26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

43. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði að sú lagabreyting sem hér er til umr., þ.e. að fella niður forkaupsskyldu sveitarfélaga á öllum íbúðum sem byggðar eru fyrir mitt ár 1980, væri tilkomin vegna gagnrýni og óska frá sveitarfélögum. Þetta er ekki rétt nema að hluta. Gagnrýni sveitarfélaganna var ekki í reynd gagnrýni á lögin, heldur framkvæmd þeirra í höndum hæstv. félmrh. Framkvæmdinni þurfti fyrst og fremst að breyta, ekki endilega lögunum, a.m.k. ekki í þá átt sem frv. gerir ráð fyrir.

En hvað var það sem sveitarfélögin gagnrýndu mest? Það var einkum tvennt: Annars vegar það að sveitarfélögunum var með reglugerð uppálagt að greiða 10% af uppfærðu verði íbúðanna við endursölu þeirra og ekkert tillit tekið til þess, að þau voru áður búin að borga 30% eða þar um bil af brúttóbyggingarkostnaði íbúðanna. Þetta er ekki lagaatriði, þetta er reglugerðaratriði.

Í öðru lagi gagnrýndu sveitarfélögin að þau voru skyldug til að greiða út verð íbúða við endursölu þeirra til fyrri eigenda, en Byggingarsjóður verkamanna kom þá fyrst inn í myndina þegar nýr kaupandi var til staðar. Þetta var mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélög, þar sem lítil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði, en það eru einmitt þau sömu sveitarfélög sem yfirleitt eiga við mesta fjárhagsörðugleika að stríða. Hvorugt þessara atriða, sem sveitarfélögin gagnrýndu mest, er löggjafaratriði. Þessi gagnrýnisverði framkvæmdamáti var settur í reglugerð, sem núv. hæstv. félmrh. setti, og á að mínu mati varla stoð í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er í öllu falli mjög hæpið. Það er þessi framkvæmdamáti sem þurfti að breyta fyrst og fremst, en ekki lögunum.

Í öllum umr. um lagafrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins og vinnslu þess var alltaf gengið út frá því að sveitarfélögin greiddu sinn hluta af byggingarkostnaði í eitt skipti fyrir öll. Síðari eigendaskipti yrðu alfarið fjármögnuð af Byggingarsjóði verkamanna, enda er það hann sem græðir á uppfærslu eftirstöðva fyrri lána við endursölu, ekki sveitarfélögin. Það að sveitarfélögin voru höfð með inni í myndinni við endursölu íbúða var fyrst og fremst litið á sem öryggisatriði. Sveitarfélögin vita betur en aðrir hvar skórinn kreppir að og var þeim því falið að sjá um eðlilegan framgang þessara mála.

Bæði þessi gagnrýnisatriði eru lögunum sem slíkum óviðkomandi og áttu að leiðréttast á sama stað og þau voru búin til, í reglugerð frá hæstv. félmrh. Ég viðurkenni þó að rétt var að gera eigendaskipti auðveldari og sveigjanlegri en lögin gerðu ráð fyrir. En fyrr má nú rota en dauðrota. Fyrr má nú gera ráðstafanir til bóta en taka hundruð ef ekki þúsundir íbúða, áður en lýkur, undan félagslega kerfinu og setja þær á almennan markað. Með þessari lagabreytingu geta menn, sem fengu óverðtryggð lán frá Byggingarsjóði verkamanna fyrir liðlega helmingi andvirðis íbúðanna til 42 ára með 2.5% vöxtum fyrir fáum árum, jafnvel 2–3 árum, selt íbúðirnar að vild og grætt ómælt á lánum frá Byggingarsjóði verkamanna, sem gjarnan námu helmingi upphaflegs verðs íbúðanna, án þess að greiða nema örlítið brot af upphaflega láninu til baka.

Auðvitað verða freistingarnar miklar að losa íbúðirnar undan forkaupsrétti sveitarfélaganna. Bæði er að fyrri eigendur sjá sér leik á borði að selja íbúðir sínar á frjálsum markaði og munu því örugglega þrýsta á sveitarstjórnarmenn með að nýta ekki forkaupsréttinn. Og svo hitt, að auðvitað verður það mikil freisting fyrir fjárvana sveitarfélög að falla frá forkaupsrétti, sem kostar þau eins og áður segir og eins og reglugerðin er nú 10% af uppfærðu verði íbúðanna. Ég býst við að Reykjavíkurborg muni í flestum tilvikum notfæra sér forkaupsréttinn og e.t.v. eitt eða tvö önnur sveitarfélög. En ég er mjög hræddur um að flestar sveitarstjórnir geri það ekki meðan sú fáránlega regla er við lýði, að sveitarfélögin séu neydd til að greiða 10% af uppfærðu verði íbúðanna, án minnsta tillits til þess að sveitarfélögin hafa áður greitt umtalsverðan hlut upphaflegs byggingarkostnaðar, gjarnan 30%.

Það væri út af fyrir sig í lagi að samþykkja þetta frv. ef yfirdrifið fé væri til í Byggingarsjóði verkamanna og allir gætu fengið lán með þeim vildarkjörum sem þar er um að ræða og ef unnt væri að byggja verkamannabústaði eftir þörfum. Hvorugt af þessu er til staðar og lagasetningin því í meira lagi hæpin. Verkamannabústaðakerfið er bæði gott og nauðsynlegt, svo langt sem það nær. Með þeirri lagasetningu sem hér er til umr. er að mínu mati verið að vega að rótum þess.

Á meðan hinn almenni húseigandi og íbúðakaupandi fær aðeins 15–20% af byggingarkostnaði að láni hjá Byggingarsjóði ríkisins, og mun minna ef miðað er við staðalíbúð, þá fær það varla staðist að lána öðrum 90% af byggingarkostnaði og leyfa jafnframt að íbúðirnar verði seldar á frjálsum markaði að fáum árum liðnum. Við eigum að byggja mikið af íbúðum í verkamannabústaðakerfinu, en við megum ekki missa þær jafnóðum út úr kerfinu aftur. Við höfum ekki fjármagn til að haga okkur þannig. Eins og ég sagði áðan, þá þurfti að lagfæra ýmis framkvæmdaatriði við eigendaskipti félagslegra íbúða. En að stefna að því að sleppa út úr kerfinu öllum íbúðum, sem byggðar voru fyrir mitt ár 1980, það er fráleitt og forkastanlegt að gera það með brbl. skömmu fyrir þingsetninguna.