25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég skal vera örstuttorður í mínum málflutningi. Mér finnst það vera harla einkennileg ástæða sem hæstv. félmrh. ber fyrir sig um frestun þessa máls. Þetta er í þriðja skiptið sem þessi þáltill. er flutt hér á hv. Alþingi. Fyrsta skiptið kom hún mjög seint fram og reyndar í annað skiptið líka. Nú gefst hins vegar tækifæri til að láta reyna á hvort till. fæst samþykkt. Hún þarf að fara til utanrmn. Þar á Alþb. sinn fulltrúa. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að hæstv. forseti taki til greina að fresta umr. um þessa till. vegna þess eins að hæstv. ráðh. getur ekki sagt hér og nú að þeim ummælum sem hann er með í umr. sé hægt að finna stað einhvers staðar nema hann fái að leita í bókasafni sínu og koma með hluta af því hér inn á hv. Alþingi. (Gripið fram í.) Ég vil biðja hæstv. ráðh. að vera þægan eitt andartak, bara eitt andartak. Hugsum okkur svo að hver og einn neytti þessara bragða. Ég stæði t.d. upp í einhverju máli, sem ríkisstj. þyrfti að koma í gegn, og segði: Ja, einhver maður, sem er flokksbróðir hæstv. ráðh., sagði einhvern tíma eitthvað. Svo kemur einhver upp og segir: Viltu ekki færa orðum þínum stað? Ég heimta bara að málinu sé frestað til þess að ég geti fengið að leita að þessu í bókasafni mínu. Þetta er náttúrlega með slíkum endemum, að það tekur varla tali að þurfa að hlusta á svona lagað.

Málið er það, að hæstv. ráðh. kom hér í ræðustól áðan án þess að hafa hugmynd um hvaða mál væri á dagskrá. Hann heyrði aðeins að einn af fulltrúum Alþb. -ég ætla nú ekki að móðga hv. 8. landsk. þm. með því að telja hann fulltrúa þingflokks Alþb. — kemur hér upp, flytur sín sjónarmið, fer halloka í umr. Hæstv. félmrh. sér það og heyrir og vill leggja orð í belg og flytur einhverja gamla ræðu, sem ég er búinn að heyra hann flytja svona 20–30 sinnum, fyrst í skóla, síðan á kappræðufundum og hef síðan lesið hana í ritstjórnargreinum Þjóðviljans og loks hér á Alþingi, ræðu sem ég býst við að Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason hafi samið fyrir hann, því að hún er frá 1945, en þá var hæstv. ráðh. eins árs. Og koma svo hér í ræðustól og biðja um að málinu sé frestað, ég bara skil ekki slíka ástæðu. Það hlýtur að vera einhver önnur ástæða fyrir því en þessi.

Það sem skiptir auðvitað máli eru ekki umr. um sjónvarp, eins og hæstv. ráðh. var að fjalla hér um þegar hann komst næst nútímanum, fjallaði um ameríska sjónvarpið og minnti mann satt að segja á auglýsinguna sem hefur komið í sjónvarpið stundum: Þetta er ekki auglýsing um æðarvarp, þetta er ekki auglýsing um kúluvarp, þetta er auglýsing um sjónvarp. Slík var ræða hæstv. ráðh. Hún bar eiginlega öll merki slíkra sjónvappsauglýsinga. Málið er ósköp einfaldlega það, að hér er verið að fjalla um till. sem hefur ekkert með NATO að gera eða Atlantshafsbandalagið, ekkert með herstöðina eða varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli. Þetta er till. um það að stofnað verði til embættis ráðunauts á Íslandi, sem geti á grundvelli íslenskrar þekkingar ráðlagt þeim sem taka ákvörðun um varnar- og öryggishagsmuni þjóðarinnar, íslenskum stjórnvöldum, hvernig hægt sé að komast að sem bestri ákvörðun. Það er aðeins verið að fara fram á að þetta sé gert á grundvelli þekkingar og ég hef fært fyrir því mörg og ágæt rök.

Mér þótti ræður þær sem á eftir komu mjög góðar og skemmtilegar. Ég verð að segja alveg eins og er, að mér finnst allt í lagi að hlusta á hæstv. ráðh. flytja þessa ræðu sína, sem hann er náttúrlega þaulæfður í að flytja allt frá barnsaldri. En hún fjallar bara ekkert um þetta mál, það er lóðið. Ég mælist því til þess, hæstv. forseti, þar sem gera má ráð fyrir að þetta þing verði í styttra lagi og jafnvel fari fram kosningar í apríl, sem þýðir að svo kann að fara að þing verði rofið í næsta mánuði, að þessu máli verði flýtt, því frestað og hv. utanrmn. falið að fjalla um það. Ef hv. nefnd kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé æskilegt, þá fáum við í síðari hluta umr. tækifæri til að fjalla um málið frekar og þá skora ég á hæstv. ráðh. að koma hér í ræðustól og finna orðum sínum stað, sem hann treystir sér ekki til að gera í þessum umr.