25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hafði af vissum ástæðum, vegna þess að ég hafði verið kallaður hér til annarra verka í þessum húsum, ekki ætlað að kveðja mér hljóðs sérstaklega í þessum umr. Það var hrokinn og mikillætið í málflutningi hv. síðasta ræðumanns og þess næstsíðasta, talsmanna Alþfl., sem gerði það að verkum að mér fannst eiginlega alveg nauðsynlegt að við skiptumst frekar á skoðunum um þessi mál. Ég segi hroki og mikillæti, þegar menn setja þessa hluti þannig upp að hérna sé um að ræða einhvern lítinn sérvitringahóp; eins og hv. þm. Eiður Guðnason orðaði það, sem skipti engu máti á Íslandi, hér sé um að ræða börn, í besta falli leitandi börn, sem hafi í raun og veru lítið til málanna að leggja annað en tilfinninguna eina, og hver maður megi heita gæfusamur, sem hafi losað sig undan því að bera tilfinningu í brjósti, þegar um þessi mál er rætt.

Hérna er ég að vitna til ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem kom hér uppbelgdur yfir þeim fögnuði að hann skyldi nú vera laus við þann söng, sem forðum kvað í runni einnig í hans máli, þegar hann gekk samferða okkur sunnan úr Keflavík á móti hernum einu sinni. Hann fagnar því nú að ganga í öðrum röðum. Það er hans mál. Mér finnst það ekki fagnaðarefni hans vegna heldur vorkunnarefni miklu frekar, en það er hans mál og ég vil ekki gera lítið úr honum fyrir það.

En staðreyndin er auðvitað sú, að sá sérvitringahópur, sem hv. þm. Eiður Guðnason talaði um af mikilli fyrirlitningu hér áðan, hefur náð verulegum árangri í starfi sínu á Íslandi undanfarna áratugi sem betur fer. Það var þessi sérvitringahópur sem var svo gæfusamur að hann gat í bandalagi við menn úr Alþfl. og Framsfl. og einnig Sjálfstfl. komið í veg fyrir það að Ísland var hernumið til 99 ára með samningum sem Bandaríkjamenn gerðu kröfur um árið 1945. Þá var þessi litli sérvitringahópur, sem hv. þm. Eiður Guðnason katlar svo, meiri hluti þjóðarinnar. Hann var meiri hluti Alþingis Íslendinga, sem ákvað að vísa á bug þessari frekju Bandaríkjastjórnar, sem var borin fram aðeins fáeinum mánuðum eftir að íslenska þjóðin hafði öðlast fullt sjálfstæði árið 1944. Og það var ekki undarlegt þó að það gerðist að þjóðin hafnaði þessari málaleitan, sem þarna var borin fram af hálfu Bandaríkjastjórnar. Síðan er liðinn langur tími og það kann að vera að í brjóstum landsmanna sé sú glóð, sem kveikt var árið 1944, ekki jafnheit og rík og yfirgnæfandi og hún þá var og hin næstu ár þar á eftir. Engu að síður verð ég að leyfa mér að gera mér von um það, að hún sé enn til í brjóstum fjölmargra landsmanna.

En það var ekki aðeins árið 1945 sem herstöðvaandstæðingar, sjálfstæðissinnar, þjóðfrelsismenn á Íslandi hafa náð árangri. Það gerðist t.d. einnig árið 1956. Árið 1956 höfðu Bandaríkjamenn gert kröfu um það og náð því fram furðulangt í samningum við fulltrúa hernámsflokkanna hér á Alþingi, að þeir fengju hér nokkrar herstöðvar í viðbót eftir 1956, m.a. í Hvalfirði, á Suðurlandi og víðar. Hvað gerðist þá? Þá gerðist það að þessi hópur, sem hv. þm. Eiður Guðnason kallaði lítinn sérvitringahóp, breyttist í fjöldahreyfingu sem meiri hluti hernámssinna á Alþingi þorði ekki að ganga á móti. Þess vegna var gerð hér samþykkt 28. mars 1956 með atkvæðum Alþfl., Framsfl., sósíalista og þjóðvarnarmanna, sem þá sátu á Alþingi.

Sú samþykkt varð síðan grundvöllur þeirrar ríkisstj. sem mynduð var í júnímánuði 1956 og kölluð var vinstri stjórn. Sú stjórn lofaði því að grípa til ráðstafana til þess að koma bandaríska hernum héðan úr landi. Gerði hún það? Og af hverju gerði hún það ekki? Það hefur verið upplýst síðar. Inn í stjórnina fór utanrrh. Alþfl., Guðmundur Í. Guðmundsson, sem síðan hefur lýst því yfir að hann hafi gagngert farið inn í stjórnina til að svíkja þann grundvöll sem hún var reist á. Gagnvart svona heilindum á enginn maður í rauninni nokkurt orð. Gagnvart svona heilindum, gagnvart svona vinnubrögðum er erfitt að verja sig, einnig þann góða mátstað sem herstöðvaandstæðingar hafa barist fyrir um áratuga skeið í þessu landi. Engu að síður varð sú samþykkt sem Alþingi gerði í mars 1956 til þess, að herstöðvaáform Bandaríkjamanna, sem þeir höfðu uppi það ár, voru stöðvuð um sinn. Fylking sérvitringa breyttist í meiri hluta meðal þjóðarinnar, sem hernámsflokkarnir þorðu ekki annað en að hlýða, af ótta við kjósendur í kosningunum 1956. Þessi fylking hindraði áform Ameríkanans um þrjár herstöðvar í viðbót hér í landinu.

Mörgum árum síðar, í kringum 1970, hafði hér setið um skeið viðreisnarstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. Þessi stjórn var svo lítilþæg og ómerkileg að hún lét sér það vel líka að Ameríkaninn væri með sjónvarp inni á svo að segja hverju einasta heimili hér á þéttbýlissvæðinu um margra ára skeið. Og það komu hér þm. mörgum árum seinna á Alþingi Íslendinga, sem lögðu það til að ríkisstj. krefðist þess að þetta sjónvarp yrði opnað aftur. En þeirri ríkisstj. sem mynduð var 1971 tókst að loka þessari smán, loka Keflavíkursjónvarpinu. Árangur hvers var þetta? Var þetta árangur þeirra manna sem ævinlega hafa haldið því fram, að það gerði ekkert til fyrir íslenska menningu hvernig hún væri leikin að þessu leyti? Var það árangur þeirra manna, sem héldu opnu Keflavíkursjónvarpinu, Alþfl. og Sjálfstfl., á viðreisnarárunum? Var það árangur þessara manna að Keflavíkursjónvarpinu var lokað? Svarið er auðvitað nei. Þessir menn lögðu ekkert á sig í því efni og þeir höfðu það í flimtingum þegar Keflavíkursjónvarpinu var lokað, að slíkt skyldi gert og á að það skyldi verða lögð áhersla. Þeir gerðu það aftur og aftur, m.a. í málflutningi hér á Alþingi Íslendinga. Og þegar Keflavíkursjónvarpinu hafði verið lokað, þá gerðist það að einn eða tveir þm. Sjálfstfl. fluttu till. á Alþingi um að fara vinsamlegast fram á það við Bandaríkjastjórn að hún náðarsamlegast opnaði sjónvarpið aftur. Þvílík var nú reisnin yfir þessum viðreisnarhetjum, sem.hér forðum börðust gegn hinum litla sérvitringahópi, sem hv. þm. Eiður Guðnason talaði um með mikilli fyrirlitningu hér áðan.

Þannig hefur það aftur og aftur gerst, að þessi hópur hefur sýnt það að hann er vald í þjóðfélaginu, sem þessir hópar, t.d. Alþfl. og Framsfl. óttast. Framsfl. gekkst undir það, þegar mynduð var vinstri stjórnin 1971, að herinn skyldi fara úr landinu á kjörtímabilinu. Þegar sú ríkisstj. hafði komist að þeirri niðurstöðu að herinn skyldi fara úr landi á kjörtímabilinu og með hvaða hætti bandaríski herinn skyldi fara úr landi, þá

gerðust önnur tíðindi innan þeirrar stjórnar sem gerðu það að verkum, að hún gat ekki við þær aðstæður komið þessu stefnumáli sínu fram.

Ég fann það vel þá og sjálfsagt einnig margir félagar mínir aðrir, að það var svikult bandalag, sem við þá náðum við Framsfl., það var svikult. Það var hins vegar ekki alveg af sama toga og það svikabandalag sem Alþfl. vildi gera á árunum 1956-1958. Ég veit a.m.k. ekki til þess að neinn ráðh. Framsfl. hafi farið inn í ríkisstj. 1971 til þess gagngert að svíkja grundvöll þeirrar stjórnar, eins og Alþfl. lét sér sæma árið 1956. Ég hef enga ástæðu til að ætla að svo hafi verið af hálfu þeirra framsóknarmanna árið 1971. Þvert á móti kynntist ég því vel að ýmsir liðsmenn Framsfl. lögðu þá á það áherslu að koma því máli fram.

Hinu vil ég hins vegar halda til haga hér í þessum ræðustól, úr því að farið er að tala um þessi mál, að þegar ég lagði á það áherslu 1979, þegar mynduð var ríkisstj., að kanna hvort Framsfl. væri reiðubúinn til að standa að því samkomulagi sem hann hafði gert 1974 um brottför hersins, þá neitaði hann því. Hann var þá ekki tilbúinn til þess.

Samkv. röksemdafærslu hv. þm. Eiðs Guðnasonar ættum við herstöðvaandstæðingar á Íslandi þar með að gefast upp, vegna þess að það blési ekki byrlega, vegna þess að það væri erfitt um þessar mundir að koma okkar baráttumálum fram. Ég segi þvert á móti. Ég segi: Þeim mun erfiðara sem það er að koma þessum málum fram, þeim mun nauðsynlegra er að berjast vasklega fyrir þeim. Engin hugsjón er í rauninni svo lítils virði að hún eigi það skilið að mæta fyrirlitningu í málflutningi af þeim toga sem ég heyrði hér áðan hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni og hv. þm. Eiði Guðnasyni.

Ég er líka sannfærður um það, að sú fjölmenna fylking sem oft áður í sögu eftirstríðsáranna hefur náð verulegum árangri hér í okkar landi, sú fjölmenna fylking mun enn ná árangri og þá mun það enn og aftur koma í ljós, sem áður hefur komið í ljós í þessu landi, að þeir sem nú hafa stærst orð um vanmátt hennar munu taka tillit til hennar í sínum málflutningi og a.m.k. ekki tala um hana með þeirri djúpstæðu fyrirlitningu sem hér kom fram áðan.

Þessi hópur hefur ekki reynst þess umkominn að bjarga íslenskri menningu, síður en svo, segja menn og berja sér á brjóst. Ja, þvílíkir höfuðsnillingar. Þvílíkir höfuðsnillingar að geta lýst því yfir að allir hinir hafi verið að svíkjast í rauninni aftan að íslenskri menningu og það hafi þá verið einhverjir aðrir sem hafi bjargað íslenskri menningu í þeim örlagaríku sviptingum sem standa yfir á Íslandi um þessar mundir og um áratugaskeið. Ég segi: Við skulum fagna hverjum þeim manni sem í orði og í athöfn vill leggja eitthvað á sig fyrir varðveislu íslenskrar menningar. Það er sorgleg staðreynd að sjaldnar og sjaldnar, eftir því sem lýðveldið eldist, heyrir maður talað um sjálfstæðismál þjóðarinnar, þjóðlega vitund, menningararf og sögu, sjaldnar og sjaldnar heyrir maður talað um þessa þætti nú orðið með þeirri reisn sem einkenndi málflutning hundraða og þúsunda manna þegar Ísland varð lýðveldi fyrir nærri fjórum áratugum. Það er dapurlegt. Það mætti verða okkur til umhugsunar. En það á ekki að verða til þess að við tölum með fyrirlitningu um þá sem vilja leggja þeim málum lið.

Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Eiður Guðnason hefur iðulega mælt eitt og annað gott t.d. í sambandi við meðferð íslensks máls, svo að ég nefni dæmi. Ég fagna því. En ég er í grundvallaratriðum ósammála honum í utanríkismálum. Ég held þvert á móti varðandi íslenska menningu og baráttuna fyrir varðveislu hennar, sem alltaf heldur áfragt, eigum við að reyna að krækja okkur saman og taka höndum saman í fullri alvöru og af fullum heilindum. Ég held að það sé ástæðulaust að láta stórveldið, sem ennþá hefur her hér suður á Miðnesheiði, kljúfa okkur í sundur í þessu efni.

Bandaríski herinn hefur setið hér lengi, um áratugaskeið, og enn er það og verður markmið okkar í Alþb. að koma bandaríska hernum úr landi. Það kemur kosningum ekkert við eða öðrum slíkum sviptingum í stjórnmálunum, að ég tek það fram hér. Það geri ég hér að gefnu tilefni. Það er verið að bregða mér og félögum mínum um það, að hér sé um að ræða eins konar tækifærismál, sem sé notað af og til, dregið úr glatkistunni af og til. En ég vil að það sé alveg skýrt í þennan hóp, hafi einhver dregið það í efa af einlægni, þá vil ég að það sé alveg skýrt í þennan hóp, að svo lengi sem Alþb. er Alþb., þá mun það berjast fyrir brottför bandaríska hersins. Þannig er það mál og til þess verða menn að taka tillit í íslenskum stjórnmálum.