25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

102. mál, fjárhagsstaða láglaunafólks og lífeyrisþega

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er hreyft miklu máli, spurningunni um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu fyrst og fremst. Engin tök eða tími eru til að ræða þau mál til botns í þessum umr., enda verða menn sjálfsagt seint á eitt sáttir um hvað sé réttast. Jafnvel heyrast þær raddir nú, að þau tekjuskiptingarhlutföll sem við höfum þó í dag í þjóðfélaginu séu röng að því leyti til, að það þurfi jafnvel að raska þeim enn meir þeim í hag sem meira hafa, með því að ýta undir frelsi fjármagnsins og reyna að koma því sem allra mest á fárra manna hendur. Er því rétt og skylt að vera vel á verði varðandi kjör þeirra sem lakast eru settir. Við höfum svo sem öll í þessum sölum haft á orði að þá þurfi að vernda og verja og ég efast ekki um að þingheimur vill í raun og veru gera það.

Ég ætla aðeins að koma inn á þau efnisatriði sem í þessari till. felast. Í fyrsta lagi er hér um geysilega mikilvægt mál að ræða og veigamikið. Ég hef oft bent á það atriði sem hv. 1. flm. kom inn á, varðandi myntbreytinguna. Ég er ekki í neinum vafa um það að í kjölfar hennar hefði þurft að koma mjög hert verðlagseftirlit. En í þess stað hefur því miður verið gengin sú gata að auka hið svokallaða frelsi samkeppninnar á öllum sviðum, næstum að segja í kjölfar myntbreytingarinnar, sem hefur orðið til þess að glögglega hefur komið í ljós að okkur veitir ekki af öflugu verðlagseftirliti. Og þó menn geti endalaust deilt um það hversu virkt það er og hversu vel það standi vörð um kjör manna, þá er hitt þó alveg augljóst, að þegar öllu er gefinn laus taumurinn, menn fá að hækka vörur að vild sinni, þá fyrst tekur steininn úr. Þá sjá menn kannske að einhvers sé í misst þegar allað verðtagseftirlitskerfi er brott fellt að miklu leyti. Ég veit a.m.k. að á síðasta ári, því ári sem hvað mest af hömlum við verðlagshækkunum hefur verið úr gildi fellt, hafa landsmenn ekki orðið varir við að þetta mikla frjálsræði í samkeppni leiddi til lægra vöruverðs. Ég skal ekki segja að þess hafi ekki fundist dæmi, en á miklu fleiri sviðum hefur ábyggilega alveg þveröfugt orðið uppi á teningnum.

Ég tek undir það með hv. flm. að áhrif myntbreytingarinnar voru mikil og komu víða við, allt of víða. Ég vakti mjög snemma á því athygli að þarna væri ýmislegt ekki eins og það ætti að vera. En verðlagseftirlitið og þeir sem áttu um þau mál að sjá sáu því miður ekki ástæðu til þess á nokkurn hátt að herða það eftirlit sem þurfti að vera með vöruverði í landinu í kjölfar breytingarinnar. Kom það m.a. fram í svari hæstv. viðskrh. hér í þessum þingsal.

Ég vil taka það fram út af því sem hv. flm. sagði um lífeyrisþega að vitanlega hefur orðið gjörbreyting á öllum málefnum lífeyrisþega í landinu þó við vitum að ennþá búi margir þeirra við kröpp kjör. Það eru æ fleiri sem njóta lífeyrisréttinda úr lífeyrissjóðum og hafa þar býsna góðar tekjur. Sá hópur stækkar sem betur fer. En um leið verður kannske mismunurinn enn tilfinnanlegri og meiri.

Þó að þessi till. hafi verið fram komin sá ég a.m.k. ástæðu til þess að flytja sérstaklega till. um að kjör þeirra öryrkja sem verst eru fatlaðir væru athuguð alveg sérstaklega. Mig grunar að þar sé að finna þann þjóðfélagshóp sem býr við allra lökust kjör almennt hér á landi og því tók ég þá sérstaklega út úr, enda málefnum þeirra býsna vel kunnugur. Ég held að það sé ekki ofmælt hjá mér að enda þótt í mörgum stéttum þjóðfélagsins megi eflaust finna fólk sem lítið hefur, m.a. eldra fólk, þá sé þó þessi hópur, hópur hinna verst fötluðu tvímælalaust lakast settur varðandi almenn kjör, varðandi aðstöðu alla, varðandi möguleika til tekjuöflunar, varðandi möguleika til einföldustu frumþarfa þess lífs sem við teljum sjálfsagt samkvæmt okkar lífsstíl í dag. Það er nokkuð bratt upp fyrir það fólk að horfa á þann lífsstíl sem við flest höfum tamið okkur. Það er nokkuð hátt til lofts fyrir það fólk að klífa þann stiga.

Ég tek þess vegna undir meginatriði þessarar till. Það er vissulega ástæða til þess.

Hér var drepið á galla þeirra láglaunabóta sem greiddar voru út nú fyrir jólin. Ég skal ekkert draga úr því að þeir gallar voru býsna miklir. Ég tel hins vegar að þær bætur sem greiddar voru hafi að vísu náð í yfirgnæfandi tilfellum með því fyrirkomulagi til réttra aðila. En hróplegu dæmin verða ekkert betri fyrir því, m.a. gagnvart því gólfi sem sett var á þetta. Á ég þá ekki sérstaklega við lífeyrisþegana, vegna þess að ætlunin var sú að þeir fengju þá skerðingu, sem 1. des. varð á launum manna, bætta með vissri hækkun t.d. tekjutryggingar. Nú á auðvitað eftir að meta það hvort endar hafi náðst saman þar. Ég skal ekki alveg fullyrða um það, en hins vegar var það verulega í áttina, miðað við kjör þeirra sem þar eru allra verst settir.

Við sjáum það hins vegar gleggst og best í sambandi við greiðslu á láglaunabótunum, að við búum við gallað skattakerfi, skattakerfi sem allir flokkar hér bera ábyrgð á, samkvæmt skattalögum sem menn voru að baxa við í fleiri ár að koma í gegn og reyna að ná sem allra mestri samstöðu um. Sumir segja eflaust að þarna sé um framkvæmd að ræða sem sé ein hinna gölluðustu og erfiðustu í skattakerfi okkar. Það er sjálfsagt seint hægt að komast fyrir það að menn skjóti sér undan réttmætum skyldum til samfélagsins í þessu efni. Eflaust er það rétt. En því miður fer ekki milli mála að sú viðleitni, sem ég held að allir flokkar hafi lagt mikla vinnu í, að ná fram nýjum skattalögum sem m.a. áttu að ná til þeirra sem auðveldast áttu með að svíkja undan skatti, hefur ekki náð tilgangi sínum. Það sanna m.a. ýmsir ágallar sem fram komu nú við greiðslu láglaunabótanna.

Ég vildi sem sagt taka undir meginmálið í því sem hv. 1. flm. sagði hér áðan, minna um leið á þá lífeyrisþega sem ég held að séu allra verst settir og minna enn og aftur á það, að svo gallað sem okkur þykir oft allt eftirlit og allar hömlur með verðlagi hér í landinu, þá er það þó alveg víst að hin frjálsa samkeppni í vöruverði færir ekki láglaunafólkinu neina blessun.