27.10.1982
Efri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

41. mál, fóstureyðingar

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli 1. flm. þessa frv. er þetta í fjórða sinn sem frv. er flutt hér á Alþingi og þar til nú hefur 1. flm. þess, hv. 4. þm. Vestf., verið eini flm. slíks frv. Nú hefur honum bæst liðsauki. Ég er einn af þeim þm. sem setja nafn sitt við þetta frv. Það geri ég til þess að fram komi stuðningur minn við málefnið. Það er e.t.v. auðveldara að tjá samþykki sitt og stuðning við viðkvæmt mál með þögninni, að vera einn af hinum þögla meiri hluta sem sumir vilja meina að sé til varðandi þetta málefni. En ég tel drengilegra að gera það á þann hátt að það komi fram, að hv. 4. þm. Vestf. leikur ekki einleik í þessu máli á hv. Alþingi, að það eru fleiri þeirrar skoðunar, vegna þeirrar reynslu sem komin er af löggjöfinni sem leyfði rýmkun á heimild til fóstureyðinga, að þörf sé á að endurskoða þessi mál og reyna að snúa þróuninni við.

Ég tel ekki þörf á að fara efnislega út í það sem frv. felur í sér, 1. flm. þess hefur gert því máli ítarleg skil, en ég vil aðeins ítreka þá ósk að í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er verði gerð tilraun til að endurskoða þessa löggjöf og snúa þróuninni við. Það er það sem þetta frv. felur í sér.

Mér fannst það koma fram hjá báðum hv. ræðumönnum, sem hér hafa lýst sig efnislega andvíga þessu frv., að það sé einmitt félagsleg ráðgjöf sem sé frjálslega farið með, það sé sá þáttur í lögunum sem geri það að verkum að farið sé nokkuð frjálslega með þessi mál og þróunin hafi orðið sú sem raun ber vitni.

Vissulega er það rétt, að það eru skiptar skoðanir um hver ástæðan er, og skiptar skoðanir á þessu máli. Og vissulega virðum við hvert annars skoðanir þó við séum ekki á sama máli. En ég vil taka undir ósk 1. flm. frv., að það fái a. m. k. meðferð Alþingis, að það verði afgreitt í gegnum þingið, þannig að menn fái þá tækifæri til þess að koma fram í dagsljósið með sínar skoðanir hér á hv. Alþingi.