25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Með vissum hætti er kannske rétt að játa að mér hafi komið ræða hv. 8. þm. Reykv. nokkuð á óvart — ekki þó hið djúpsálarlega inntak hennar þar sem skírskotað var til gildis tilfinninga, ef ég skildi rétt, umfram skynsemi. (GHelg: Það mætti vera meira um þær á Alþingi Íslendinga.) Já, ekki hef ég á móti tilfinningum. En mín skoðun er þó einfaldlega sú, að þarna verði ekki sundur skilið. Skynsemi án tilfinninga er kannske köld og tilgangslítil, en uppstemmdar tilfinningar einar, án yfirvegunar og skynsemi, eru vísasti vegurinn til glötunar, í sumum málum a.m.k. Einmitt út frá þessu sjónarmiði hefði ég haldið að það væri hv. þm. fagnaðarefni, sem eins og kunnugt er er hér málsvari flokks sem kennir sig við þjóðfrelsi umfram aðra flokka, að hér er lagt til að íslenskir aðilar framselji ekki í hendur öðrum að leggja mat á öryggishagsmuni þjóðarinnar. Um það snýst málið og annað ekki.

Stundum er því haldið fram af skoðanabræðrum hv. þm. að eðlisbreyting hafi átt sér stað, ef ekki á varnarviðbúnaði hér á landi, þá á umr. um utanríkis- og öryggismál Íslendinga, að í stað tiltölulega steingelds skotgrafahernaðar, þar sem klisjurnar eru orðnar ærið gamlar, annars vegar: úr NATO — herinn burt eða eitthvað þess háttar, hafi komið til sögunnar ný þekking, nú umræða byggð á nýjum sjónarmiðum, byggð á mati á upplýsingum um alþjóðleg hernaðarkerfi, upplýsingum um nýja tækni í hernaðarmálefnum. Því er jafnvel stundum haldið fram að þessar nýju upplýsingar og þessi nýja þekking renni nýjum stoðum undir röksemdir herstöðvaandstæðinga. Því ætti að fagna, ef svo er, að umr. er komin á svolítið skynsamlegri grundvöll og hún er farin að snúast um mat á staðreyndum fremur en þá ljóðatexta sem betur eru fallnir til söngs — og á þó söngur prýðilega við á sumum samkomum.

Ég held að það hafi ekki komið fram í ræðu hv. þm. að um væri að ræða verulegan ágreining að þessu leyti, enda standist líkingin að þessu leyti að því er varðar hafréttarmál fyllilega. Allt sem að hafinu lýtur og er hagsmunir Íslendinga gagnvart átökum við aðrar þjóðir hefur vissulega orðið mikið tilfinningamál á Íslandi. En við hefðum aldrei sigrað Breta í deilum okkar um landhelgismál með söngvum einum og formælingum.

Við þurfum að afla okkur þekkingar. Það er óumdeilt, og hefur sérstaklega verið á það minnst hér, að sérfróðir menn í hafréttarmálum, eins og Hans G. Andersen og fleiri, hafi lagt fram þá þekkingu sem hafi orðið lykillinn að árangursríkri baráttu okkar í þeim málum.

Kjarni málsins er ofur einfaldlega þessi: Við eigum ekki að framselja í hendur annarra réttinn til að meta sjálfstætt hvað er að gerast í hafinu í kringum okkur, hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur, hvaða áhrif nýjungar á sviði hernaðartækni hafa á öryggi þjóðarinnar. Þessara upplýsinga eigum við að reyna að afla okkur. Skref hafa þegar verið stigin í þá átt með stofnun öryggismálanefndar, sem er könnunar- og umræðunefnd í umboði þingflokka. Ég hygg að þetta sé óneitanlega mál af því tagi að við ættum ekki að horfa í lítinn kostnað við að ganga lengra á þessu sviði. Þetta kemur ágreiningnum um núverandi fyrirkomulag um öryggismál á Íslandi í raun og veru ekkert við. Menn geta auðveldlega haldið sinni sannfæringu um að varnarleysi og það að Ísland verði utan hernaðarbandalaga sé haldbær afstaða í utanríkispólitík, þó að ég haldi það ekki, en engu að síður samþykkt þessa till.