25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths.

Í fyrsta lagi verða það að þykja nokkur tíðindi þegar hv. þm. í þingflokki Alþb. lýsir því yfir að hún sé hér málsvari Alþb.-manna, en vilji á engan hátt láta bendla þann málflutning sinn við tilvitnanir úr málflutningi formanns þingflokks Alþb., sem tilheyrði þá öðrum þjóðflokki samkv. þessu.

En aths. mín er efnislega þessi: Hv. þm. fór ýmsum orðum um þann árangur sem náðst hefði af starfi friðarhreyfinga í Evrópu. Starf, málflutningur og árangur friðarhreyfinga í Evrópu er mörgum Íslendingum sennilega ekki nægilega kunnur og sér í lagi er það áreiðanlegt, miðað við fréttaflutning íslenskra fjölmiðla og almennar umræður um þessi mál, að upplýsingar um mátflutning friðarhreyfinganna eru mjög af skornum skammti hér á landi. En ég hygg að það sé ómótmælanlegt að sú athygli sem þær hafa vakið sé ekki síst þannig til komin að þær hafa, með því að sækja sér bein þekkingarleg rök svo að segja inn í vopnabúr hernaðarbandalaganna og vekja athygli almennings á því til hverra hörmunga mundi koma ef til styrjaldar með kjarnavopnum kæmi, náð athygli almennings, sem áður kærði sig kollóttan um þó að ástandið hefði verið slíkt hið sama í mörg ár. Það var ekki fyrr en menn fóru raunverulega að afla sér þekkingar, miðla þessari þekkingu, og hún er fyrst og fremst sótt til sérfræðiþekkingarmanna sem sérskólaðir eru bæði að því er varðar vígbúnað og beitingu vopna, sem athygli almennings virkilega beindist að þessum málum.

Rök friðarhreyfinganna eru náttúrlega mjög margvísleg. Sumir eru þeir sem eru friðarsinnar, eins og það er kallað á íslensku máli, af sannfæringu, hvort sem hún er trúarleg eða önnur. Við skulum ósköp einfaldlega segja: Við erum á móti vopnum, við erum á móti vígbúnaði og við munum aldrei beita ofbeldi undir neinum kringumstæðum. — Þetta er tiltölulega lítill hópur innan friðarhreyfinganna. Aðrar eru þær sem beina fyrst og fremst athyglinni að því, að öryggishagsmunir Evrópu kunni undir ýmsum kringumstæðum að vera aðrir en Bandaríkjanna. Í því sambandi kann vel að vera að öryggishagsmunir Íslendinga sem eyþjóðar hér á Atlantshafi kunni að vera í ýmsum atriðum aðrir en ýmissa meginlandsþjóða í Evrópu, og eru þær þó engan veginn á einu máli um hvernig þeirra öryggi verði best tryggt.

Það er t.d. athyglisvert, að þær hreyfingar jafnaðarmanna á meginlandi Evrópu, sem athygli manna hefur einkum beinst að á seinustu árum, þar sem annars vegar eru þýskir sósíaldemókratar, sem hafa haft sérstöðu í utanríkispólitík á löngum valdaferli sínum í vestur-þýska lýðveldinu, og svo hins vegar franskir jafnaðarmenn, hafa mjög ólíka afstöðu til þessara mála, meta öryggishagsmuni þjóða sinna út frá mjög ólíkum forsendum. Hvorugum þessara aðila mundi detta í hug að ætla að fjalla um þessi mál eða meta þau eða taka afstöðu til þeirra út frá tilfinningasjónarmiðum einum saman. Þeir stinga ekki höfðinu í sandinn. Þeir láta ekki óskir okkar eða drauma um að við lifum í ofbeldislausum heimi rugla sig í ríminu. Þeir viðurkenna staðreyndir, afla sér þekkingar og komast að niðurstöðum út frá því. Að sjálfsögðu gerum við þetta.

Ég endurtek: Kjarni málsins er einfaldlega þessi: Þessi till., sem hér liggur fyrir, gefur út af fyrir sig ekki tilefni til að opna alla umræðuna um afstöðu manna til aðildar Íslands að varnarsamtökum, til dvalar varnarliðs hér á landi, hvort menn eru meðmæltir því eða andvígir. Spurningin er einfaldlega þessi: Vilja menn að Íslendingar sjálfir afli sér þeirrar sérþekkingar sem til þarf til að leggja hlutlægt mat á þær upplýsingar sem aðrir mata okkur á? Það hélt ég að bæði herstöðvaandstæðingar og eins hinir, sem sannfærðir eru um réttmæti þeirrar stefnu að Íslendingar haldi áfram aðild sinni að varnarsamtökum lýðræðisríkja, gætu orðið sammála um því að við megum ekki láta rugla okkur neitt í ríminu. Um þessi mál verður endanlega rætt og þau verða endanlega metin aðeins út frá tvennu: þekkingu og skynsemi.

Afstaða okkar getur vissulega mótast af tilfinningum, þjóðerniskennd, mati okkar á sögu og bókmenntum, skoðunum okkar á því hvernig sjálfstæði þjóðarinnar er best tryggt. En það gerist líka á þekkingarlegum grundvelli og verður ekki sundur skilið. Þess vegna er það, að áminning í Markúsarguðspjalli á enn við: Þegar ég var barn, þá talaði ég eins og barn og hugsaði eins og barn, en þegar ég hætti að vera barn, þá lagði ég af barnaskapinn.