25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tíma hv. þm. lengi út af þessu máli. Ég vil lýsa yfir andstöðu Alþb. við þetta mál. Það þarf ekki að segja neinum Íslendingi að við teljum okkur þurfa að leysa okkar mál með embætti ráðunauts ríkisstj. í öryggis- og varnarmálum, sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur hér lagt til. Það er hreint dæmalaust að hlusta á málflutning eins og þann sem hér fór fram áðan. Ég veit að hv. flm. er allt of greindur og hæfur þm. til að trúa einu einasta orði sem hann sagði sjálfur.

Ég held að þm. og landsmenn allir ættu að þakka fyrir þann tilfinningahita sem hefur rekið Alþb. áfram allar götur frá því að landið missti sjálfstæði sitt að nýju og hefur þó bjargað því sem bjargað varð. Við getum litið til smáþjóða, sem hafa fengið yfir sig annan eins ófögnuð, og séð hvernig komið er fyrir þeim, og ættu hv. þm. sem sækja fundi út um allar grundir, þingmannasambandsfundi á Kúbu og ég veit ekki hvar, að fara í leiðinni t.d. til Tahiti einhvern tíma og sjá hvernig málum er komið þar og fyrir Puerto Ricomönnum og öðrum slíkum þjóðum. Það er nefnilega ekki ennþá komið svo fyrir Íslendingum vegna þessa tilfinningahita sem hv. þm. harmaði svo mjög áðan. Við höfum reynt að halda íslenskri menningu í horfinu, við höfum reynt að tala okkar eigið tungumál áfram og ég vænti þess að við munum halda því áfram af sama tilfinningahita.

Það er líka skemmtilegt að upptifa það að heyra loks þm. Sjálfstfl. tala um hernaðarlegt mikilvægi Íslands vegna legu landsins. sú var tíðin — og ekki fyrir svo mörgum árum — að það talaði enginn um þetta. Hér var ameríski herinn til að vernda okkur. — Það er reyndar hverju mannsbarni í heiminum ljóst að ef Íslendingum stafar hætta af nokkru umfram aðrar þjóðir, þá er það einmitt af þessu hernaðarlega mikilvægi og af veru bandaríska hersins hér. Þetta þarf svo sem ekki að segja eina ferðina enn.

Svo vogar hv. þm. sér að tala hér um Hans G. Andersen, sem hefur verið sérlegur sendifulltrúi Íslands á hafréttarráðstefnunni og vissulega unnið þar gott starf, og ber það saman við hlutverk einhvers sérfræðings í öryggis- og varnarmátum! Ég ætta að vona að sá ágæti maður, Hans G. Andersen, lesi ekki Alþingistíðindi eða heyri annað eins og þetta.

Svo að aðeins sé farið yfir nokkra punkta í máli hv. flm. sagði hann að við skyldum ekki lengur láta allt frumkvæði vera hjá Bandaríkjamönnum. Mikið er ég sammála honum. Það var bara hans eigin flokkur sem fól Bandaríkjamönnum þetta frumkvæði um íslensk málefni og það höfum við ævinlega harmað og munum gera áfram og berjast gegn því eins lengi og okkur endist aldur til. Hann studdi það og hans flokkur að lána íslenskt land undan íslenskri lögsögu. — Hvernig geta menn talað? Nei, það vorum ekki við sem stóðum að því, hv. þm. Friðrik Sophusson, og munum aldrei gera.

Það er svo sem ósköp gleðilegt að ungir menn í Sjálfstfl., sem hafa lært í háskólum erlendis, hafa loks skitið og séð að allt sem þeim hefur verið áður sagt í Heimdalli og upp úr stenst ekki. Þessir ungu menn hafa þó þá samvisku að reyna að skoða þessi mál. Þeir hafa skrifað nokkur ágæt rit um þessi mál. Svo standa menn hér og lesa upp úr þessu eins og þetta séu einhver ný sannindi Það er búið að segja þetta mjög lengi.

Það sýnir best hvers virði eru embætti svokallaðra sérfræðinga í öryggis- og varnarmálum að nýlega kom út bók í Danmörku um Grænland og hlutverk þess og breytingar sem hafa verið gerðar á herstöðvum NATO þar í landi án þess að danska ríkisstjórnin hafi haft hugmynd um. Liggur fyrir að þessum stöðvum hefur verið breytt í hreinar árásarstöðvar. Þessi bók er rædd mikið í Danmörku þessa dagana. Trú mér til: Danska ríkisstjórnin hefur haft einhvers konar ráðunauta. Danir hafa her og ég geri ráð fyrir að þar séu einhverjir ráðunautar á borð við þann sem hv. þm Friðrik Sophusson langar þessi ósköp til að fá hingað. En ég held að við ættum að spara okkur það embætti. Það kemur í ljós að dönsku ríkisstjórnirnar, sem hafa setið á meðan þetta gerðist, hafa ekki haft hugmynd um það.

Ég held að við þessari till. hv. þm. sé ekki nema eitt svar, og það er auðvitað svar Alþb.: Við þurfum að losna við bandaríska herinn af íslensku landi og við þurfum að ganga úr NATO. Ég er ekki þar með að segja að okkur sé tryggt varanlegt öryggi. En það er áreiðanlegt að í því væri fólgið meira öryggi en að vera bitbein mitt í Atlantshafinu milli tveggja stórvelda sem búa nú yfir kjarnorkuvopnum sem nægja til þess að margdrepa hvert einasta mannsbarn á jörðinni.

Það hneykslar mig að þm. skuli sitja undir öðru eins og þessu. Ég legg til að þessari till. verði tafarlaust vísað frá.