26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

43. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega gera hér að umtalsefni 3. gr. þessa frv. Þar segir m.a. með leyfi forseta:

„Að auki skal seljandi njóta verðhækkunar á hluta af eftirstöðvum láns úr Byggingarsjóði verkamanna þannig að til verðbóta reiknist 4% af eftirstöðvum fyrir hvert ár, sem hann hefur átt íbúðina, en þannig koma verðbætur á allt lánið eftir 25 ára eignarhaldstíma.“

Þessi regla er að mörgu leyti sanngjarnari en sú 10 og 20 ára regla, sem gilt hefur, því að verðhækkanir dreifast jafnar á eignarhaldstímann en koma ekki í tveim þrepum eins og verið hefur. Á þessari reglu er þó galli, sem ég tel nauðsynlegt að leiðrétta, og mun ég beita mér fyrir því að svo verði gert. Um er að ræða að þessi nýja regla skerðir rétt þeirra frá því sem nú er sem átt hafa íbúð í 10–121/2 ár og síðan á tímabilinu 20–25 ár. Gamla reglan samkv. núgildandi lögum gaf 50% hækkun eftir 10 ár, meðan þessi nýja regla samkv. frv. gefur 40%. Er það fyrst eftir 121/2 ár sem nýja reglan nær 50% hækkun eins og nú er. Sama er að segja um 20 ára eignarhaldstímann, að nýja reglan gefur 80% eftir 20 ár og nær ekki fullri hækkun fyrr en eftir 25 ár, meðan eldri reglan gaf verðbætur að fullu eftir 20 ár. Þarna er um verulega skerðingu að ræða á ákveðnu tímabili, frá því sem nú er, sem ég tel nauðsynlegt að leiðrétta. Ef verðbætur reiknast 5% af eftirstöðvum fyrir hvert ár í stað 4%, eins og frv. gerir ráð fyrir, væri hægt að koma í veg fyrir þá skerðingu sem ég hef hér lýst.

Ég á sæti í þeirri n. sem fær þetta frv. til meðferðar og mun ég sérstaklega beita mér fyrir því að þetta atriði verði sérstaklega skoðað í nefndinni og leiðrétt.