25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt hæstv. ráðh. halda þessa ræðu sína oft og ég harma það að minn ágæti flokksbróðir og samþm. í þessu kjördæmi, 10. þm. Reykv., er orðinn leiður á að heyra hana. Ég vil að hæstv. ráðh. flytji hana sem allra oftast, því að hún er samfelld saga þeirrar baráttu, sem hefur átt sér stað um varnarmál og þátttöku Íslands í vestrænni samvinnu um varnir Íslands og varnir vestrænna ríkja og hún er saga um samfellda sigurgöngu gegn Alþb.-mönnum og málstað þeirra. Ég ætla að biðja hv. 10. þm. Reykv. að stöðva alls ekki hæstv. ráðh. í þessum ræðuflutningi sínum, ekki undir neinum kringumstæðum.

En það sem sló mig í upphafi málflutnings hæstv. ráðh. í fyrstu ræðu hans var að hann talaði um hroka þeirra sem tala af sannfæringu fyrir vestrænni samvinnu og fyrir þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir sem 47. mál þessarar virðulegu stofnunar. Hver talar af hroka og hver talar af mikillæti, eins og hann orðaði það? Er það að tala af hroka að tala af sannfæringu gegn málflutningi ráðh., gegn málflutningi Alþb.? Hafa aðrir þm. og aðrir menn ekki heimild til þess að hafa sína skoðun og fylgja henni eftir, án þess að sérstaklega sé talað um að þeir séu hrokafullir í sínum málflutningi? Þeir sem tala með vörnum Íslands og þátttöku Íslands í vestrænni samvinnu tala af meiri sannfæringu heldur en þeir sem tala gegn því að Ísland sé varið land. Þar er ekki glóð einhvers staðar að finna. Þar er eldur, sem brennur í æðum, sem Alþb.-menn ráða ekkert við.

Ég vil ekki taka undir það sem hér hefur verið sagt um Alþb., að það sé hópur sérvitringa sem berjist gegn vörnum Íslands. Þetta er sértrúarflokkur á því sviði. Það er komið við fjöregg og að því er virðist eina stefnumátið sem sameinar þann hóp manna sem berjast gegn vörnum Íslands og samstarfi vestrænna ríkja.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðh., sem einnig gegnir því veigamikla embætti innan Alþb. að vera formaður þess, sagði: Svo lengi sem Alþb. er Alþb. mun það berjast gegn varnarliðinu, heyrðist. mér hann segja. (Gripið fram í: Hernum.) Hernum, já, varnarliðinu, þá hef ég heyrt nokkurn veginn rétt. Nú vill svo til að í Þjóðviljanum var sagt frá því eftir ársþingið, eða hvað þeir kalla nú sína stærstu samkomu, að Alþb. hefði á þessari samkomu sinni samþykkt að skipa nefnd til þess að gerbylta Alþb., endurskoða stefnu þess og störf. Það getur þess vegna vel verið að það sé að koma að því að Alþb. og Alþb.-menn hafi loksins séð að lengra verður ekki haldið á þeirri braut sem þeir hafa hingað til gengið. Og það þýðir, virðulegi góði vinur hv. 7. þm. Reykv., að sú endurhæfing, sem á ykkur hefur verið ástunduð undanfarið af íslensku þjóðinni og mátflutningi þeirra sem hafa staðið með vestrænni samvinnu, er farin að bera árangur. Lengra getið þið ekki gengið í vitleysunni en þið hafið þegar komist.

Þá vil ég nefna það sem sló mig einna helst í mátflutningi hv. 8. landsk. þm. Í hennar frumræðu var kjarni málflutnings Alþb. yfirleitt, sérstaklega ef þessi mál koma á dagskrá. Hún sagði: „Það á ekki að ræða þessa þáltill., það á ekki að ræða þetta mál, það á að vísa því burt án umr.“ Þetta undirstrikar hugsunarháttinn, þann hugsunarhátt sem kemur fram hjá þeim sem eru einræðishneigðir. Það á ekki einu sinni að fá að ræða á Alþingi Íslendinga mál sem kemur þeim ekki vel að ræða eða fá þau á dagskrá.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka þátt í samstarfi vestrænna þjóða á þann hátt sem við gerum og frekar auka það samstarf en að draga úr því. Og það þýðir að sjálfsögðu að ég vil hér sterka varnarstöðu, ekki veika. Hvort sú till. til þál. sem hér liggur fyrir er þörf eða óþörf, það skal ég ekkert um segja. Ég mun standa að samþykkt hennar, en ég álít hana að því leyti til óþarfa, að ég held að varnarmálanefnd eða utanrrn. hefði getað, án þess að þessi till. kæmi hér til samþykktar, ráðið slíkan mann. Það er það sem gerir það að verkum að ég tel að þessi till., um að ráða ákveðinn starfsmann til að gegna ákveðnu hlutverki, sem er að sjálfsögðu hluti af hlutverki varnarmálanefndar okkar Íslendinga, eigi ekki að koma fyrir Alþingi, heldur eigi varnarmálanefnd að ráða slíkan mann, ef hún telur þörf fyrir hann.