24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti hefur skýrt frá var það samkomulag að ljúka þessari umr. um sjöleytið. Hv. þm. sem nú talaði, Friðrik Sophussyni, var vel kunnugt um það samkomulag, en hann átti sinn verulega þátt í því að sprengja þetta samkomulag vegna þess að hann talaði sjálfur óvenjulangt mál. Mest af því sem hann sagði var endurtekningar á því sem hann hafði ýmist áður sagt eða aðrir hér í umr. Klukkan var farin að ganga átta þegar honum loksins þóknaðist að ljúka sínu máli. Þetta tek ég fram þegar hann leyfir sér að koma hér með ásakanir í minn garð fyrir að ég svari ekki fsp. Ég benti honum á það um daginn, að það væri ekki rétt að bera fram efnislegar fsp. um málið utan dagskrár, tefja sem sagt að sjálft aðalmálið kæmi til umr. og þylja upp fsp., sem snerta málið sjálft, utan dagskrár.

Varðandi þær fyrirspurnir sem hér hafa verið bornar fram hafa þær flestar efnislega verið til hæstv. sjútvrh. Hann hefur svarað þeim ítarlega og síður en svo að ástæða sé til að kvarta yfir því. Það er engin ástæða til þess að ég sé að rísa upp líka og svara sömu fyrirspurnum og endurtaka það sem annar ráðh., sem mál að þessu leyti heyrir undir, hefur sagt.

Hins vegar er það eitt sem er þráhyggja hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni. Það er 1. liður í yfirlýsingunni sem fylgdi brbl. frá því í ágústmánuði, — og hér hafa komið fram nokkrar fsp. í sambandi við framkvæmd á þessum 21 lið sem talinn er upp í yfirlýsingunni. Vitanlega kemur ýmislegt af þessu til umr. í n. sem fjallar um málið og ég vil vissulega áskilja mér rétt til þess að tala við 2. og jafnvel 3. umr. málsins og skýra ýmis þau atriði. Hins vegar dettur mér ekki í hug að fara hér að gefa ítarlega skýrslu um hvar hver þessara 21 liða stendur í þessum umr., sem þegar eru búnar, m.a. fyrir tilverknað þessa hv. þm., að standa lengur en um var talað og um samið.

Ég skal hins vegar taka það fram strax, og það segir í þessari yfirlýsingu, að auk þeirra aðgerða sem ákveðnar hafa verið með brbl. hefur ríkisstj. ákveðið að standa að eftirfarandi — og síðan kemur 21 liður. Þeir sem lesa yfir þessa liði sjá ósköp vel að sumir þessara liða hafa þegar verið framkvæmdir. Sumir þessara liða eru langtímaáætlun sem þegar er einnig unnið að.

Að því er snertir 1. liðinn, þá er hann á þá leið að að undangengnum frekari viðræðum við aðila vinnumarkaðarins verði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun. o.s.frv. Að þessu hefur verið unnið. Þetta er auðvitað eitt af erfiðustu og viðkvæmustu vandamálum sem þjóðin á við að glíma. Það sem hér er um að ræða eru ekki bráðabirgðaráðstafanir, heldur aðgerðir sem gætu orðið til frambúðar. Þess vegna má ekki heldur hrapa að neinu í því efni.

Eins og kemur fram í þessari yfirlýsingu er einnig í samræmi við grundvallarstefnu ríkisstj., sem hún hefur fylgt í þessu í nær þrjú ár sem hún hefur starfað, gert ráð fyrir samráði við aðila vinnumarkaðarins. Í þeim aðgerðum sem hingað til hafa verið gerðar varðandi efnahagsmál hefur verið lögð á það áhersla að hafa samráð við verkalýðssamtökin og að gera ekki neitt sem væri beinlínis í andstöðu við þau, — ekki þannig að þau eða forusta þeirra samþykktu endilega það sem gert hefur verið, en a.m.k. að þau vildu ljá eyra þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Vil ég sérstaklega nefna hér tvö dæmi þessa efnis. Það sem gert var í ársbyrjun 1981 og svo aftur í ágústmánuði s.l.

Í sambandi við breytingu á viðmiðunarkerfinu er þetta auðvitað ákaflega mikilvægt atriði. Ég geri ráð fyrir að áður en langt um líður láti ríkisstj. taka saman grg. um hvað gert hefur verið varðandi þennan 21 lið, en ég hef hins vegar tekið fram að sumt er í vinnslu, sumt er þegar komið í framkvæmd.