24.01.1983
Sameinað þing: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

Snjóflóð á Patreksfirði

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Enn einu sinni hefur íslenska þjóðin orðið fyrir þungu áfalli af völdum náttúruhamfara. Þær hörmungar sem gengu yfir Patreksfjörð um helgina urðu á þeim slóðum og af þeirri skyndingu að engan hafði órað fyrir. Fjölskyldum hinna látnu og Patreksfirðingum öllum vil ég votta samúð í nafni þjóðarinnar allrar og ríkisstjórnar Íslands.

Íslenska þjóðin vill með samhjálp kappkosta að bæta tjón af áföllum eftir því sem í mannlegu valdi stendur. Lög um Viðlagatryggingu Íslands með endurbótum, sem gengu í gildi um síðustu áramót, tryggja bætur fyrir verulegan hluta þess fjárhagsskaða sem orðinn er. Verði sveitarfélag fyrir óvæntu fjárhagstjóni, svo sem vegna náttúruhamfara, er heimilt að veita því aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Átakanlegastur er sá skaði sem aldrei verður með fjármunum bættur, mannslífin sem töpuðust, heimilin sem lögð voru í rúst. Sumt eignartjón verður aldrei heldur að fullu bætt. En stjórnvöld munu eftir megni leitast við að lina það áfall, sem þetta byggðarlag hefur orðið fyrir, og munu þá hafa hliðsjón af aðgerðum vegna snjóflóðanna í Norðfirði í des. 1974.