20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

75. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að koma hingað í þennan ræðustól til að þakka þær málefnalegu umr. sem farið hafa fram um það mál sem hér er á dagskrá. Þessar umr. hafa kannske verið dálítið langar, sumar ræður sem fluttar hafa verið, og það er ekkert einkennilegt vegna þess að hér er um slík stórmál að fjalla að það tekur tíma að ræða þau svo að eitthvað sé komist til botns í því sem menn þurfa að segja um jafnfjölþætt og mikilsverð mál og landbúnaðarmálin eru.

Ég vil taka það fram alveg sérstaklega, eins og fleiri ræðumenn hafa gert á undan mér, að ég fagna mjög málefnalegri ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. og get lýst því að í mjög mörgum greinum er ég honum sammála og í mjög mörgum greinum var ræða hans nákvæmlega í sama anda og sú till. til þál. sem hér er á dagskrá. Þetta gilti m. a. um þau meginstefnuatriði sem hann lagði áherslu á. Þessu vil ég sérstaklega fagna.

Ég tel samt sem áður ofsagt hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni að Alþingi og ríkisstjórn og ég sem landbrh. hafi sýnilega tekið sérstakt tillit til sjónarmiða Alþfl. eins og þau hafa verið í gegnum tíðina. Ég hygg að hitt sé sönnu nær, að hv. þm. Arni Gunnarsson hefur af kynnum sínum af bændastéttinni, kynnum sínum af málefnum landbúnaðarins og kynnum sínum af kjörum fólksins í landinu sem einn af þm. strjálbýliskjördæmis komist að raun um að hagur þessa fólks er þannig og vandamál þessa fólks eru með þeim hætti að það hefur opnað honum nýja sýn og hann hefur færst nærfellt inn á þau sjónarmið sem við höfum á undanförnum árum haldið fram. Þessu tel ég ástæðu til að fagna.

Í rauninni var aðeins eitt sem skilur á milli. Hv. þm. Árni Gunnarsson vill sem fulltrúi síns flokks leggja niður útflutningsuppbætur í áföngum, verja þeim fjármunum til annarra hluta, góðra og þarflegra hluta, sem auðvitað er mikil þörf á að standa betur að en gert hefur verið, þó margt sé nú reynt í þeim efnum, svo sem eins og í markaðsmálum, svo sem eins og í vinnslu landbúnaðarafurða, svo sem eins og í aðstoð við skulduga bændur á jörðum sínum, sem þarf að veita aðstoð til þess að þeir geti haldið þar áfram búrekstri eða jafnvel fellt niður búrekstur. Margt af þessu er góðra gjalda vert og er í athugun og er þörf á að gera vel í. En ég tel hins vegar, og það er auðvitað tekið skýrt fram í þessari till., að við komumst ekki hjá að hafa nokkra tryggingu til að mæta útflutningi að einhverju marki. Markið hefur verið sett 10%. Þetta þjónar einmitt þeim markmiðum m.a., sem hv. þm. Árni Gunnarsson lagði áherslu á í sínu máli, að íslenska þjóðin þarf að leggja kapp á að gæta öryggis síns í matvælaframleiðslu og að hér verði ekki sultur í búi hvað sem gerist í kringum okkur í umheiminum, sem við höfum engin tök á að hafa áhrif á.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara út í þessi efni nánar, en þessi útflutningsbótatrygging er öðrum þræði auðvitað til þess að við getum náð þeim markmiðum sem sú till. sem hér liggur fyrir stefnir að og þeim markmiðum sem hv. þm. Árni Gunnarsson skýrði sem sín eigin markmið, svo sem eins og tekjumarkmið, búsetumarkmið o.s.frv. Ég skal ekki fara út í þau efni frekar. Ég held að það sé ekki unnt nema með lengri aðdraganda að halda þessum tekjumarkmiðum og búsetumarkmiðum fyrir bændur landsins ef við fellum niður útflutningsuppbætur og framleiðslan miðast einvörðungu við innlendan markað. Svipað sjónarmið kom í rauninni fram hjá hv. þm. Agli Jónssyni, sem sagðist vilja að innlendi markaðurinn standi undir byggð í landinu. Það er í rauninni sama sjónarmið þótt með öðrum orðum sé sagt.

Ég ætla ekki að fara út í frekari efnislegar umr. um þessi mál. Ég vil aðeins þakka þær undirtektir sem till. hefur fengið. Ég endurtek þakkir mínar fyrir efnislegar og vandaðar umr. af hálfu þeirra sem hér hafa tekið til máls. Ég mun leiða hjá mér nokkurt nart í ræðu hv. 11. landsk. þm. í minn garð og okkar, sem að þessari till. stöndum, þegar hann mælti fyrir annarri till. sem mér er ekki ókunnug að stofni til þar sem ég var 1. flm. svipaðrar till. á árum áður.

Að þessum orðum mæltum sé ég ekki ástæðu til að fjalla um till. í lengra máli.