarra, sem e.t.v. ganga í öfuga átt, jafnvel þveröfuga átt. Margt í röksemdafærslu hv. 1. flm. um mannhelgi og virðingu fyrir lífinu get ég svo sannarlega tekið undir, og ég efa ekki andartak þá alvöru sem þar býr að baki hjá hv. 4. þm. Vestf. Ég dreg heldur ekkert úr kristilegum siðgæðishugmyndum um mannhelgi. En því miður hefur þó farið svo, að sá hluti þjóða sem kallar sig kristna og kennir sig við siðgæðishugmyndir kristninnar hefur verið víðs fjarri mannhelgi og virðingu fyrir réttindum til að lifa. Miskunnarleysið og drápsfýsnin hefur ekki verið minni hjá þeim sem þannig hafa í orði sagst játa kristna trú, því miður.

Það er hins vegar rétt hjá hv. 1. flm. að samkvæmt kristnum siðgæðishugmyndum ætti mannhelgi að vera öllu ofar. En breytnin sýnir bara annað og ólíkt grimmúðlegri og ómannúðlegri kenndir en við erum hér að ræða gagnvart þessum afmarkaða þætti mannhelginnar. Um þetta þykist ég vita að við séum sammála, en andspænis þessum myrku staðreyndum stöndum við. Annars væri það efni í ærna umræðu almennt um lífið og tilveruna og trúarhugmyndir almennt, sem ég ætla ekki út í hér af þessu tilefni, þar sem flm. leggur aðaláherslu á þennan bakgrunn kristilegrar kenningar. Ég veit að þar talar hann beint út frá hjartanu og ég virði skoðanir hans í því svo sannarlega.

Vissulega er hér vandrataður meðalvegur og það gera flm. sér ljóst, því að frv. þeirra er um þrengingu, færri fóstureyðingar, en alls ekki um bann við hvaða aðstæður sem er. Okkur var líka ljóst, sem stóðum að lagasetningu 1975, að þarna yrði erfitt að rata meðalveginn. Ekki síst kom það þá glögglega fram í orðum þáv. heilbrmrh., Matthíasar Bjarnasonar, sem hann mælti hér í deild einmitt varðandi það mál og ég var að glugga í núna í hádeginu. Ég held að áhersla allra, þá sem nú, hafi að því beinst að með ýtrustu gát skyldi gengið fram og síst væri hér um að ræða mál sem ekki þyrfti athugunar við og hennar vandlegrar í hverju einslöku tilfelli. Ég held að öllum hafi verið ljóst að aukin og bætt ráðgjöf og bestu upplýsingar færustu aðila hefðu hér úrslitaþýðingu um alla framvindu, og því var einmitt við þessa lagasetningu lögð sérstök áhersla á það.

Hvernig til hefur tekist má eflaust deila um endalaust og ekki treysti ég mér í dómarasætið hvað einstök tilfelli varðar og hvaða mörk hefur verið miðað við. Ég vil satt að segja ekki dæma um það á neinn máta, þó að ég efist ekki um að í ýmsum tilfellum hefði mátt öðruvísi að málum standa, eins og allt orkar ævinlega tvímælis þá gert er, og þá kannske ekki síst þegar um svo viðkvæm mál er að ræða. Ég ætla hins vegar enn staðfastlega að ekki sé út í fóstureyðingu farið nema ástæður séu ærnar, og ef rétt ráðgjöf og fræðsla og aðstoð hvers konar, læknisfræðileg sem félagsleg, kemur til hljóti enn að vera um algert neyðarúrræði að ræða. Ég neita að trúa öðru um íslenskar konur, sé rétt að staðið um alla framkvæmd þess lagabálks sem við samþykktum 1975. Það er einmitt þess vegna, vegna þess trausts sem ég ber til þeirra, að ég tel að ákvörðunarrétturinn endanlegi, þegar öll mál hafa við yfirvegun verið upp gerð, og í samstarfi við færustu aðila á sviði heilsugæslu og félagsráðgjafar, að sá ákvörðunarréttur eigi að vera konunnar sjálfrar. Ábyrgð hennar er mikil vissulega, en á hana treysti ég. Hlýt ég enn að undirstrika þessa meginlinu í minni skoðun.

Ég legg hins vegar enn sem fyrr mikla áherslu á það að við 5ll skilyrði sé staðið til fullnustu, að öll ráðgjafarþjónusta sé rækt, og síst stendur á mér að bæta hinar fétagslegu aðstæður þannig að þær verði hverfandi valdur í þessu. Brýnast er því kannske að gera aðstæðurnar sem allra bestar og hefja ráðgjöfina til öndvegis meira en nú er gert, þannig að forsendur málamiðlunarlaganna, sem ég leyfi mér að kalla svo, frá 1975, forsendur þeirra, sem öll framkvæmd þeirra á að byggjast á, séu uppfylltar svo sem framast er unnt. Að því skulum við öll hjálpast.