25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. sé ekki farin að daprast heyrnin. Ég sagði ekkert um þingflokk Alþb. í máli mínu áðan. Ég sagði Alþb. og ég lagði til að þessari till. yrði vísað frá. Það vill nefnilega svo til, að barátta íslenskra sósíalista, barátta íslenskra hernámsandstæðinga, hefur ekki bara farið fram í þingflokki Alþb., heldur taldi ég mig vera að tala fyrir munn þúsunda manna úti í þjóðfélaginu. Ég sagði ekkert um þingflokk Alþb. — Ég hefði átt von á að fleiri úr honum væru hér staddir inni.

En hv. þm. Friðrik Sophusson heldur áfram sinni veiku vörn í þessu máli. Ég verð að upplýsa hv. þm. um það, að ég þarf engan sérfræðing í varnar- og öryggismálum til þess að stórveldin þylji ekki yfir mér áróðursplötur sínar sem ég trúi eins og nýju neti. Ég er alveg fullfær um það mat ein og sjálf og svo er sem betur fer um milljónir manna um allan heim, sem nú hafa tekið völdin af stjórnmálamönnum og ætta að reyna að fara að berjast fyrir friði í heiminum vegna þess að það hefur ekki neitt breyst í umræðunum um þessi mál vegna tilkomu einhverrar nýrrar þekkingar. Auðvitað verða morðtól heimsins æ skelfilegri. Það hefur loksins runnið upp fyrir heimsbyggð allri að þau eru orðin svo skelfileg að allar varnir, og þá ekki síst lítillar eyþjóðar, yrðu auðvitað út í hött. Það kemst enginn undan ef þessi vopn verða nýtt. Og eins og ég sagði áðan hafa milljónir borgara hinna ýmsu landa tekið höndum saman og þreyst á ógnarjafnvægisrugli fávísra stjórnmálamanna, sem sitja fundi hvort sem það er NATO, Varsjárbandalagsins eða hvað þetta nú allt saman heitir. Ég held að íslenskir þm. ættu að einbeita sér að þeirri baráttu, en ekki halda uppi þessum meiningarlausa áróðri fyrir tilvist bandarískrar herstöðvar eða hvaða annarrar herstöðvar sem stórveldin kynnu hér að reyna að fá aðstöðu til að hafa.

Hins vegar vil ég ítreka, vegna þess að ég held að mönnum sé það kannske ekki alveg fullljóst hvers virði barátta íslenskra sósíalista hefur verið gegnum árin, að það er ein versta villa sem maður heyrir að sú barátta hafi verið gagnslaus. Það væri gaman að geta séð hvað hefði gerst hér ef þessi stórþjóð í vestri hefði fengið að vaða hér uppi eins og hana langaði til.

Það vill svo til, að ég hef átt viðræður við Bandaríkjamenn um þessi mát, menn í háum stöðum sem hefur verið falinn mikill trúnaður hjá sinni heimaþjóð. Þetta er þeim ljóst, þó að þeim Íslendingum sem kjörist hafa til trúnaðarstarfa á Alþingi Íslendinga virðist ekki vera það ljóst. Og það er ekki langt síðan háttsettur embættismaður Bandaríkjanna á Íslandi lauk viðræðum okkar með því að hvetja okkur til að halda þessari baráttu áfram. Menn sem hafa farið víða um heiminn hafa séð hver örlög bíða þjóða sem láta slíkt yfir sig ganga. Og á næstu árum er ég sannfærð um að einn sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum kemur ekki til með að skipta miklu máli, komi til átaka og komi til þess að gripið verði til þeirra vopna sem nú eru til í heiminum. Það er satt að segja skelfilegt að menn skuli ennþá ræða á þessum nótum á Alþingi þjóðar sem aldrei hefur haft her. Og ég ætla að vænta þess, að þetta hlægilega ákvæði um vopnfæra menn verði fellt úr stjórnarskrá Íslendinga þegar hún verður nú afgreidd endurskoðuð. Að öðru leyti skal ég ekki eyða fleiri orðum á þetta.

En ég vil ítreka að ég tel alveg ástæðulaust fyrir menn að setja á bakið á mér allan þingflokk Alþb. Þetta er skoðun Alþb.-manna og fyrir þá tala ég hér á Alþingi.