26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

152. mál, lögræðislög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Að tilhlutan minni var skipuð nefnd hinn 19. nóv. 1980 til að endurskoða lög um lögræði nr. 95 frá 5. júní 1947. Formaður nefndarinnar var Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari. Auk hennar áttu sæti í nefndinni Halldór Þorbjörnsson hæstaréttardómari og Björn Þ. Guðmundsson prófessor. Ritari nefndarinnar var Ólöf Pétursdóttir deildarstjóri í dómsmrn.

Lögð var á það áhersla, að við endurskoðunina yrði sérstaklega hugað að lagareglum í II. kafla núgildandi laga um sviptingu lögræðis, um brottnám lögræðissviptingar svo og lagareglum um réttarstöðu þess sem sætir slíkum aðgerðum, einnig á þeim tíma er lögræðissvipting varir. í þessu samhengi var ennfremur lögð áhersla á að endurskoðaðar yrðu reglur 31. gr. núgildandi laga, en þær fjalla um nauðungarvistun manns í sjúkrahúsi án hans samþykkis. Var lögð áhersla á í því samhengi að leita samráðs við sérfróða aðila um læknisfræðileg viðhorf við þær aðstæður.

Núgildandi lögræðislög nr. 95 frá 5. júní 1947 voru samin af dr. Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara að tilhlutan Finns Jónssonar dómsmrh., þá er stofnað var til samningar frv. Hafði áður verið lögð fram af Hannibal Valdimarssyni alþm. till. til þál. sem fjallaði um það efni. Þau lög urðu til mikilla bóta á sínum tíma.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er í fimm köflum. Helstu breytingar á gildandi lögum, sem í frv. felast, er að finna í II., III. og V. kafla frv., þ.e. um réttarfar í lögræðissviptingarmálum, sjúkrahúsvistun án samþykkis manns og um lögráðendur. Mun ég gera nokkru nánari grein fyrir helstu breytingum, er í frv. felast, hér á eftir.

Í II. kafla frv. eru ákvæði er ná til sviptingar lögræðis og brottnáms lögræðissviptingar. Lagt er til að mál til sviptingar lögræðis og brottnáms lögræðissviptingar verði færð aftur í sitt upprunalega horf, þ.e. að þau sæti afbrigðilegri meðferð einkamála, verði rekin fyrir bæjarþingi eða aukadómþingi og dómarar í þeim séu hinir reglulegu héraðsdómarar, í Reykjavík borgardómarar.

Telja verður óeðlilegt að með lögræðissviptingarmál sé farið að hætti opinberra mála, enda ekki til þess dæmi í löggjöf nágrannalanda að sóknaraðild í slíkum málum sé í höndum ákæruvaldsins.

Á undanförnum áratugum hefur gætt óvissu um ýmis réttarfarsatriði þessara mála, þar sem réttarfarsreglur varðandi lögræðissviptingarmál var að finna bæði í lögum nr. 95 frá 1947, þar sem kveðið var svo á að slík mál skyldu sæta afbrigðilegri meðferð einkamála, og í lögum um meðferð opinberra mála, þar sem kveðið var svo á að lögræðissviptingarmál skyldu fara að hætti opinberra mála.

Í III. kafla frv. er fjallað um bráðabirgðavistun manns í sjúkrahúsi án samþykkis hans.

Eins og ég hef áður greint frá var dr. Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara falið að semja frv. að núgildandi lögræðislögum. Þegar það var gert var hann beðinn að athuga þessi mál með sérstöku tilliti til sjúklinga sem beita þarf frelsisskerðingu til inniagnar í sjúkrahús. Þá voru engin ákvæði í lögum til tryggingar þeim mönnum sem af hálfu aðstandenda eða almannavalds voru vistaðir í sjúkrahúsi gegn vilja sínum eða án þess að um hann yrði vitað. Til þess að tryggja hagsmuni þeirra sjúku og girða fyrir mistök voru lögfestar reglur í 31. gr. lögræðislaga um framkvæmd þess þegar vista þarf mann í sjúkrahúsi án hans samþykkis. Meginregla er sú, að svipta þarf þann mann sjálfræði með dómi þegar þannig stendur á, auk þess sem krafist er samþykkis dómsmrn.

Framkvæmd þessara mála hefur ekki orðið að öllu leyti á þann veg sem lögin mæla fyrir um. Framkvæmdin hefur orðið sú, að sviptingarbeiðnin ein er látin nægja ásamt vottorði læknis og samþykki dómsmrn., en dómarinn tekur málið ekki strax til meðferðar nema sjúklingur óski sérstaklega eftir því.

Aðalástæðan fyrir þessari framkvæmd er tillitssemi við sjúklinginn. Allir þeir sem að þessum málum vinna eru sammála um að það sé ómannúðlegt að íþyngja sjúklingum með því að láta þá ganga í gegnum lögræðissviptingarmál, ef hjá því verður komist. Þá virðist vera óþarflega harkalegt að aðstandendur þurfi að láta svipta bráðveikan geðsjúkling sjálfræði til þess að hægt sé að koma honum í sjúkrahús. Hin öra þróun geðlækninga hefur haft það í för með sér að hægt er að lækna sjúkling á mun skemmri tíma en áður var unnt og eru læknar almennt á móti því að menn séu sviptir sjálfræði til þess að unnt sé að vista þá í sjúkrahús.

Lagt er til í 13. gr. frv. að hægt sé að vista sjálfráðan mann til bráðabirgða í sjúkrahús gegn vilja sínum, ef hann er haldinn þeim annmörkum er í 2. mgr. 13. gr. segir.

1561 Nd. 26. jan. Í 15. gr. frv. er lagt til að samþykkis dómsmrn. til nauðungarinnlagnar sé leitað að fullnægðum fyrrgreindum skilyrðum í 2. mgr. 15. gr.

Í 17. gr. frv. er að finna nýmæli, þar sem lagt er til að á vegum rn. starfi trúnaðarlæknir sem rn. getur leitað umsagnar hjá ef þörf krefur áður en heimild er veitt til vistunar. Jafnframt er lækni þessum veitt heimild til að kanna ástand sjúklings sem dvelst í sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Ákvæði þetta er sett til þess að tryggja hagsmuni sjúklings og var það gert í samráði við yfirlækna Kleppsspítalans.

Í 18. gr. frv. er tekin fram sú sjálfsagða regla, að sjúklingur geti ávallt leitað úrlausnar dómstóla um ákvæði rn. um vistunina.

Í 19. gr. frv. er kveðið á um hámarkstíma sem bráðabirgðavistun getur varað. Vistun lýkur þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf, en eigi síðar en 15 sólarhringum frá því að hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að viðkomandi verði sviptur sjálfræði.

I IV. kafla frv. er fjallað um löggerninga ólögráða manna og er þar ekki um efnisbreytingar að ræða. Um ákvæði er varða lögráðendur, störf þeirra, skyldur og réttindi er fjallað í V. kafla. Breytingar eru gerðar til samræmis við barnalögin nr. 9 frá 15. apríl 1981. Ekki er í frv. þessu gert ráð fyrir neinum mikilvægum breytingum á skipun lögráðamanna eða störfum þeirra.

Herra forseti. Ég læt þessi orð nægja, en legg til að frv. þessu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.