26.01.1983
Efri deild: 32. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

144. mál, vernd barna og ungmenna

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að taka undir þá skoðun, sem fram kom hjá hv. flm. og fram kemur í þessu frv., að það sé nauðsynlegt að setja reglur um það efni sem þar er fjallað um. Ég ætla mér ekki að lengja mikið umr. hér, en ég taldi ekki við hæfi að þessu frv. væri sýnt það tómlæti að þögn væri alveg látin ríkja í sambandi við flutning þess.

Það þarf ekki miklu að bæta við það sem hv. fyrri flm. hefur sagt um þá hættu sem stafað getur af ofbeldiskvikmyndum og klámkvikmyndum og öðrum slíkum óhroða sem um er að tefla. Það er auðvitað hægt að nefna einstök dæmi, þar sem þetta hefur haft þessi og þessi áhrif, eins og hv. flm. gerði. Ég hygg þó að það sé ekki svo auðvelt að festa hendur á slíkum einstökum dæmum, heldur er hitt miklu hættulegra, hvernig þetta síast í raun og veru inn í almannavitund og án þess að menn geri sér grein fyrir. Og auðvitað eru börn og ungmenni næmust fyrir áhrifum og þess vegna er þetta sjálfsagt skaðlegast fyrir þau, þó að það sé tæpast nokkur heilsubót fyrir nokkurn.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þá bylgju, liggur mér við að segja, sem fer um löndin nú af svokölluðum terrorisma eða ofbeldi og sem birtist í ýmsum myndum og öllum ógeðslegum. Þó að það sé reynt að réttlæta slíkt með einhverjum fallegum markmiðum er ómögulegt að fallast á að það sé leyfilegt að beita slíkum aðferðum til að vinna málstað fylgi. Og þó að það liggi kannske ekki í augum uppi að samband sé beint á milli þess, sem hér er um að tefla, sýningar svona kvikmynda, og svo þeirrar ofbeldisbylgju sem yfir gengur, þá er a.m.k. ekki of mikið sagt að telja að það sé líklegt að eitthvert samhengi sé þarna á milli. Menn vita hver áhrif það hefur á börn og ungmenni ef maður er gerður að einhverri hetju í kvikmynd — maður sem er óspar á að beita líkamlegu ofbeldi. Þess vegna óeld ég að það sé full ástæða til að bregðast hart við í þessu efni.

Eins og kom fram hjá hv. þm., sem mælti fyrir frv., hefur ríkisstj. nú flutt frv. um þetta efni, sem gengur a.m.k. í mjög svipaða átt og þetta frv., sem hér er um að tefla. — Mér sýnist það í raun og veru skynsamleg till., sem hann setti fram, að það væri fjallað um þessi frv. af allshn. þannig að hún gæti þá tekið það úr hvoru frv. sem betur er talið hæfa. Og eins og hann gat um er engin ástæða til í máli eins og þessu að metast um hver hafi átt frumkvæðið.

En það er eitt atriði sem ég vildi drepa á í þessu sambandi. Það er, að ég er ákaflega lítill talsmaður boða og banna yfirleitt, en stundum verður að grípa til þeirra. En þá er þó þetta, að það er ákaflega mikilsvert hvaða reglur þeir skoðunarmenn, sem eiga að hafa það ákvörðunarvald sem hér er um að ræða, hafa við að styðjast og hvernig þeir líta á málið. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni hefur hent að það hefur verið litið öðruvísi á kvikmynd hér en t.d. annars staðar. Þarna verður sem sagt að framkvæma mat, en það er ákaflega æskilegt að það sé einhver samkvæmni í því mati og það sé í nokkurri samhljómun við það sem annars staðar er litið á. Þó vil ég segja að kannske væri betra að það væri heldur á undan hér en á eftir. En smekkur manna í þessu efni er auðvitað alltaf misjafn og það er ekki hægt að girða fyrir að þeir sem skoða myndirnar, skoðunarmennirnir, líti eitthvað öðruvísi augum á þetta en flestir aðrir mundu gera. En það er nauðsynlegt að það séu einhverjar reglur sem geta verið þeim til leiðbeiningar um þetta. Það er sjálfsagt erfitt að setja slíkar reglur.

Það er laukrétt, sem flm. benti á, að það er komið upp nýtt viðfangsefni eða vandamál þar sem er hin nýja fjölmiðlatækni. Það verður vart komist hjá því að taka einhverja afstöðu til þess og athuga það.

Í þessu sambandi langar mig líka til þess að minna á að kannske hefur ekkert tæki hér meiri áhrif en einmitt sjónvarpið. Eins og kom fram í máli flm. hefur það sýnt sig einmitt viðvíkjandi sjónvarpskvikmyndum erlendis að þær hafa verið ekki hvað minnst áhrifaríkar í þessu efni. Nú horfi ég ekki það mikið á sjónvarp hér að ég treysti mér til að fella neinn dóm um það sem hér er sýnt. En þó er ég hræddur um að þar sé stundum farið á jaðarmörk, og séð hefur maður þess merki að ekki hafi verið spöruð kjaftshögg og jafnvel byssuskot og menn hafi fallið fyrir þeim og að slíkum verknaði hafi staðið sá sem var aðalhetja í myndinni.

Ég held að hvað sem öllum kvikmyndahúsum líður sé sjónvarpið enn þá varhugaverðara að þessu leyti til, af því að það kemur og er í flestum tilfellum velkomið inn á hvert heimili. Það er náttúrlega hægara sagt en gert þegar þannig er í pottinn búið að ætla að greina á milli heimilisfólks og banna þeim sem eru yngri en innan við tiltekinn aldur að horfa á það, en leyfa hinum. Þetta getur því verið nokkrum vandkvæðum bundið. Þó að menn geti sagt sem svo: Mönnum er það í sjálfsvald sett hvort þeir horfa á það eða ekki, geta skrúfað fyrir, þá er það nú í reyndinni ekki svo einfalt.

En það sem hér hlýtur að koma upp í hugann er það, hvort þá sé nægilega tryggilega frá gengið í þessu sambandi varðandi sjónvarpskvikmyndir. Hér er gert ráð fyrir að það sé Ríkisútvarpið sem ákveður og ber ábyrgð á hvað það hefur sýnt. Þetta er dálítið óákveðið svona, en ætti það verði ekki að álíta að það sé þá útvarpsráð, hvort sem það gerir það í eigin persónu eða felur einhverjum starfsmönnum að framkvæma eftirlit

með því hvort kvikmynd skuli sýnd eða ekki. Mér finnst það ekkert fjarlæg spurning, þó að hér sé um ríkisfyrirtæki að ræða þar sem menn bera ábyrgð að vísu, þeir sem eru í störfum þar, að spyrja hvort það sé ekki eðlilegt að sömu reglur gildi um það sem þar er tekið til sýningar og í kvikmyndahúsum og hvort það ættu ekki sömu skoðunarmenn að skoða hvort tveggja. Þannig held ég að það væri þá best tryggð samkvæmni í þessum efnum.

Eins og ég sagði áðan er ég lítið fyrir að prédika boð og bönn, og ég veit að sumum kann að þykja nokkuð hart að setja fyrirtæki sem þetta undir slíkar reglur, og það er fjarri mér að halda því fram að ég geti sagt að þar hafi verið eða sé um nokkra misnotkun að ræða, en þó vil ég endurtaka það, sem ég sagði, að þetta er í rauninni enn viðkvæmara en jafnvel kvikmyndahúsin og það getur verið réttlætanlegt að grípa til einhvers eftirlits í þessum efnum.

En höfuðatriðið er að þessi mál þarf að skoða og það gefst tækifæri til þess í sambandi við þetta frv. og eins það frv. sem ríkisstj. hefur samið, og það er sjálfsagt að setja þær reglur sem æskilegastar eru taldar um þetta efni. Auðvitað er aldrei hægt að tryggja neitt með slíkum reglum, heldur veltur hér á framkvæmdinni, en hana þarf líka að festa þá í sessi og tryggja að það sé haldið á þessum málum af verulegri festu.