26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

161. mál, fjölskylduráðgjöf

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var lagt fram sem þmfrv. frv. til l. um fjölskylduráðgjöf. Voru flm. hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Matthías Bjarnason og Níels Á. Lund. Frv. gerði ráð fyrir því að inn í barnalög nr. 9/1981 yrði bætt ákvæði um fjölskylduráðgjöf. Frv., eins og það var þá, gerði í rauninni ráð fyrir því að skotið yrði lagagrundvelli undir þá foreldraráðgjöf sem starfrækt hefur verið frá árinu 1979 á vegum Barnaverndarráðs Íslands. Málið hlaut mjög góðar undirtektir hér í þinginu og var vísað til ríkisstj. með ósk um að hún beitti sér fyrir því að það yrði aftur tekið til meðferðar á nýju þingi. Ástæðan til þess að menn treystu sér ekki til að afgreiða málið þá þegar var sú, að ekki þótti eðlilegt að tengja ákvæði um foreldraráðgjöf við barnalögin nr. 9/1981. Eðlilegra þótti að hér yrði um að ræða sérstakt frv. og að fjölskylduráðgjöfin yrði flutt til félmrn.

Fjölskylduráðgjöfin hefur verið byggð á 60. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 53/1966, en þar segir m.a. að barnaverndarráði sé heimilt að efna til námskeiða og annarrar fræðslu fyrir foreldra og aðra þá er sinna uppeldisstörfum. Eftir gildistöku barnalaga hafa orðið miklar breytingar á skyldum foreldra við börn sín, umgengnisréttur hefur gerbreyst og er ljóst að fjölmargir munu þarfnast aðstoðar við stofnun og slit hjúskapar, svo að þörfum barnanna sé sinnt. Fjölmargir aðrir lagabálkar, sem tryggja skulu réttindi barna til farsæls uppeldis, hafa verið lögfestir á síðustu árum, en hætt er við að margt af því verði pappírsgagnið eitt sé því ekki framfylgt með skipulagðri ráðgjöf.

Nefna má að Samband ísl. sveitarfélaga hefur sett fram hugmyndir á ráðstefnum sínum um slíka ráðgjöf um allt land. Vissulega þjóna félagsmálastofnanir og aðrar opinberar þjónustustofnanir hluta af þessu starfi, en hér er oft um að ræða mál sem aðstandendum sýnist ekki vera á því stigi, að ástæða sé til að leita aðstoðar félagsmálastofnana eða sveitarstjórnarskrifstofa að svo komnu máli. En óhjákvæmilega hlýtur foreldraráðgjöf af þessu tagi að starfa í nánum tengslum við þessar stofnanir þegar þess gerist þörf. Hér er því á engan hátt verið að taka verkefni frá öðrum stofnunum, heldur fremur létta af þeim minni háttar málum. Slíka foreldraráðgjöf er að finna á Norðurlöndum og víða í Vestur-Evrópu og hefur hún þótt gefast vel.

Margir þm. hafa þegar flutt tillögur í þessa veru eins og ég gat um áðan. Auk þeirrar tillögu sem flutt var á síðasta þingi vil ég nefna till. til þál. frá hv. þm. Haraldi Ólafssyni og Alexander Stefánssyni um stefnumörkun í fjölskylduvernd. Í þeirri tillögu var lögð áhersla á gildi fjölskyldunnar sem stofnunar í þjóðfélaginu og bent á leiðir til að tryggja öryggi barna og fjölskyldna þeirra.

Á 100. löggjafarþingi fluttu þm. Alþfl. till. til þál. um skipun samstarfsnefndar sem fjalli sérstaklega um málefni barna.

Herra forseti. Eins og þjóðfélagsháttum okkar er nú komið er mjög brýnt að foreldrar eigi kost á því að leita sér einhverrar ráðgjafar sérfróðra aðila á ýmsum stigum vegna uppeldis barnanna. Ég er sannfærður um að starfsemi af því tagi sem hér er gerð till. um er mikilvæg, því að hún getur komið í veg fyrir félagsleg vandamál sem eru miklu alvarlegri og kostnaðarsamari fyrir þjóðfélagið en starfræksla þeirrar fjölskylduráðgjafar sem hér er verið að gera till. um. Ég hef látið kanna, eins og skylt er samkv. lögum, hvað starfsemi þessi mundi kosta á ári til viðbótar við það sem þegar er vegna þeirrar foreldraráðgjafar sem starfrækt er á vegum Barnaverndarráðs Íslands. Hefur komið fram í mati fjárlaga- og hagsýslustofnunar að kostnaður við starfrækslu þessarar fjölskylduráðgjafar yrði ekki mikið umfram 1/2 millj. kr. — miðað við þann starfsmannafjölda, þ.e. tvær stöður, sem frv. gerir ráð fyrir — 1/2 millj. kr. til viðbótar við það sem þegar er um að ræða í þessu efni.

Herra forseti. Ég leyfi mér að vænta þess að hv. félmn. afgreiði þetta mál fljótt og vel því að um það á að vera góð samstaða. Ég vænti þess, þó að þingið verði kannske styttra núna en venjulega, að það verði afgreitt sem lög á þessu þingi. Ég sé a.m.k. ekkert sem mælir á móti því.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.