26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

156. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á orkulögum nr. 58 frá 29. apríl 1967, en þetta frv. er flutt til að koma við umbótum á fjárhag allmargra hitaveitna, sem byggðar voru á síðasta áratug, auk þess sem sú breyting, sem hér er lögð til, hvetur til frekari notkunar jarðvarma. Fjárhagserfiðleikar ýmissa hitaveitna stafa að hluta til af erfiðri vatnsöflun með kostnaðarsömum borunum. Frv. það sem hér er flutt felur í sér að lækkun yrði á borkostnaði, auk þess sem bætt er aðstaða til lántöku úr Orkusjóði til öflunar á heitu vatni.

Frv. er flutt til þess að unnt verði að leysa með sem skjótustum hætti úr erfiðleikum vissra hitaveitna, auk þeirra atriða sem fram á við horfa. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að á vegum iðnrn. hefur verið unnið að heildarendurskoðun orkulaga og verða þær breytingar sem hér um ræðir að sjálfsögðu felldar að því frv., sem ég vænti að fram komi hér í þinginu innan skamms. Endurskoðun orkulaga í heild tekur hins vegar óhjákvæmilega nokkurn tíma, en úrlausn þess vanda, sem hér er við að fást, er svo brýn að ekki þótti rétt að bíða þess að heildarendurskoðun orkulaga lyki.

Eins og að var vikið hafa ýmsar hitaveitur átt í erfiðleikum með að afla nægilegs heits vatns. Á undanförnum árum hefur því í auknum mæli verið leitað á hin erfiðari jarðhitasvæði eftir heitu vatni. Samfara því hefur fjárhagsleg áhætta í borunum aukist og tilkostnaður vaxið vegna yfirgripsmeiri rannsóknarvinnu. Breytingar þær á orkulögum, sem hér eru til umr., miða að því að gera boranir ódýrari en nú er með því að afnema söluskatt af borunum og aðflutningsgjöld af efni til borana vegna jarðhitaleitar og jarðhitavinnslu svo og að auka þátttöku Orkusjóðs í fjárhagslegri áhættu við vatnsöflunina.

Varðandi fyrra atriðið, þá felur breytingin í sér leiðréttingu á misræmi sem lengi hefur viðgengist og felst m.a. í því, að Hitaveita Reykjavíkur hefur ekki verið krafin söluskatts af borunum sem eignaraðili að jarðbornum Dofra. Hins vegar hafa aðrar hitaveitur goldið slíkan söluskatt sem er metinn um 12–15% af heildarkostnaði borverka.

Að því er tekur til seinna meginatriðis frv. og aukinnar þátttöku Orkusjóðs í fjárhagslegri áhættu við boranir, þá er þar í fyrsta lagi verið að leiðrétta þann ágalla í gildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir að borun annaðhvort heppnist eða misheppnist og endurgreiðsluskyldu lána úr Orkusjóði er hagað í samræmi við það. Hér er hins vegar gert ráð fyrir heimild til að meta árangur vatnsöflunarinnar og fjárhagslegan ávinning af notkun einstakrar borholu, og verði endurgreiðsluskyldunni hagað í samræmi við slíkt mat. Einnig er horfið frá þeirri viðmiðun við endurgreiðslu lána úr Orkusjóði að viðkomandi jarðhitasvæði hafi þegar verið tekið í notkun. Í staðinn er tekin upp viðmiðun við sérhverja borholu sem lánað er til.

Hér er um að ræða veigamikla lagfæringu á gildandi lögum, þar sem í vissum tilfellum hefur ekki borgað sig að taka í notkun heitt vatn frá borholu vegna þess að þá falla öll lán til borana á viðkomandi jarðhitasvæði í gjalddaga.

Í heild er hér um að ræða mikilvægar breytingar frá gildandi lagaákvæðum, þar sem stefnt er að því að gera boranir ódýrari og minnka áhættu hitaveitna þeim til hagsbóta og til að hvetja enn frekar til jarðvarmanotkunar þar sem það telst þjóðhagslega hagkvæmt. Eftir sem áður er að sjálfsögðu nauðsynlegt að meta hvaða innlendir orkugjafar eru þjóðhagslega hagkvæmastir á hverjum stað. Þessi breyting felur í sér, að enn brýnna er í rauninni að vanda til undirbúnings og rannsókna vegna jarðhitaleitar.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. iðnn.