26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

43. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til staðfestingar á brbl. frá s.l. sumri um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Frv. hefur legið hér alllengi. Ég kaus að draga það að mæla fyrir því þar til gerð hefði verið grein fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem er ítarlegt og allviðamikið mál og liggur fyrir hv. Ed. Ég óskaði eftir því við formann félmn. Ed., að nefndirnar störfuðu saman að þessum húsnæðismálum og tækju þá m.a. til meðferðar frv. það sem hér liggur fyrir til staðfestingar á brbl.

Frv. gerir ráð fyrir nokkrum breytingum frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er breytt ákvæðum sem varða kaupskyldu sveitarfélaga á verkamannabústöðum. Hún er felld niður á þann hátt sem gert var ráð fyrir í lögunum í öndverðu og kaupskyldunni er breytt í forkaupsrétt sveitarfélaganna. Hér er um að ræða íbúðir sem byggðar hafa verið samkv. eldri lögum um verkamannabústaði og hlotið hafa lán úr Byggingarsjóði verkamanna.

Þetta er önnur meginbreyting brbl. Hún var gerð af þeirri ástæðu að fram höfðu komið óskir um þessa breytingu frá fjölmörgum sveitarfélögum í landinu, sem töldu að þau gætu ekki risið undir þeirri kaupskyldu sem lögin kváðu á um, enda væri ekki sanngjarnt að ætlast til þess að sveitarfélögin tækju þá byrði á sig vegna verkamannabústaða sem byggðir hefðu verið fyrir árum eða jafnvel áratugum.

Önnur aðalbreyting frv. felst í 3. gr. Þar er breytt útreikningsreglu á eldri verkamannabústöðum, útreikningsreglu eftirstöðva. Í lögunum var þetta orðað þannig: „Ef maður hefur átt íbúðina í 10 ár má hann að auki njóta verðhækkunar sem svarar helmingi af eftirstöðvum láns úr Byggingarsjóði verkamanna.“ Í brbl. er gert ráð fyrir því að þetta 10 ára þrep sé afnumið og í staðinn er orðalagið svona: „Að auki skal seljandi njóta verðhækkunar á hluta af eftirstöðvum láns úr Byggingarsjóði verkamanna þannig að til verðbóta reiknast 4% af eftirstöðvunum fyrir hvert ár, sem hann hefur átt íbúðina, er, þannig koma verðbætur á allt lánið eftir 25 ára eignarhald.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að menn eignist þennan rétt stig af stigi, en ekki verði um að ræða sérstakt 10 ára þrep, sem oft olli vandkvæðum þegar um var að ræða endursölu á verkamannabústöðum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara ítarlegar yfir þetta frv. að sinni, enda er það í rauninni einfalt og skýrir sig sjálft. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.