20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

46. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. um stefnumörkun í landbúnaði, sem hér er flutt á þskj. 47, var fyrst lögð fyrir hv. Alþingi á síðasta ári eða í aprílmánuði. Till. hlaut þá ekki afgreiðslu og er endurflutt nú óbreytt eins og hún var fyrst lögð fram.

Till. þessi hefur hlotið allítarlegan undirbúning. Með bréfi dagsettu 10. mars 1980 var skipuð nefnd á vegum ríkisstj, til þess að semja till. til þál. um stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins. Í nefndinni áttu sæti Egill Bjarnason ráðunautur, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar, Hákon Sigurgrímsson framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda og Helgi F. Seljan alþm. Nefnd þessi lagði mikla vinnu í störf sín og skilaði tvívegis áfangaskýrslu um tiltekna þætti landbúnaðarmála, en lokatillögum sínum skilaði nefndin 2. apríl 1981.

Till. sú, sem hér er flutt, er að meginstofni samin af þessari nefnd. Nokkrir þættir um sérgreinar landbúnaðarins voru samdir af forstöðumönnum tiltekinna stofnana á vegum landbúnaðarins og var Guðmundi Sigþórssyni, deildarstjóra í landbrn., falið að yfirfara þá þætti, samræma gerð þeirra tillagna í heild og yfirfara till. og samræma hana að allri gerð. Einnig aflaði Guðmundur Sigþórsson mikilla gagna og vann tölulegar upplýsingar sem í miklum mæli birtast með grg. till.

Till. sem heild er að sjálfsögðu sumpart staðfesting á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið í landbúnaðarmálum frá því að núv. ríkisstj. tók til starfa, en jafnframt hefur hún að geyma mörg nýmæli og stefnuatriði sem ýmist er unnið að eða ekki eru enn komin fram.

Tillgr. sjálf skiptist í meginmarkmið ásamt skýringum á því hvernig þeim markmiðum verði náð og myndar það tillgr. Till. fylgir svo einnig mjög ítarleg grg. sem felur í sér glöggt yfirlit um þróun landbúnaðarins á síðustu tveimur áratugum og einnig er vikið að þeim möguleikum sem sýnilegir eru og aðstöðu miðað við ríkjandi aðstæður í þjóðfélaginu fyrir hverja framleiðslugrein fyrir sig. 1 grg. getur að líta eftirfarandi meginkafla: Um framleiðslu og ráðstöfun landbúnaðarafurða, markaðs- og framleiðslumöguleika, ræktun, heyfeng og fóðuriðnað, framleiðslu hráefnis til iðnaðar, landnýtingu og landvernd, tekju- og félagsmál bænda, búsetu og byggðaþróun, búnaðarfræðslu, rannsóknarstarfsemi og leiðbeiningaþjónustu. Einnig fylgir grg. sem fskj. yfirlit, sem unnið er af annarri nefnd sem hefur fjallað um þjóðhagslega hagkvæmni landbúnaðarframleiðslunnar, um vinnuafl í landbúnaði og síðan yfirlit yfir grg. í heild.

Grg. felur því í sér mjög mikinn fróðleik. Í grg. sjálfri er þannig að finna nánari útfærslu á þeim stefnuatriðum sem tillgr. sjálf felur í sér því að þegar um svo viðamikil mál er að ræða verður því eigi við komið í tillgr.

Tillgr. sjálf felur í sér þrjú meginmarkmið. Þau eru: Í fyrsta lagi að Alþingi ályktar að framleiða skuli landbúnaðarafurðir með þeirri fjölbreytni sem landkostir, veðurfar og markaðsskilyrði leyfa. Í öðru lagi að tryggja efnahagslegt sjálfstæði og félagslegt jafnrétti bændafólks og eignar- og umráðarétt þess á bújörðum. Fjölskyldubúskapur og sjálfseignarábúð bænda verði grundvallarform rekstrareininga, en félagsbúskapur fái fastmótað form í lögum. Réttur þéttbýlisbúa til umgengni við landið og náttúru þess verði tryggður. Í þriðja lagi að leggja áherslu á að varðveita náttúruauðæfi landsins, landkosti og hlunnindi bújarða og eðlilega byggð í landinu fyrir næstu kynslóðir, m.a. með gerð áætlana um landgræðslu og landvernd. Landbúnaðurinn og úrvinnslugreinar landbúnaðarafurða leggi fram sinn skerf til vaxandi þjóðartekna með hagkvæmri nýtingu landsgæða og síaukinni framleiðni vinnu og fjármuna.

Þessi þrjú meginmarkmið eru fram sett sem höfuðatriði þessarar stefnu.

Ef litið er á þessi þrjú meginatriði í örfáum orðum hvert fyrir sig má segja um framleiðslumarkmiðið, sem er fyrsta aðalatriði þessarar till., að gert er ráð fyrir gerð spár um þróun markaðar fyrir landbúnaðarafurðir hér á landi næstu fimm og tíu árin, er einnig byggi á spá um mannfjölda og markaðshorfur, og einnig til útflutnings. Út frá slíkri spá verði gerð áætlun um framleiðslu á landbúnaðarafurðum, er taki mið af nokkrum meginþáttum, og þá í fyrsta lagi lögboðnum rétti landbúnaðarins til útflutningsbóta, ákvörðun um niðurgreiðslur og möguleikum nýrra búgreina. Í sambandi við þessi atriði er vert að vekja á því sérstaka athygli, að í framleiðslumálum verður í það heila tekið samkv. þessari till. miðað við að mjólkurframleiðslan verði sem næst við hæfi innlenda markaðarins og ekki gert ráð fyrir mjólkurframleiðslu sem útflutningsgrein. Sauðfjárframleiðsla verði við hæfi innanlandsmarkaðar og einnig fyrir erlenda markaði sem teljast viðunandi. Í þriðja lagi verði unnið að eflingu nýrra búgreina og nýrra tekjuöflunarleiða í sveitum, einkanlega þannig að þar verði byggt á kostum landsins sjálfs og þeim afrakstri sem landbúnaðurinn og landið sjálft gefa. Sérstaklega verði því hlúð að þeim framleiðslugreinum í nýjum búgreinum og nýjum tekjuöflunarleiðum í sveitum sem byggjast þannig á innlendum aðföngum.

Að sjálfsögðu er megingrundvöllur undir framleiðslu landbúnaðarins landið sjálft, gæði þess og margbreytilegir kostir, ræktun og fóðurframleiðsla. Þess vegna er lögð á það rík áhersla að efla innlenda fóðurframleiðslu, sem er vitaskuld grundvöllur búfjárræktar í landinu og þeirra afurða sem búfénaðurinn skilar. Til þess að styðja þessa viðleitni verði rannsókna-, leiðbeininga- og fræðslustofnunum landbúnaðarins beitt í þessa þágu.

Ég tel ástæðu til að víkja örfáum orðum að helstu framleiðslugreinum landbúnaðarins og gefa upp þær upplýsingar í sem allra stystu yfirliti og þá um leið að víkja að þeim helstu stefnuatriðum sem þessar greinar varða.

Nautgripaframleiðslan er talin nema um það bil 44% af heildarframleiðslu landbúnaðarins og hefur verið mjög mörg ár í kringum þá hlutfallstölu. Svo var til að mynda 1980. Framleiðsla á mjólk hefur síðustu þrjú árin verið á milli 100 og 105 millj. lítra, þ.e. sá hluti mjólkurframleiðslunnar sem lagður er inn í mjólkurbú, og er það mjög nálægt því sem er innanlandsneysla. Lítils háttar hefur verið flutt út af ostum, að vísu með lágu verði en það magn fer þó minnkandi. 1. des. s.l. voru ostabirgðir í landinu 739 tonn, sem er mun minna en oft hefur verið áður og 19.4% minna en var á sama tíma árið á undan. Eðlilegt er að ostabirgðir í landinu séu alltaf í nokkru magni vegna þess að þessi framleiðsla þarf sinn tíma til þess að gerjast og verða söluhæf vara eins og hún getur best orðið.

Ég vil láta þess getið, að frá 1980 hefur tekist að halda mjólkurframleiðslunni sem næst við hæfi innlends markaðar, en til þess að ná því marki þurfti á því ári að grípa til sérstakra stjórnvaldsaðgerða vegna þess að mjólkurframleiðsla var orðin um 17–18% umfram innanlandsneyslu og sú framleiðsla var eigi seljanleg nema við mjög óhagkvæmu verði. Þetta tókst og var unnið í félagi við bændur sjálfa og að verulegu leyti að forgöngu bændasamtakanna og einnig á grundvelli tiltekinna stjórnvaldsaðgerða. Á þessu sviði náðist því með skjótum hætti sá árangur, sem að var stefnt, að halda mjólkurframleiðslunni í því horfi sem hæfði innlenda markaðnum, og það hefur tekist að halda því síðan. Framleiðsla síðasta árs var um 104.5 millj. lítra, sem að vísu var um 1.5% aukning frá árinu á undan.

Helstu stefnuatriði varðandi mjólkurframleiðsluna umfram þetta, sem þegar hefur verið rakið, ef beita þarf sérstökum aðgerðum til að halda í þessu horfi, er að nokkurt gjald verði lagt á innflutt kjarnfóður og því e.t.v. breytt, ef tímabundnar sveiflur verða á framleiðslu og eftirspurn, ákveðið verði svæðisbundið framleiðslumagn mjólkur með hliðsjón af sölusvæðum eða framleiðslusvæðum og markaðsþörf þeirra. Til þess að ná þessu markmiði hef ég skipað nefnd til að athuga möguleika á því að koma við þessum framleiðslutakmörkunum eftir tilteknum framleiðslusvæðum eða héruðum. Er formaður þeirrar nefndar Egill Bjarnason, sem jafnframt var formaður þeirrar nefndar sem lagði grunnin að þessari þáltill.

Ég tel einnig mikilvægt að athugað verði hvort ekki sé nauðsynlegt að taka upp slík svæðisbundin mörk varðandi framleiðslu sauðfjárafurða. Þjónar það margþættum tilgangi, sem ekki skal farið ítarlega út í hér. Í fyrsta lagi mun það þjóna þeim markaðssvæðum sem hlut eiga að máli á hverjum stað, en mun einnig verja hin veikari framleiðslusvæði landsins, sem verða harkalega fyrir barðinu á harðæri sem við þekkjum nú hin síðustu ár, og verja það að framleiðsla þeirra svæða detti um of mikið niður.

Í stefnuatriðum varðandi mjólkurframleiðsluna, umfram það sem þegar hefur verið sagt, er gert ráð fyrir að útflutningsuppbætur verði ekki greiddar á mjólkurafurðir umfram það sem nemur 5% af verðmæti mjólkurframleiðslunnar allrar á verði til bænda. Þetta setur enn takmörkun á framleiðslu mjólkurinnar umfram innanlandsneyslu, sem er nauðsynlegt vegna þess hve það er fjarri lagi að við getum stundað þessa framleiðslu til útflutnings. Ýmis fleiri stefnuatriði eru sett hér fram varðandi mjólkurframleiðsluna sem ég skal ekki rekja nánar.

Sauðfjárframleiðslan hefur oft verið sem svarar 35% af heildarframleiðslumagni landbúnaðarins. Framleiðsla kindakjöts var, að ég hygg, mest 1979 15 þús. og 300 tonn. Þetta framleiðslumagn hefur lækkað síðan, var á árunum 1980 og 1981 um 14 200 tonn — eða 1100 tonnum minna en 1979 — og á síðasta ári um 13 700 tonn innanlands. Tala sláturfjár var mest nálægt 1 millj., en hefur einnig farið lækkandi, enda sauðfjártalan í landinu lækkað úr um tæpum 900 þús. vetrarfóðruðum kindum niður í tæpar 800 þús. kindur á síðasta ári. Ekki liggja endanlegar tölur fyrir um hver sauðfjártalan í landinu er nú í haust, en talið er að hún sé um 750 þús. fjár.

Það var komið svo, að sá hluti sauðfjárframleiðslunnar sem þurfti að flytja á erlenda markaði var það mikill að ekki náðist fullt verð til framleiðenda fyrir þessa vöru og af þeim sökum var eigi annað fært en draga saman sauðfjárframleiðsluna.

Nú er komið að því marki að ekki eru líkur til þess að stefna þurfi að meiri samdrætti í sauðfjárframleiðslunni, miðað við að við getum nýtt okkur áfram útflutningsuppbætur svo sem lög heimila. Það er kunnugt að á fimm árum, frá 1977 til 1981, dugðu ekki útflutningsuppbætur til þess að fullu verði yrði náð og ríkissjóður greiddi öll þessi ár verulegar fjárhæðir eða útvegaði lánsfjármagn sem nam verulegum fjárhæðum til þess að bæta við útflutningsuppbætur sem lögboðnar eru. Á síðasta ári var það hins vegar svo, að samkv. bráðabirgðauppgjöri þurfti ekki að nota að fullu þann útflutningsbótarétt sem landbúnaðurinn á. Þá voru notaðar útflutningsuppbætur um 182 millj. kr. af 192.6 sem landbúnaðurinn átti rétt á samkv. 10% reglunni eða 94.5% af útflutningsbótaréttinum. Miðað við að síðan hefur orðið samdráttur í sauðfjárstofninum tel ég að komið sé að þeim mörkum að ekki sé rétt að hvetja að sinni a.m.k. til þess að bændur fækki búfénaði sínum. Á hitt ber að líta, að þarna er um nokkra framleiðslu að ræða af hálfu annarra en bænda, og þó að ekki séu nein stefnuatriði um það í þessari till. að taka fyrir slíka framleiðslu er ljóst að það skerðir nokkuð möguleika bændastéttarinnar í þessum efnum. Hér er þó um mikilvæga framleiðslu margra einstaklinga að ræða, kannske fyrst og fremst sem tómstundaiðju, — iðju sem þéttbýlisbúar sækja til lífsfyllingu og mikla ánægju.

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja þetta atriði miklu meira. Ég vil aðeins geta þess, að nokkur stefnuatriði varðandi sauðfjárframleiðsluna, umfram það sem þegar hefur verið sagt, eru: Að reyna til þrautar að gera útflutning á kindakjöti hagkvæmari með öflun nýrra og betri markaða og auka hagkvæmni á öllum framleiðslustigum. Þegar ég segi öllum framleiðslustigum á ég auðvitað bæði við framleiðslu bændanna sjálfra, en ekkert síður við vinnslustig landbúnaðarafurða. Á þeim vettvangi eigum við margt enn ógert.

Verulega hefur verið unnið að því að freista þess að taka upp nýjar aðferðir í vinnslu landbúnaðarvara og þarf ekki að rekja það. Það hefur verið gert með mjög miklum ágætum í mjólkurframleiðslunni. Kjötvinnsla hefur verið nokkru einhæfari, en nú á allra síðustu árum hefur verið unnið að því að gera þá vinnslu fjölbreyttari. Vænti ég að það muni leiða til þess að sú þýðingarmikla framleiðslugrein haldi sínum mörkuðum betur og geti e.t.v. unnið nýja markaði innanlands og utan. A.m.k. er nauðsynlegt að vinna sem ítarlegast á þessu sviði því að það er okkur nauðsyn að þær hollu og góðu matvörur, sem framleiddar eru af íslensku þjóðinni, séu reiddar þannig á borð neytenda að þær a.m.k. haldi sínum hlut gagnvart annarri framleiðslu og helst sæki á og verði viðurkenndar sem sérstakar vörur hvað gæði og allt útlit snertir. Ég er sannarlega ekki vonlaus um að það geti tekist, að við getum unnið okkur sess erlendis með sérvörur af einhverju tagi, þá einkanlega úr íslenska dilkakjötinu, sem geti orðið þar mikilvægar og selst á betra verði en hinn almenni markaður gefur tilefni til, en til þess þarf sérvinnslu og til þess þarf útlit og annað að vera við hæfi slíkra vara.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta efni, en ég tel að það sé í rauninni að líða sú tíð að við getum haldið áfram að flytja út t.a.m. dilkakjöt í heilum skrokkum í grisjupokum. Ef við ætlum að halda því áfram er ljóst að við verðum algerlega undir á kindakjötsmörkuðum heimsins. Það þarf því að breyta um. Sú breyting er þegar byrjuð hjá okkur í verulegum mæli, bæði að pakka kjötið í plast og eins einstaka hluta skrokksins í dýrari umbúðir.

Það segir í stefnuatriðum varðandi sauðfjárframleiðsluna að keppa beri að því að bæta nýtingu heimalanda og jarða. Það verður auðvitað alltaf grundvallaratriði. Ennfremur segir, að reynist óhjákvæmilegt að draga saman sauðfjárframleiðslu skuli kappkosta að sá samdráttur verði hjá þeim bændum sem auðveldast eiga með að mæta honum með tilliti til bústærðar og annarra framleiðslumöguleika og að því verði náð með takmörkun fjárfestingarlána, kjarnfóðurgjaldi og beinu samkomulagi við einstaka bændur.

Þessar leiðir hafa í raun verið farnar og kunnugt er að ríkisstj. ákvað að verja nokkru fé á síðasta ári til að koma til móts við óskir Framleiðsluráðs landbúnaðarins um fækkun sauðfjár samkv. frjálsu samkomulagi. Það eru líkur til að sauðfé í landinu hafi, eins og áður sagði, fækkað um allt að 50 þús. í haust, en aðeins að litlum hluta með slíkum samningum og svokölluðu frjálsu samkomulagi, þannig að sá þáttur varð ekki afgerandi, nema þá að því er tók til þeirra sauðfjárbænda, sem búa við riðuveikt fé, en lögð var áhersla á að beina því máli sérstaklega í þann farveg.

Í sambandi við sauðfjárframleiðsluna og sölu á þeim afurðum er rétt að geta þess, að á síðasta ári var samið með tilstyrk ríkisstj. um verulega aðstoð við fátækar þjóðir, við Pólland og Líbanon, og þá þannig að sú aðstoð var færð yfir í matargjafir. Það var gefið kindakjöt í stað þess að til þessa hefur venjulega verið um að ræða að aðstoð Íslands við þróunarlöndin og aðrar fátækar þjóðir hafi verið í formi fégjafa. Tel ég þetta nokkuð merkilegt mál og í rauninni tímamót í sambandi við aðstoð Íslands við fátækar þjóðir. Er ábyggilega heppilegt fyrir okkur Íslendinga, sem framleiðum matvæli umfram það sem þjóðin þarf á að halda, að við beinum okkar aðstoð við aðrar þjóðir yfir í þennan farveg.

Um hross er það að segja, að hrossaafurðir eru nú taldar nema um 1% af heildarlandbúnaðarframleiðslunni eða rúmlega 1%. Hrossaafurðir og hrossaeign hafa því samkv. þessu ekki svipað því jafnmikla efnahagslega þýðingu og þær greinar sem ég hef nefnt hér á undan. En það er talið að framtalin hross á landinu séu um 52–53 þús. og þeim hefur fjölgað mjög á síðari árum. Þessi hrossaeign hefur færst mjög mikið í hendur þéttbýlisbúa og það er ekkert vafamál að hrossastofninn í landinu hefur miklu meira gildi en hin beina efnahagslega þýðing segir til um samkv. þessum skýrslum. Ég skal ekki rekja það. Þetta er öllum ljóst. En markaðir fyrir lífhross erlendis hafa verið að þrengjast. Á hinn bóginn hefur nokkuð rýmkast um markaði erlendis fyrir hrossakjöt fyrir sæmilega gott verð og auk þess eru nokkrar afurðir hrossa seljanlegar erlendis til lyfjagerðar. Svo er til að mynda um blóð úr fylfullum hryssum og á síðasta hausti voru seld öll miltu úr hrossum til lyfjagerðar erlendis, og er það nýmæli. Einnig er nú mögulegt að selja fleiri innyfli úr hrossum og öðrum sláturdýrum hérlendis. Er líklegt að unnt verði til að mynda að selja á sæmilegu verði öll lungu sem til falla á næsta hausti. Kunna þannig að opnast markaðir, ef vel er að hugað, varðandi einstakar framleiðsluvörur, sem lítt hefur kannske verið hirt um að sinna til þessa.

Alifuglar eru taldir gefa af sér um 7% af framleiðsluverðmæti landbúnaðarins. Nokkrar sveiflur hafa verið í framleiðslu alifuglabúa, einkum í eggjaframleiðslunni, en í heild má segja að framleiðsla bæði eggja og kjúklingakjöts hafi verið nokkurn veginn í jafnvægi eða í samræmi við markaðinn, þó að um sveiflur hafi verið að ræða. Það er vissulega nokkuð athugandi að framleiðsla á afurðum alifugla virðist vera að færast í vaxandi mæli í hendur stórbúa. Er það í sjálfu sér nokkurt áhyggjuefni að þessi framleiðslugrein virðist ekki þrífast nema að einhverju leyti sem aukabúgrein og hin minni bú eiga sí og æ erfiðara uppdráttar í samkeppni við stórbúin, sem framleiða langmestan hluta framleiðslumagnsins.

Í sambandi við svínakjötsframleiðsluna má segja einnig að um jafnvægi hafi verið að ræða varðandi þá framleiðslugrein miðað við innlendan markað. Svínakjötsframleiðsla er um 1.5% af heildarframleiðslumagni landbúnaðarafurða. Það er rétt að geta þess, að fyrir skömmu eru hafnar rannsóknir á kjötgæðum og vaxtargetu íslenska svínastofnsins, sem virðast gefa til kynna að þessi búfjárstofn okkar Íslendinga þurfi mikilla kynbóta við til þess að hann standi jafnfætis því sem best gerist erlendis.

Loðdýraafurðir voru taldar nema um 1.5% af framleiðslu landbúnaðarins 1980. Loðdýrabúum hefur fjölgað mjög, einkanlega á síðasta ári. Minkabú voru 1980 5 talsins og svo er enn, minkabúin eru enn 5 talsins, en refabú eru nú yfir 80 talsins og allmargir bændur hafa fengið leyfi fyrir rekstri refabúa til viðbótar við þá sem þegar hafa stofnað þau. Það eru bundnar miklar vonir við þessa nýju búgrein, loðdýraframleiðsluna. Þær vonir verður þó að meta af raunsæi, ekki af óhóflegri bjartsýni. Við höfum vitað það alveg frá því snemma síðasta vor að yfirvofandi var verðfall á refaskinnum. Það hefur einnig komið á daginn vegna þess hve gífurlega hefur vaxið framleiðsla á refaskinnum í heiminum. Þess vegna er líklegt að við eigum nú fyrir höndum nokkra lægð í verði á þessari framleiðslu, en þó er ekki talin nein yfirvofandi hætta á því að ekki verði mögulegt að selja refaskinn með sæmilegu móti.

Í sambandi við loðdýraræktina er rétt að vekja á því athygli, að sjúkdómur hefur herjað og herjar á minkastofninn í landinu. Þessi sjúkdómur hefur verið gangandi í 3 af þessum 5 minkabúum og valdið þar miklu tjóni. Tekin hefur verið ákvörðun um að leitast við að útrýma þessum sjúkdómi og hefur nú minkastofninn í einu af þessum loðdýrabúum verið felldur. Samið hefur verið um að kaupa minka frá Danmörku, sem vonast er til að geti verið heilbrigðir, — ég segi vonast er til því að það er seint hægt að fullyrða með neinni vissu að við fáum ekki þennan sjúkdóm með minkunum aftur eða þá annan, en tvær aðrar pestir hrjá minka í nágrannalöndum okkar. En það er auðvitað gert allt sem mögulegt er til að freista þess að við fáum heilbrigðan stofn og leggja menn vitaskuld mikið í hættu til þess að það megi takast. Allrar varúðar verður gætt eins og mögulegt er og er sannarlega vonandi að það takist að koma þessum skiptum á minkum við áfallalaust.

Á síðasta ári voru afgreidd lög frá Alþingi sem gerðu mögulegt að lækka sjóðagjöld landbúnaðarins á þessari framleiðslu og var það mjög mikils virði fyrir loðdýraræktina. Með sama hætti hafa verið felldir niður tollar og sölugjöld til jafns við það sem gerist hjá samkeppnisiðnaðinum og er þetta einnig mjög þýðingarmikið til þess að þessi nýja búgrein geti staði sig í samanburði við sams konar framleiðslu í nágrannalöndum.

Skipuð hefur verið nefnd til þess að skila tillögum um skipulag fóðurstöðva fyrir loðdýraræktina og hefur hún skilað bráðabirgðaáliti, sem leitast verður við að vinna eftir.

Til viðbótar við þetta er rétt að vekja athygli á þeim stefnuatriðum varðandi loðdýraræktina að efla sem mest leiðbeiningarþjónustu og fræðslustarfsemi, en í mörgum greinum er þekking af skornum skammti varðandi þessa nýju framleiðslugrein, og þá er jafnframt, sem er auðvitað undirstaða þess að hún geti gengið, unnið að því að koma þeirri menntun sem til þarf inn í landið og í tengslum við bændaskólana.

Einnig vil ég vekja athygli á því stefnuatriði varðandi loðdýraræktina, að þar starfi virkt félag loðdýrabænda, sem fari með hagsmunamál þeirra og tengsl þessarar búgreinar við bændasamtökin. Þessi samtök hafa tekið til starfa og þurfa þau vissulega á stuðningi að halda fyrsta kastið, en eðlilegt er að þau verði byggð þannig upp að þau geti síðar staðið á eigin fótum og hafi í sínum höndum einnig þau tengsl, sem hér er vikið að, við bændasamtökin í heild.

Garð- og gróðurhúsaafurðir eru verulegur þáttur í landbúnaðarframleiðslunni eða sem nemur um 6% af heildarframleiðslumagninu. Af því eru um 2/3 hlutar kartöflur og rófur, en 1/3 hluti gróðurhúsaafurðir. Fyrst var framleitt í gróðurhúsum hér á Íslandi 1924 og það ár voru aðeins 150 fermetrar undir gleri. 1980 var fjöldi garðyrkjustöðva um 130 og voru þá um 170 þús. fermetrar lands undir gleri. Segja má að þáttaskil hafi orðið við stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins, sem tók til starfa árið 1939.

Það er rétt að vekja á því athygli, að þrátt fyrir að mikil þróun hafi orðið í þessari framleiðslugrein eigum við þar enn verulega möguleika að því er talið verður. Við framleiðum nú um 30 tegundir grænmetis og ávaxta í landinu og fjöldi þessara tegunda fer sífellt vaxandi. Þrátt fyrir það gætum við enn unnið verulega á til þess að mæta markaðsþörfinni innanlands, en neysla á þessum afurðum fer einnig vaxandi eftir því sem fjölbreytni vex. Ég tel því að í þessari grein eigum við einnig nokkra ónotaða möguleika. Við þurfum því að leggja áherslu á frekari þróun, bæði fræðilega og tæknilega, í þessari grein við uppbyggingu garðyrkjustöðva og varðandi fjármögnun í þeim efnum.

Lax- og silungsveiði er talin nema um 3% af heildarframleiðslumagni landbúnaðarins og við eigum verulega mikið undir þessari búgrein og hlunnindaafrakstri í það hella tekið. Ég vil aðeins minna á að í þessum efnum hefur mikið verið unnið á síðustu árum við byggingu fiskræktarstöðva og hafbeitarstöðva.

Það er rétt að vekja athygli á því sem stefnuatriði, sem unnið hefur verið eftir, að koma þurfi upp útibúum frá Veiðimálastofnun úti um land til þess að starfsmenn þessara útibúa veiti fiskræktendum og veiðibændum þá þjónustu sem óskað er eftir. Nú hafa verið stofnuð eða ákveðin þrjú útibú frá Veiðimálastofnun í landinu. Hið fyrsta hefur starfað nokkur ár í Borgarnesi, annað er á Egilsstöðum fyrir Austurland og hið þriðja hefur verið ákveðið á Hólum í Hjaltadal fyrir Norðurland.

Margt mætti segja um þá grein sem hér er um að ræða og felur hún væntanlega í sér mjög mikla möguleika fyrir íslenskan landbúnað og íslenskt efnahagskerfi. Ég vil einnig vekja athygli á því, að þekking í þessum efnum er undirstaða framfara. Þess vegna er unnið að því að flytja menntun í fiskrækt og fiskeldi inn í landið og það er unnið að auknum rannsóknum, auknum seiðamerkingum og annarri þekkingarleit sem verður undirstaða þess að framfarir verði í þessari grein.

Aðrir þættir í framleiðslu landbúnaðarins eru minni háttar en hér hefur verið talið. Þó leggur skógrækt nokkuð fram til heildarframleiðslu landbúnaðarins og rétt er að vekja á því athygli, að skógrækt er og verður væntanlega grein í landbúnaði sem hefur meiri þýðingu í framtíðinni en þegar er orðið.

Ég vil þá aðeins víkja fáum orðum að því, sem er auðvitað undirstaða þessarar framleiðslu, og það er landið sjálft, eins og ég hef þegar getið um, og afrakstur þess, en umfram allt er það þó ræktun, heyfengur og fóðuriðnaður. Á það er lögð veruleg áhersla og verður seint lögð of mikil áhersla á að tryggja fóður í landinu fyrir þann búfénað sem í landinu er. Við þurfum að keppa að því að framleiða sem mest af öllu fóðri okkar í landinu sjálfu. Þess vegna er jafnhliða ræktun og fóðurframleiðslu bænda sjálfra unnið að því að byggja upp graskögglaverksmiðjur og fóðurstöðvar til þess að sinna þessu hlutverki. Ég tel að það sé gífurlega þýðingarmikið atriði fyrir íslenska þjóð að öryggis sé gætt í framleiðslu matvæla með því að við framleiðum matvælin sem ítarlegast í landinu sjálfu, en um leið að öryggis sé gætt við það efni að fóðurframleiðslan fari fram í landinu sjálfu. Á árinu 1979 voru flutt inn um 84 þús. tonn af fóðri, en síðan hefur innflutningur dregist saman og var t.d. árið 1980 um 60 þús. tonn, þannig að þegar vannst nokkuð í áttina að framleiðslu á fóðri innanlands. En við þurfum að vinna betur í þeim efnum og að því er unnið svo sem lögð er áhersla á í þessari till.

Varðandi II. lið í meginstefnumörkun þessari, sem fjallar um fjárhagslega afkomu bænda, þá er byggt á þeim grundvallarmarkmiðum framleiðsluráðslaga frá 1947, að tekjur bænda skuli vera hliðstæðar tekjum verkamanna og iðnaðarmanna. Ennfremur er það lagt til grundvallar, eins og þegar hefur verið vikið að, að landbúnaðurinn eigi kost á útflutningsbótum, sem verði að hámarki 10% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar, og að stjórnunaraðgerðum verði beitt til að halda framleiðslunni innan þeirra marka miðað við aðstæður á hverjum tíma. Í þessari till. er vikið að því að unnið verði áfram að verðlagningu búvara á grundvelli framleiðsluráðslaga, en stefnt að beinni þátttöku ríkisvaldsins í samningagerð. Það atriði er til athugunar, en er vandasamt og viðkvæmt hvernig með skuli fara þannig að samkomutag takist um.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um félagsleg atriði, sem i till. eru greind. Ég vil þó leggja á það nokkra áherslu að það er auðvitað kominn tími til að unnið verði að því að koma á möguleikum bænda og sveitafólks til þess að taka sér orlof, en enn hefur ekki náðst samkomulag um hvernig því verður fyrir komið. Það er hins vegar ljóst, að búi sveitafólk ekki við svipuð félagsleg réttindi og aðrar stéttir í landinu leitar ungt fólk í aðrar atvinnugreinar.

Í III. lið þessarar till. eru þau meginatriði að búsetu verði haldið í svipuðu horfi og verið hefur í landinu. Það er í rauninni hlutverk landbúnaðarins, sem þjóðfélagið hefur fengið honum í hendur, að treysta byggð um allt Ísland. 1980 var talið að um 4300 bændur stunduðu búvöruframleiðslu, þar af um 4 þús. nautgripa- eða sauðfjárrækt, en 300 framleiðslu annarra búvara. Í landbúnaðinum voru talin þá um 7300 ársverk eða tæplega 7% alls vinnuafls í landinu. Um þessi efni má lesa mjög ítarlega í fskj. sem fylgir þessari till.

Ég tel, að um leið og lögð er áhersla á búsetu og byggðaþróun sé rétt að gera sér grein fyrir því að það er auðvitað hlutverk þjóðfélagsins að sjá til þess að byggð geti haldist með sæmilegum hætti í landinu. Þess vegna er auðvitað sá opinberi stuðningur, sem landbúnaðurinn fær í sumum greinum, að nokkru leyti til þess að gera þessa búsetukeðju mögulega. Félli hann niður mundi einnig byggðin falla niður á stórum svæðum. Ég hygg að flestir Íslendingar vilji sjá land sitt byggt með svipuðum hætti og nú er og muni þess vegna, þegar grannt er skoðað, vera ánægðir með að verja fjármunum til þess að þetta sé mögulegt.

Ég vil svo aðeins segja það undir tók máls míns, að ekkert vafamál er að eftir að landbúnaðurinn hefur tekið á sig þann samdrátt í hefðbundinni búvöruframleiðslu sem ég hef lýst hér að framan og samtímis hafa 3 af síðustu 4 árum verið hörð og köld ár, þá búa bændur við misjafna afkomu. Þetta hafa þeir ekki fengið bætt í tekjum sínum. Þeir hafa fengið nokkra aðstoð umfram það sem lög gera beint ráð fyrir til þess að gera þetta mögulegt, en víst er að af þessum sökum er fjárhagsleg afkoma þeirra misjöfn. Ég hef því sett til þess nefnd manna undir forustu Bjarna Braga Jónssonar hagfræðings að kanna fjárhagslega afkomu bænda og skila skýrslu um það mál til rn. ásamt tillögum til úrbóta eftir því sem þörf kann að þykja til. Ég á auðvitað von á að það þyki ástæða til einhverra ráðstafana og er ekki neitt undarlegt miðað við þær aðstæður sem bændur hafa þurft að ganga í gegnum nú síðustu árin. En ég vil jafnframt segja það, að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa verið gerðar með fullu samþykki bændastéttarinnar og með slíku fulltingi hennar að það hefur mátt segja að tæplega hafi heyrst þar óánægjurödd. Þess vegna er það víst, að ef ýmsar aðrar stéttir tækju með líkum hætti á vandamálum sínum sem bændastéttin hefur gert, þá væri um margt öðruvísi umhorfs í okkar landi.

Ég vil svo aðeins leggja áherslu á nokkur meginatriði þessa máls. Það er sem sé, að við þurfum að nýta gæði landsins til framleiðslu á landbúnaðarafurðum á sem hagkvæmastan hátt og án þess að landgæði rýrni. Við þurfum að fullnægja þörf þjóðarinnar fyrir matvæli, sem hagkvæmt telst og skynsamlegt að framleiða, m.a. með tilliti til sjálfsbjargargetu okkar og öryggis á óvissum tímum, og samhæfa framleiðsluna sem best markaðinum. Við þurfum að sinna óskum neytenda um vörugæði og stöðugt framboð fjölbreyttra fæðutegunda og við þurfum til þess að ná því markmiði að efla matvælavinnslu og gera þá grein þannig úr garði að neytendur fái þessar hollu og góðu vörur á borð sitt með þeim hætti sem þeir geta best kosið sér. Við þurfum að halda framleiðslukostnaði í skefjum og ná með því og betri nýtingu mannafla, aðfanga og aðstöðu aukinni framleiðni. Við þurfum að byggja framleiðslu á innlendum aðföngum, en forðast að byggja hana um of á erlendu fóðri og orku. Við þurfum að nýta allar innlendar orkulindir og aðra náttúrlega sérstöðu landsins til verðmætasköpunar í nýjum búgreinum, t.d. með ylrækt, með eflingu loðdýraræktar, fiskeldis o.s.frv. Við þurfum að halda þannig á þessum málum að okkur takist að tryggja efnahagslegt sjálfstæði bænda, félagslegt jafnrétti bændafólks og varðveita eignar- og umráðarétt þess á bújörðum landsins. Og við þurfum að gæta þess að starfsskilyrði landbúnaðarins séu ekki lakari en annarra atvinnugreina í landinu. Með þessum hætti treystum við því, að okkur takist það markmið okkar að viðhalda byggð um allt Ísland. Ég trúi að það sé einlæg sannfæring þjóðarinnar og allir Íslendingar vilji að land okkar beri blómlega byggð sem næst því sem nú gerist, enda þótt alltaf verði þar einhver þróun.

Að lokum vil ég láta þess getið, að landbúnaðurinn er þess eðlis atvinnuvegur að skarpar breytingar og byltingarkenndar aðgerðir ern ákaflega dýrar. Þess vegna má aldrei grípa til aðgerða sem bera þau mörk. Þess vegna þurfa breytingar að gerast fyrir þróun. Það þarf þó alltaf að vera vakandi til að fylgja eftir aðstæðum markaðarins — aðstæðum sem sumpart skapast í landi okkar sjálfra, en skapast einnig af neysluvenjum og markaði erlendis sem við getum átt aðgang að.

Herra forseti. Ég legg svo til að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. atvmn.