25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

87. mál, málefni El Salvador

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveimur öðrum þm. Alþfl. leyft mér að flytja þáltill. á þskj. 89, till. sem fjallað um málefni El Salvador og till. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að beina því til utanrrh., að Ísland beiti áhrifum sínum, hvarvetna þar sem þess gefst kostur á alþjóðavettvangi, til þess að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála í El Salvador, jafnframt því að beita sér fyrir því gagnvart Bandaríkjastjórn, að hún láti af hernaðarstuðningi við þá ógnarstjórn sem fer með völd í EI Salvador. Í þessu sambandi er sérstaklega minnt á nýlegt tilboð stjórnarandstöðunnar um, að deiluaðilar setjist að samningum, og hvatt til þess, að Ísland stuðli að því, að af slíkum samningum verði sem allra fyrst.“

Þess er að geta að till. er skrifuð á haustmánuðum og sú grg., sem henni fylgir og ég mun hér á eftir í máli mínu styðjast við, er skrifuð á haustmánuðum. Síðan hefur auðvitað eitt og annað gerst, þó ekki neitt sérstaklega ánægjulegt, í þessum efnum. Grg. ber þess sem sé merki að hún er rituð á s.l. hausti.

Skemmst er frá því að segja, að þær ríkisstjórnir sem farið hafa með völd í El Salvador bera ábyrgð á einhverjum mestu fjöldamorðum síðari ára. Samkv. heimildum frá fulltrúum kirkju og mannréttindasamtaka hafa tugþúsundir manna verið myrtar á kerfisbundinn hátt á síðustu þremur árum. Á síðustu þremur árum hefur Mannréttindanefnd El Salvador skráð rúmlega 26 þúsund morð á óbreyttum borgurum í landinu. Mannréttindasamtök, sem starfa í EI Salvador, og kirkjunnar menn þar í landi halda því fram, að langflest þessara morða séu framin af öryggissveitum, her og lögreglu landsins. Það hefur einnig verið sýnt fram á tengsl milli herforingjanna í EI Salvador og ýmissa hópa öfgamanna, sem vinna þessi óhæfuverk að langmestu leyti. Mikill meiri hluti fórnarlambanna er fátækir landbúnaðarverkamenn, en allar stéttir landsins hafa þó orðið fyrir barðinu á því sem þarna hefur verið að gerast. Sérstaklega má nefna, að talið er að 42 læknar hafi verið myrtir á síðustu þremur árum og mikill fjöldi kennara, bæði við æðri og lægri skóla, hefur horfið sporlaust.

Það er talið að nú hafi rúmlega 1 millj. manna orðið að yfirgefa heimili sín eftir að ógnaröldin hófst í El Salvador árið 1979. Þetta lætur nærri að sé fimmti hver landsmaður, sem kominn er á flótta í eigin landi eða á flótta úr eigin landi. Samkvæmt heimildum mannréttindasamtaka standa herinn í El Salvador og lögreglan fyrir skipulögðum pyntingum í fangelsum landsins. Með þetta þarf ekki að fara í neinar grafgötur. Fyrir þessu liggja skjallegar heimildir víða.

Nú er það svo, að aftökur og hryðjuverk hers og lögreglu hafa verið gagnrýnd ákaft á alþjóðavettvangi að undanförnu. Á síðasta ári virtust aðferðir yfirvalda vera að breytast til samræmis við aðferðir sem ógnarstjórnir sunnar í þessari álfu hafa beitt og beita. Tölur yfir mannshvörf sýna að á þessu ári hafa þau á sumum tímabilum ársins þrefaldast miðað við sama tíma í fyrra, þ.e. árið 1981. Það er einnig hrikalegt að ofbeldi gegn konum virðist fara vaxandi. Skýrslur mannréttindasamtaka sýna að 90%.þeirra kvenna sem handteknar eru er nauðgað. Þá er til fjöldi vitnisburða um fjöldamorð á óbreyttum borgurum á þessu ári.

Það er alveg augljóst að ríkisstjórn El Salvador ræður ekki við þennan vanda. Þrátt fyrir gífurlega og að því er virðist næstum ótakmarkaða hernaðar- og efnahagsaðstoð Bandaríkjastjórnar hefur stjórnarhernum og lögreglunni lítt miðað í baráttu við vopnaða stjórnarandstöðu, sem hefur rúmlega þriðjung landsins, ef ekki meira, undir sinni stjórn. Það verður að teljast afar ólíklegt að unnt sé að vinna hernaðarlegan sigur þar sem þjóðin skiptist í andstæðar fylkingar og her og lögregla halda almenningi í stöðugum ótta. Þrátt fyrir yfir 80 millj. dollara aðstoð Reagan-stjórnarinnar á s.l. ári hefur yfirstjórn landsins lítið miðað í baráttunni gegn skæruliðum FMLM, hinni vopnuðu stjórnarandstöðu landsins.

Það virðist því rétt, að reynt sé til þrautar að ná samkomulagi hinna stríðandi afla. Þar hafa menn ekki haft árangur sem erfiði. Settar hafa verið fram hugmyndir til lausnar, og þær án skilyrða, en þeim tilboðum hefur verið hafnað.

Nú er það svo, að menn kynnu að spyrja: Hvers vegna að taka þessi mál upp hér? Jú, okkur ber vissulega skylda til þess þar sem ofbeldi og mannréttindabrot eiga sér stað og við teljum að við getum með einhverjum hætti stuðtað að lausn mála. Hér var síðast í gær maður frá þessu hrjáða landi, sem þm. höfðu tækifæri til að ræða við, og kom fram í hans máli að ástandið verður æ erfiðara: Efnahagsástandi hrakar, atvinnuleysi vex og þar af leiðandi verður erfiðara ástand hjá öllum almenningi. Það er talið að þjóðarframleiðsla þarna hafi minnkað mjög verulega, verðlag á helstu framleiðsluvörum landsins, sem er kaffi og baðmull, hafi lækkað. Erlent fjármagn hræðist það öryggisleysi sem er þarna í stjórnmálum. Innfæddir kaupsýslumenn senda gróða sinn úr landi og alvarlegur gjaldeyrisskortur ríkir. Fyrirtæki loka hvert af öðru. Það sem virðist halda lífinu í þessari ríkisstjórn er efnahagsaðstoð Reagans Bandaríkjaforseta.

Bandaríkjaþing hefur, að því ég best veit, sett þau skilyrði að þessari aðstoð verði ekki áfram haldið nema því aðeins að mannréttindabrotum linni og það sé hægt

að tala um að þar hafi orðið jákvæð þróun. Frá því segir í síðasta hefti bandatíska vikuritsins Time, að embættismenn í Washington hafi veitt því athygli með mikilli ánægju að pólitísk morð væru nú færri en 200 á mánuði, en voru 500 pólitísk morð á mánuði árið 1981. Vissulega má e.t.v. með nokkrum hætti segja að þar hafi ástandið skánað, en gott er það auðvitað ekki. Og hér er haft eftir embættismanni í bandaríska utanrrn.: Þetta er auðvitað feiknarlegur fjöldi morða og ekki er þetta beinlínis jákvæð mynd, sem hér blasir við, en þetta er þó verjanlegt.

Í nóvember á s.l. ári skýrði eitthvert blaðanna á Norðurlöndum frá því, að fram til þessa hefðu 5639 manns fallið í borgarastyrjöldinni í El Salvador. Þar af voru 762 hermenn, 2500 úr skæruliðasveitum. Afgangurinn, um 2400 manns, var borgarar, börn, menn og konur, sem lent höfðu í eldlínunni milli stríðandi afla.

Nú er það auðvitað svo, að það verður Bandaríkjaforseta og Bandaríkjastjórn til ævarandi lítils sóma, að ekki sé sagt skammar, að hafa stutt við bakið á þessari ógnarstjórn með jafnríkulegri efnahagsaðstoð og hernaðaraðstoð sem hér er um að ræða, og það er auðvitað alveg ljóst að á bandaríska þinginu er veruleg andstaða við þetta, en forsetinn hefur engu að síður haft sitt fram.

Það heyrði til mikilla undantekninga og raunar tíðinda á s.l. hausti, um miðjan nóvember, þegar sendiherra Bandaríkjanna í EI Salvador kvað upp úr um ástandið þar í landi. Þá voru birt við hann blaðaviðtöl, og í einu þessara viðtala sagði hann: Undir venjulegum kringumstæðum tala sendiherrar ekki um þessa hluti, en þetta eru bara ekki venjulegar kringumstæður.

Það sem honum lá á hjarta og það sem hann sagði var: Ef dómskerfið í þessu landi starfar ekki, ef morðingjum bandarískra ríkisborgara er sleppt átölulaust, þá ætlar þessi sendiherra Bandaríkjanna að leysa frá skjóðunni. Og það gerði þessi sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador.

Það sem hann kvartaði einkum yfir var að stjórnvöld í EI Salvador höfðuðu ekki mál á hendur herforingja í stjórnarher landsins fyrir að gefa fyrirmæli um það á árinu 1981 að tveir bandarískir landbúnaðarsérfræðingar skyldu myrtir. Þeir voru myrtir og eftir sendiherranum er haft í þessu tölublaði Newsweek, 15. nóv. 1982: „Við vitum að þessi maður er sekur. Sannanirnar og rökin eru yfirgnæfandi. Dómarinn horfir bara framhjá sönnunargögnunum og ástæða er til að ætla að dómarinn hafi óttast um líf sitt ef hann hefði úrskurðað á annan veg.“

Ennfremur greindi sendiherra Bandaríkjanna frá því, að vopnaðir menn í borgaralegum klæðum hefðu numið á brott a.m.k. 15 vinstri sinnaða stjórnmálamenn og foringja verkalýðsfélaga í okt. Her El Salvador játaði seint og um síðir að hafa 8 þessara manna í haldi á sínum vegum. En hvað um hina? Enginn veit örlög þeirra.

Ýmislegt fleira mætti hér tiltaka, en ég kýs að láta máli mínu senn lokið. Ég ítreka að við Íslendingar getum haft áhrif á þróun þessarar deilu. Við getum haft áhrif til þess að stuðla þarna að friði, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem um skeið hefur verið unnið að því að reyna að leysa þessa deilu. Við getum einnig og við eigum einnig að þrýsta á ríkisstjórn Reagans Bandaríkjaforseta að láta þegar í stað af hernaðaraðstoð við herforingjastjórnina. Án hernaðaraðstoðar Bandaríkjamanna gætu her og lögregla í þessu ógæfusama landi ekki haldið uppi þeirri ógnarstjórn og þeim hryðjuverkum sem einkennt hafa sögu þessa lands og alla þróun mála þar undanfarin ár. Alþfl. leggur ríka áherslu á að sem víðtækust samstaða geti náðst um þessar till.

Ég vil skjóta því hér inn að lokum, að ég heyrði þess getið í fréttum að hér ætti að sýna á næstunni kvikmynd sem heitir „saknað“ eða Missing. Það er bandarísk kvikmynd. Hún gerist í einu af einræðisríkjum Suður-Ameríku. Hún fjallar um föður sem fer að leifa að syni sínum sem herforingjastjórn hefur handtekið að tilefnislausu. Ég veit að þm. og raunar við öll höfum gott af því að sjá þessa mynd. Hún er verulega áhrifarík. Ég held að Bandaríkjamenn verði ekki sakaðir um að draga þar of dökka mynd eða of sterkar línur. Ég held að því miður sé þessi mynd allt of sannleikanum samkvæm.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég legg til að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til utanrmn.