20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

75. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um þá till. sem hér liggur fyrir og hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir. Ég vil fyrst segja það með örfáum orðum að ég fagna því hve mikið tillit hefur í raun og veru verið tekið til þeirra tillagna sem Alþfl. hefur barist fyrir í um tvo áratugi í landbúnaðarmálum í þessari till. Ég geri mér fulla grein fyrir því að Alþfl. hafi tekist að hnika til þeirri stefnu, sem ríkt hefur í íslenskum landbúnaðarmálum, með gagnrýni sinni á því ófremdarástandi sem ríkt hefur í þeim málaflokki. Að vísu hefur flokkurinn hlotið fyrir það ámæli frá ýmsum aðilum. Hefur hann látið sér það í léttu rúmi liggja, enda hefur komið í ljós, þegar árin hafa liðið, að hann hefur haft á réttu að standa.

Ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir á hverju Alþfl. byggir afstöðu sína í landbúnaðarmálum. Fáar þjóðir hafa upplifað slíka umbyltingu í atvinnumálum sem Íslendingar hafa gert á síðustu 100 árum. Fyrir einni öld bjó minna en sjötti hluti þjóðarinnar í þéttbýli. Nú hefur þetta algerlega snúist við, um 14% þjóðarinnar teljast nú búa í dreifbýli. Þessi búseturöskun endurspeglar vel þær breytingar sem orðið hafa á atvinnuháttum þjóðarinnar. Stórstígar framfarir í veiðitækni og nýtingu sjávarafla hafa dregið til sín vinnuafl úr sveitum landsins. Atvinnubyltingunni við sjávarsíðuna fylgdi hliðstæð umbylting í búskaparháttum landsmanna. Gífurleg framleiðniaukning varð í landbúnaði. Það losnaði því um vinnuafl sem sjávarútvegurinn, fiskvinnslan og vaxandi verslunar-, iðnaðar- og þjónustustarfsemi gat tekið við og þurfti á að halda. Breytingar þær sem orðið hafa á atvinnuháttum landsmanna og sú búseturöskun sem þeim hefur fylgt hefur ekki orðið erfiðleika- eða sársaukalaus. Þessar breytingar hafa á hinn bóginn fært Íslendingum þann efnahagslega ávinning, sem er nauðsynleg forsenda sjálfstæðis þjóðarinnar, enda voru aflvakar þessara breytinga ýmsir þeir sömu og sjálfstæðisbaráttunnar.

Efnalegar framfarir hafa ekki einungis skilað Íslendingum í hóp sjálfstæðra þjóða. Þær hafa skilað okkur í hóp þeirra þjóða sem taldar eru þróaðar í efnahagslegu tilliti. Þessu fylgir að tiltölulega lokað og einangrað samfélag hefur breyst í opið samfélag sem er meðvitað um umhverfi sitt. Íslendingar þekkja vel til lífskjara í ýmsum grannlöndum. Þessi þekking og eðlilegur samanburður á efnalegri afkomu hefur nú á nokkrum árum leitt til þess að þúsundir manna hafa flutt af landi brott. Heimsmyndin sjálf er breytt, en jafnframt verður að telja að íslenskir atvinnuvegir hafi ekki reynst fyllilega samkeppnisfærir um vinnuafl Íslendinga við atvinnuvegi grannþjóða. Þessi þróun hefur verið uggvænleg og við verðum, eins og hefur tekist á síðari árum, að hamla gegn henni sem best við getum.

Það verður þó að segja að við getum trauðla breytt heimsmyndinni allri. En við getum eflt og endurnýjað atvinnuvegi okkar á þann veg, að við búum hér við lífskjör sem fyllilega standist samanburð við nágranna okkar.

Ég vil geta þess, að fyrir nokkru gaf orkuspárnefnd út spá um mannafla í atvinnugreinum og þróun þess á árabilinu 1980 til ársins 2000. Þar koma fram tölur, sem renna stoðum undir þann formála sem ég hef haft að þessum orðum mínum, um það að ugglaust verður lítil breyting á þeirri þróun, sem verið hefur hér á landi síðustu áratugina, þ.e. að mannafli færist frá landbúnaði til annarra atvinnugreina. Í tölum orkuspárnefndar segir að miðað við árið 1980, þegar atvinnutækifæri í landbúnaði eru talin 7 800, verði þau 5 500 árið 2000, eða þeim fækki um 2 300. Um fiskvinnslu er sagt að þar fækki um 100, úr 5 100 í 5 000. Þó eru margir sem telja að þessi fækkun verði ennþá meiri með tilkomu tölvuvæðingar og vélmenna, sem taka að verulegum hluta við störfum fólks í fiskiðnaði.

Þá má ætla að fjölgun í byggingarstarfsemi verði um 1 700 á þessu tímabili, úr 11 300 í 13 000, iðnaðurinn þurfi að skapa 6 100 ný atvinnutækifæri, úr 17 900 í 24 000, og að þjónustugreinar þurfi um 23 000 ný atvinnutækifæri, fjölgi úr 54 100 í 76 800.

Herra forseti. Til þessara staðreynda verðum við að taka tillit þegar við ræðum um landbúnaðarmál. Meginmarkmið í heildarstefnu í atvinnumálum hlýtur alltaf að vera að velsæld þegnanna verði sem mest. Sá þáttur velsældar sem nútíma þjóðfélag hefur skipað í öndvegi, er hagsæld, efnaleg afkoma. Þessi þáttur velsældar er samtvinnaður öðrum þáttum þar sem gildastir eru jöfnuður og öryggi. Stefnumótun á sviði atvinnumála verður að taka tillit til þess að atvinnuvegirnir eru samtvinnaðir. Sérhver atvinnugrein sækir aðföng sín og selur afurðir sínar í einhverjum mæti til annarra greina. Af þessari ástæðu er nauðsynlegt að stefnan sé heilstæð og nái til allra greina. Jafnframt er æskilegt að sem víðtækust stjórnmálaleg samstaða náist um höfuðatriði stefnunnar, þannig að langtímamarkmið séu skýr og atvinnuvegirnir taki mið af þeim við uppbyggingu sína.

Mig langar að fara nokkrum orðum um landbúnaðarstefnu liðinna ára. Í lögum um framleiðsluráð frá árinu 1959 er mælt svo fyrir, að tryggja skuli greiðslu á þeim halla sem bændur kunni að verða fyrir á útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessara tryggingar ekki vera hærri en sem jafngildir 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár, miðað við það verð sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar. Fram til ársins 1959, þegar þessi ákvæði um verðbætur á útflutning voru í lög leidd með brbl., hafði landbúnaðarframleiðslan ávallt tekið mið af markaðsþörf innanlands. Fram til þess tíma hafði útflutningurinn, þegar hann var allra mestur, aðeins numið 5.45% af heildarverðmæti framleiðslunnar. Telja verður að höfuðmarkmið þessarar lagasetningar hafi verið í fyrsta lagi að tryggja afkomu framleiðenda, í öðru lagi að tryggja stöðugt framboð og í þriðja lagi að koma í veg fyrir að halli á útfluttum afurðum væri jafnaður með hækkun á verði á innanlandsmarkaði. Það verður að telja jafnframt að lagasetningin hafi náð því markmiði að tryggja neytendum stöðugt framboð landbúnaðarafurða. Hins vegar verður það að játast að þetta ákvæði hefur ekki tryggt afkomu framleiðenda.

Á síðustu árum hefur mikið vantað á að 10% verðbætur dygðu til þess að jafna sívaxandi halla á útflutningi. Framleiðendur hafa ekki haft neina tryggingu fyrir því að viðbótarfjárveitingar fengjust og reyndar orðið að taka á sig verulegan halla sjálfir. Í þessu sambandi er rétt að minna á að þegar þessi lög voru sett virðist engum manni hafa til hugar komið að framleiðslan tæki slík stökk, að hámark verðábyrgðar yrði notað ár eftir ár og hrykki jafnvel ekki til. Markmiðið var alls ekki að framleiða langt umfram þarfir þótt sú hafi orðið raunin.

Ég vil skjóta því inn hér, herra forseti, að það er auðvitað dapurlegt að þurfa að deila um það á þingi ár eftir ár að draga þurfi úr framleiðslu á matvælum. Ég hef lítið svo á, að það hlyti að vera eitt af forgangsverkefnum hverrar þjóðar, í fyrsta lagi að verða sjálfri sér næg með framleiðslu á matvælum og í öðru lagi að framleiða matvæli fyrir aðra. Nú hefur þróunin því miður orðið sú á þeim mörkuðum, sem við höfum kannske helst getað selt okkar varning á, að þar hafa m.a. Efnahagsbandalagslöndin náð fótfestu, og með því fyrirkomulagi sem þar ríkir nú, stórkostlegum niðurgreiðslum á öllum þáttum landbúnaðarframleiðslunnar, höfum við engan veginn getað keppt við það verð sem þar hefur verið í boði. Hins vegar hef ég stundum verið að gæla við þá hugmynd, hvort það væri ekki tilraunarinnar virði að reyna t.d. um tveggja til þriggja ára skeið að nota einhvern hluta af útflutningsuppbótunum, sem greiddar eru með landbúnaðarafurðunum, til þess að gera stórkostlegt átak í sölumálum landbúnaðarins. Ég held nefnilega að með því að gera betur úr garði þær afurðir sem við seljum, og á ég þá við kjöt, osta og jafnvel smjör, með því að búa um þetta í glæsilegum umbúðum, ganga betur frá því til neyslu á erlendum markaði, ættum við að geta fundið fyrir þennan varning meiri markað en nú er.

Ég vil minna á það, að kaupfélagið á Svalbarðseyri hefur gert mjög merkilega tilraun í þessum efnum, og ég veit ekki betur en sú tilraun hafi tekist allþokkalega og að fengist hafi talsvert hærra verð fyrir kjötið heldur en eins og það hefur verið selt úr landi að undanförnu.

Ég vil halda áfram með útflutningsuppbæturnar. Það má segja að lögin frá 1959 banni jöfnun á halla útflutnings með verðhækkun á innanlandsmarkaði. Hallinn á útflutningi landbúnaðarafurða hefur því ekki verið jafnaður með beinum hætti af neytendum. Lögin um verðábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings landbúnaðarafurða hafa einungis að mjög takmörkuðu leyti náð tilgangi sínum. Að mínu mati tryggja þau hvorki hagsmuni neytenda né framleiðenda og hafa beinlínis stuðlað að óhagkvæmri framleiðslu. Það ófremdarástand, sem ríkti í framleiðslu- og verðlagsmálum landbúnaðarins, kallaði því á aðgerðir til framleiðsluhömlunar sem loks var gripið til árið 1979. Ef við frá þessu hlaupum yfir til þeirra markmiða sem ég tel að við ættum að hafa fyrir augum til næstu aldamóta í tengslum við þær tölur sem ég gat um í mannaflaspá orkuspárnefndar, þá vil ég nefna þessi:

Stefnunni í landbúnaðarmálum verði hagað með tilliti til fjögurra meginmarkmiða:

1. Framleiðendum búvöru verði tryggð afkoma sem er sambærileg við afkomu verkafólks og iðnaðarmanna.

2. Landsmönnum verði tryggt stöðugt framboð landbúnaðarafurða með sem lægstum tilkostnaði og án þess að langtíma hagsmunum og öryggi sé stefnt í hættu.

3. Byggð verði í meginatriðum haldið í sveitum landsins í litlum mæli og nú gerist.

4. Landnýtingu verði stillt í hóf þannig að ekki verði of nálægt landinu gengið. Réttur landsmanna til útivistar og samskipta við náttúru landsins verði viðurkenndur.

Út frá almennum réttlætis- og jafnaðarsjónarmiðum verður að teljast sjálfsagt að framleiðendur búvöru njóti í heild afkomu sem sambærileg er við afkomu annarra helstu starfsstétta í þjóðfélaginu. Í þessu tilliti er beinn tekjusamanburður að sjálfsögðu ekki einhlítur mælikvarði á lífskjör. Þar kemur ýmislegt mat aðstæðna og aðstöðu einnig til álita. Ekki sýnist líklegt að á næstu árum eða áratugum verði unnt að afla hagstæðra markaða fyrir íslenskar búvörur á erlendum mörkuðum nema til komi mjög umtalsvert átak í sölumálum og markaðsöflun. Engar líkur eru til þess að unnt verði að bæta afkomu framleiðenda búvöru ef áfram væri í verulegum mæli treyst á erlendan markað. Samdráttur í framleiðslu er því nauðsynlegur að því marki, að búvöruframleiðslan miðist einungis við þarfir innanlandsmarkaðar. Þarfir innanlandsmarkaðar eru að sjálfsögðu afstæðar og þær eru einnig breytilegar. Hér verður einkum að hafa í huga verð vörunnar á innanlandsmarkaði, kaupmátt neytenda og loks hagsmuni iðngreina sem byggja. á aðföngum frá landbúnaði. Nýting innlends iðnaðar til framleiðslu á ullar- og skinnavörum hefur lengi verið slæm, þar sem lítil áhersla hefur verið lögð á fullvinnslu afurða en meira á magn.

Ýmislegt bendir til þess að samdráttur í framleiðslu ullar og skinna þurfi alls ekki að þýða fækkun atvinnutækifæra í þessum úrvinnslugreinum ef aukin áhersla væri lögð á að vinna afurðir betur en nú er gert.

Þær aðferðir til framleiðsluhönnunar, sem gripið var til árið 1979, voru tvíþættar. Annars vegar var heimilað að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda, þ.e. kvótakerfi, en hins vegar var lagt gjald á innflutt kjarnfóður.

Kvótakerfið er í grundvallaratriðum að mínu mati rangt. Það felur í sér vísbendingar um að mannafli í landbúnaði skuli vera óbreyttur. Afleiðing þessarar stefnu getur ekki orðið önnur en sú, að kostnaður á hverja framleidda einingu hækkar og framleiðnin minnkar.

Kjarnfóðurgjaldið er allt annars eðlis og hefur sannast á síðustu árum, sem áður var reyndar vitað, að verð kjarnfóðurbætis hefur afgerandi áhrif á magn mjólkurframleiðslu. Ljóst er þó að enn má draga nokkuð úr mjólkurframleiðslu, einkum ef unnt verður að jafna hana. Það virðist augljóst að hagkvæmt muni reynast að greiða sérstakar verðbætur á mjólk þá mánuði sem framleiðslan er minnst. Almennt verður að álíta að kjarnfóðurgjaldið eitt nægi til þess að stýra mjólkurframleiðslunni á þann veg, að hún falli vel að þörfum landsmanna.

Samdráttur á sviði sauðfjárframleiðslu er mun erfiðari en á sviði nautgripaframleiðslu. Á undanförnum árum hefur framleiðsla kindakjöts stundum farið 50% fram úr innanlandsneyslu. Ef sníða ætti framleiðsluna í einu vetfangi að þörfum innanlandsneyslu þyrfti því að draga framleiðsluna saman um nálægt þriðjung. Slíkur samdráttur mundi valda þeim byggðum landsins, sem þegar standa höllustum fæti, miklu tjóni. Aðlögun framleiðslu sauðfjárafurða að þörfum landsmanna hlýtur að verða að eiga sér stað á allmörgum árum. Það þarf að skapa aðstæður fyrir samdrátt í framleiðslu sauðfjárafurða. Þessar aðstæður verða því aðeins til staðar að markvisst verði unnið að fjölgun atvinnutækifæra í sveitum landsins. Hér þarf að mínu mati að leggja megináherslu á eftirfarandi:

1. Stuðning við nýjar búgreinar. Hér má nefna loðdýrarækt, fiskirækt í ám og vötnum og ræktun jarðávaxta.

2. Eflingu skógræktar.

3. Stuðning við ferðaþjónustu.

4. Eflingu smáiðnaðar í sveitum.

Samhliða aðgerðum af þessu tagi þarf að vinna að því að ullar- og skinnaiðnaður lagi sig að framleiðslusamdrætti með aukinni vinnslu afurða. Á alllöngu aðlögunartímabili, t.d. 4–8 árum, kæmi til greina að ákveða flöt skerðingarmörk kvótakerfis, þannig að t.d. væri um verðskerðingu að ræða á 5% afurða allra framleiðenda sauðfjárafurða.

Það sem hér hefur verið rakið miðar allt að því að fyrsttalda markmiði landbúnaðarstefnunnar verði náð. Þessar aðgerðir eru einnig forsenda þess, að neytendum sé tryggt stöðugt framboð afurða á sem hagkvæmustu verði.

Það er ljóst að landbúnaður hefur notið verulegrar sérstöðu meðal atvinnuvega landsmanna og er þar mjög samsíða sjávarútvegi. Þar hljóta hagkvæmnissjónarmið að víkja nokkuð fyrir öryggis- og atvinnusjónarmiðum. Eyþjóð á borð við Íslendinga verður að gæta þess að vera ævinlega sjálfbjarga um brýnustu nauðsynjar í mat, hvað sem aðflutningum til landsins kann að líða. Þessu grundvallarsjónarmiði ásamt með markvissri fjölgun atvinnutækifæra til sveita er ennfremur ætlað að tryggja að þriðja meginmarkmiði landbúnaðarstefnunnar verði náð, að byggð verði í meginatriðum haldið í sveitum landsins.

Það er þó fullkomlega ljóst að við náum ekki þeim efnahagslega ávinningi, sem við viljum ná með breyttri landbúnaðarstefnu, nema að nokkur fækkun býla eigi sér stað. Hér er ekki um það að ræða að leggja niður búskap í einhverjum tilteknum byggðarlögum, heldur felst í þessu að þeir framleiðendur sem rýrasta afkomu hafa, og þeir eru dreifðir um land allt, dragi saman framleiðslu eða hætti henni, en verði gefin ný tækifæri til bættrar afkomu í heimabyggðum.

Ég vil bæta því við, herra forseti, vegna umr. sem hefur átt sér stað síðustu daga um sauðfjárhald í þéttbýli, að ég tel að ná megi markmiðum í fækkun sauðfjár í landinu, ef mönnum er það mjög í mun, m.a. með því að kanna markvisst og á ákveðinn hátt hverjir það eru sem búa í nágrenni þéttbýlisstaða og hafa megintekjur sínar m.a. af vörubílaakstri eða verkamannavinnu í frystihúsum, en reka stór fjárbú meðfram. Ég segi það sem mína skoðun að ég tel gersamlega ófært að bændur, sem hafa allar sínar tekjur af búrekstri, líði fyrir það að hér í landinu eru menn sem stunda tómstundabúskap en hafa megintekjur sínar af annarri vinnu en landbúnaði.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mjög þessa umr., en það er hægt að fara mörgum orðum um till. þá sem hæstv. landbrh. hefur gert hér grein fyrir. Ég sakna þess nokkuð að sjá ekki í þeirri skýrslu ýmislegt sem ég hefði gjarnan kosið að þar væri inni, en það gefst kannske tóm til að ræða það síðar. En ég vil svona rétt undir lokin geta þess, að það eru nokkur atriði, ein 5–6 atriði, sem ég vildi nefna sem grundvallaratriði þegar við erum að ræða landbúnaðarmálin. Og ég get ekki neitað því að ég hef duggunar lítið gaman af að heyra þá sjálfstæðismenn, hæstv. landbrh. og hv. þm. Egil Jónsson, deila um landbúnaðarstefnuna eins og þeir hafa gert. Ég heyrði ekki annað en hv. þm. Egill Jónsson teldi að varta stæði steinn yfir steini í þáltill. hæstv. landbrh., enda hefur hann sjálfur flutt hér till., hv. þm. Egill Jónsson, sem hann ugglaust stendur og fellur með. En þetta er nú bara brot af þeirri tvístefnu, sem Sjálfstfl. rekur þessa dagana, ekki bara á sviði landbúnaðarmála heldur á flestum öðrum sviðum.

Ég ætlaði að geta hér að lokum, herra forseti, nokkurra atriða sem ég tel að verði að taka fullt tillit til þegar menn vilja ræða í alvöru stefnuna í landbúnaðarmálum. Ég held að karpumræður af því tagi sem hafa átt sér stað hér í þinginu undanfarin ár þjóni nákvæmlega engum tilgangi fyrir landbúnaðinn.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að það er grundvallaratriði fyrir lýðfrjálsa þjóð að hún haldi uppi þeirri matvælaframleiðslu sem hún getur. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er það auðvitað hörmulegt, þegar á það mál er lítið, að það skuli þurfa með „þvingunaraðgerðum“ að draga úr matvælaframleiðslu. Það er auðvitað skelfilegt í sveltandi heimi að það skuli þurfa að gera. Og ég endurtek það, að ég held að það væri ekki vitlausara en hvað annað að nota hluta útflutningsuppbóta, t.d. 10–15%, jafnvel 20% af þeim til þess að setja það fjármagn beint inn í markaðsöflun fyrir íslenskan landbúnað næstu árin. Ég er nánast sannfærður um að út úr þeirri leið, ef vel væri að málum staðið hér heima, gæti komið umtalsverður árangur.

Þá vil ég nefna það, að ég vil að stöðvuð verði sú arðlausa fjárfesting sem hefur átt sér stað í landbúnaði. Þegar ég segi það og tala um arðlausa fjárfestingu, þá á ég við það að allt of mörg bú í landinu eru rekin án þess að nokkur arður sé af því starfi sem þar er unnið. Og það gengur auðvitað ekki. Við vitum það allir. Arðlaus fjárfesting á Íslandi undanfarin ár hefur komið okkur inn á kreppuskeið sem við eigum eftir að líða fyrir næstu árin.

Ég er í þriðja lagi þeirrar skoðunar, að við höfum gert allt of lítið af því að haga búskap og búskaparháttum eftir landsháttum. Ég er alfarið þeirrar skoðunar, að við eigum með einhverjum ráðum, og það ætti nú að vera unnt þegar gróðurkortagerð lýkur, að vera með sauðfé þar sem best er að vera með sauðfé, þar sem það er afurðaríkast, þar sem haglendi er best, þar sem afréttir eru bestir og jafnvel þar sem heimahagar eru bestir, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar jafnframt, að við þurfum að efla mjög og bæta beit í heimahögum í stað þessa afréttarrekstrar, sem ákveðin rómantík hvílir yfir og menn iðka meira af rómantískum ástæðum heldur en annað. Sem sagt, það verði undinn bráður bugur að því að við skiptum landinu hreinlega eftir því hvar hagkvæmt er að reka hverja búskapargrein, mjólkurbúskap, jafnvel nautgripabúskap sérstaklega og fjárbúskap.

Í þessu sambandi dettur mér í hug að skjóta því að hæstv. landbrh., að eitt mesta þarfaverk sem hér yrði unnið á næstu árum væri að fækka hrossastofni landsmanna um um það bil helming, því ofbeit af völdum hrossa í landinu er stórkostlegt vandamál og bitnar á bændum m.a.

Ég vil taka undir hluta af því sem hv. þm. Egill Jónsson sagði, að auðvitað ber okkur að veita meira fjármagn til þess að auka hagræðingu í búrekstri. En þá orða ég það öðruvísi en hann þótt meiningin sé kannske hin sama. Ég vil að þetta verði gert með það fyrir augum að lækka tilkostnað á hverja einingu í framleiðslu og með nýrri tækni, með vísindalegum rannsóknum, með öllum þeim ráðum sem við höfum. Þá eigum við auðvitað að reyna að auka framleiðsluna, og við eigum að auka hana pr. bónda, pr. býli, en ég er ekki að tala um að auka heildarframleiðslumagnið.

Ég vil líka, og er þá kominn að fimmta þætti þessa máls, tryggja það að bændum, sem búa á arðlausum búum, verði gert kleift að hætta búskap án þess að ævistarf þeirra verði að engu gert. Það er ekki mögulegt að halda þeirri stefnu áfram þegar bóndi, sem vill hætta búskap með konu sinni og jafnvel börnum, sem kynnu að vera eftir heima, selur jörð sína og hús sem standa uppi, geti, þegar upp er staðið eftir kannske ævistarf hans, konu hans og jafnvel barna, með naumindum keypt sér kjallaraíbúð í Reykjavík. Þetta dæmi gengur auðvitað ekki upp og er algerlega forkastanlegt. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að eitt af brýnustu verkefnunum, sem við ættum að snúa okkur að núna, væri e.t.v. að stofna sjóð, sem ríki og bændur greiddu í eða samtök bænda, og fjármunum þessa sjóðs yrði varið til að greiða bændum það verð fyrir bújarðir sínar sem talist getur hæfilegt og hæfilegur afrakstur af ævistarfi í þeirri grein.

Í sjötta lagi tel ég — og það er staðföst sannfæring mín — að það þurfi, þrátt fyrir stórvirki sem hafa verið unnin á því sviði, að auka vísindalegar rannsóknir til að stuðla að bættum búskaparháttum. Við höfum að vísu margvíslegar niðurstöður af margvíslegum rannsóknum, sem sumir segja að ekki sé alltaf farið eftir, en ég tel að þessi þáttur málsins þurfi að hljóta miklu meiri umbun en hann hlýtur nú. Ég vil bara sérstaklega, vegna fundar sem ég sat í morgun í þeirri nefnd sem fylgdist með framvindu mála í landgræðsluáætlun, geta þess, að t.d. þyrfti að stórefla allar rannsóknir á kalskemmdum í landinu. Þetta eru dýrustu gróðurskemmdir sem verða. Þær verða á grónu landi, þær verða á landi sem búið er að ausa í áburði, þær verða á landi sem búið er að vinna. Þetta eru dýrustu gróðurskemmdir sem til eru. Við verðum að efla rannsóknir á þessu sviði. Ég vil nota þetta tækifæri raunar til þess að þakka hæstv. landbrh. fyrir stuðning, sem hann hefur veitt aðila á Norðurlandi, sem hefur mesta þekkingu allra Íslendinga á þessu sviði, stuðning sem hann veitti framhjá fjárlögum. (EgJ: Framleiðnisjóðinn.) Það skiptir engu máli hvaðan peningarnir koma. Hæstv. ráðh. beitti sér fyrir því að þeir færu í þetta. Ég tel líka, af því að við vorum að ræða þessi mál, að við eigum að efla rannsóknir á þeim jurtum, þeim grastegundum sem við helst getum notað hér. Mér er t.d. minnistætt frá því í fyrra, að við skoðuðum landgræðsluna í Gunnarsholti og sáum þar eitt afbrigði, Beringspunt, sem hefur reynst afburða vel og virðist ætla að koma mjög vel út, en er erfiður til fræsöfnunar. Þegar fengist hefur góð reynsla af þessari tegund þá eigum við auðvitað að leggja til fjármagn til að efla rannsóknir á þessari tilteknu tegund. Mörg dæmi af þessu tagi gæti ég rakið.

Þá vil ég segja í sjöunda lagi að ég vil — og það hefur ekki farið neitt leynt að það hefur verið stefna Alþfl. að draga úr útflutningsuppbótum á skipulegan hátt og í áföngum, í samræmi við skipulegan samdrátt í dilkakjötsframleiðslunni. Ég nefndi áðan eitt dæmi um það hvernig við gætum gert þetta. Mér er það ekki neitt kappsmál í sjálfu sér að draga þessa fjármuni frá landbúnaðinum, þannig að hann njóti fjármunanna ekki á nokkurn hátt. Ég gæti hugsað mér, eins og ég sagði áðan, að hluti af þessum fjármunum færi til þess að kanna markaði, auka hagræðingu í búrekstri o.s.frv.

Ég er búinn að nefna það að ég telji að efla þurfi úrvinnsluiðnáð í landbúnaði. Það er mjög mikilvægt verkefni í sjálfu sér. Það gengur ekki lengur, eins og ég hef oft sagt, að við seljum úr landi, eins og þróunarríki væri, hráefni sem aðrar þjóðir þúsund- eða hundraðfalda í verði. Ég tel að það sé gífurlega margt hægt að gera til að efla þennan úrvinnsluiðnað. Ég minni á það að það hefur sáralítið verið gert að því t.d. að nýta innyfli sauðfjár til lyfjagerðar. Það hefur sáralítið verið gert að því að ganga þannig frá dilkakjöti til útflutnings að fýsilegt væri fyrir útlendinga að kaupa það. Það þarf augljóslega að gera mikið átak í prjóna- og ullariðnaði hér á landi. Það þarf að leita nýrra leiða bæði í sambandi við þau tískufyrirbæri sem uppi eru hverju sinni og að efla markaðsrannsóknir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega um þær till. sem hér liggja fyrir, það gefst kannske tími til þess síðar, en ég vildi láta koma skýrt fram þau sjónarmið sem ég hef nú gert grein fyrir, svo að ekkert fari á milli mála hvað kratarnir meintu í landbúnaðarmálum. Í sjálfu sér fagna ég báðum þessum till. Eins og ég hef margoft sagt hér í umr. fagna ég því að það er eins og það sé að færast meira raunsæi í allar umræður um landbúnaðarmál, það er ekki bara einstefnuakstur lengur. Menn eru farnir að átta sig á því að það þarf að kanna þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, líta á hann eins og aðra undirstöðuatvinnuvegi og athuga hvernig við getum hagrætt, lagfært og sparað.