27.01.1983
Sameinað þing: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

91. mál, hvalveiðibann

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt með tilliti til þess sem ákveðið hefur verið um fundahöld hér í dag. Engu að síður tel ég þó ástæðu til að gera grein fyrir þessari till. minni í allnokkru máli, en hins vegar get ég vissulega stytt mál mitt nokkuð vegna þess að hæstv. sjútvrh. hefur afhent þm. þrjár mjög greinargóðar skýrslur, sem voru afhentar í gær og mönnum hefur væntanlega gefist tækifæri til að kynna sér, þar sem mjög ítarlega er fjallað um þetta mál. Af þeim ástæðum get ég nokkuð stytt mál mitt. Ennfremur er þess að geta, að allnokkuð hefur þetta mál borið á góma í ýmsum fjölmiðlum að undanförnu og verið gerð þar grein fyrir rökum með og móti.

Till. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 93 er stutt. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að mótmæla nú þegar samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um algert bann við hvalveiðum frá og með árinu 1986.“

S.l. sumar samþykkti hið svonefnda Alþjóðahvalveiðiráð að algert bann við hvalveiðum skuli taka gildi frá og með árinu 1986. Nokkrar þjóðir, sem þetta bann snertir beint, hafa þegar komið mótmælum á framfæri við ráðið. Það hafa Íslendingar ekki gert enn sem komið er. Flm. þessarar till. telur að ríkisstj. eigi nú þegar að koma mótmælum á framfæri við ráðið. Því er þessi till. flutt. Ef mótmælum Íslendinga er ekki komið á framfæri fyrir 2. febr. n.k. mun svo til litið sem Íslendingar hafi samþykkt þetta bann, en mótmæli Íslendingar banninu hins vegar eru þeir óbundnir af þessari samþykkt ráðsins.

Um það má ræða langt mál hverja þýðingu hvalveiðar hafa fyrir þjóðarbúskap Íslendinga. Kannske er þess fyrst að geta, að þetta er sennilega eða því sem næst sú eina grein sjávarútvegs sem aldrei hefur notið nokkurra ríkisstyrkja. Í öðru lagi eru þetta þær veiðar á hafinu sem frá upphafi vega hefur verið stjórnað eða síðan hvalveiðar hófust hér að nýju 1947.

Í þeim gögnum sem þm. hafa fengið er gerð ítarleg grein fyrir atvinnulegri þýðingu hvalveiðanna, hversu margar íslenskar fjölskyldur eiga sitt undir því að þessari starfsemi verði haldið áfram og þá líka hve okkar þjóðarbú á mikið undir því að þessi starfsemi leggist ekki niður.

Það hafa komið fram margar og ítarlegar tölur um efnahagslegt mikilvægi hvalveiða. Hlutdeild hvalafurða Hvals hf. í útflutningi sjávarafurða hefur á undanförnum 10 árum numið að meðaltali 1.37%, 1981 1.5%. Þó að útlendingum þyki þetta kannske ekki háar prósentutölur hafa þær vissulega mikla og ég vil segja afgerandi þýðingu í okkar þjóðarbúskap, auk þess sem um það er að ræða hér að nýta til manneldis mikilvæga auðlind.

Við hvalveiðar og hvalvinnslu hafa starfað hvert sumar um 230 manns. Það hafa verið um 100 í hvalstöðinni í Hvalfirði. Þetta er auðvitað ekki lítill hópur. Þá eru ótaldir þeir sem hafa óbeint atvinnu eða framfæri af þessari atvinnugrein. Stækkar þessi hópur verulega séu þeir með taldir.

Nú er það svo, að svonefnt Alþjóðahvalveiðiráð er upphaflega myndað af þjóðum sem stunduðu hvalveiðar. Á nokkrum s.l. árum hafa orðið breytingar á. Ýmsar smáþjóðir, sem engra hagsmuna hafa að gæta, hafa komið þar inn — að því er virðist til þess eins að hafa áhrif í þá átt að beita sér fyrir stöðvun hvalveiða. Það er auðvitað ekki í samræmi við reglur og tilgang hins atþjóðlega hvalveiðiráðs, en engu að síður hefur þetta gerst með þessum hætti. Þar hefur sem sagt orðið þróun sem við ekki sáum fyrir — þróun sem auðvitað verður að teljast mjög óæskileg. Það er augljóst að sú breyting, sem orðið hefur á viðhorfum innan þessa ráðs, þar sem sjónarmið skynsamlegrar nýtingar hafa vikið fyrir tilfinningalegum rökum, veitir Alþjóðahvatveiðiráðinu ekkert umboð til að taka ákvarðanir á grundvelli sem byggist á tilfinningalegum rökum.

Ég minntist á það hér áðan, að þessar veiðar hafa verið stundaðar á vegum Hvals hf. í Hvalfirði í 35 ár. Alla tíð hafa þessar veiðar verið stundaðar undir vísindalegu eftirliti og í mjög vaxandi mæli hin síðari árin og fyrirtækið, sem rekur þessa útgerð, hefur látið drjúgt fjármagn af hendi rakna til að þessar rannsóknir væru framkvæmanlegar. Það er hygg ég alveg rétt, sem bent hefur verið á, að ef hvalveiðar verða alveg bannaðar leiðir það af sjálfu að mjög mun draga úr öllum rannsóknum á hvatastofninum, vegna þess að þá er ekki sá hvati fyrir hendi sem áður var og er, meðan veiðar eru leyfðar, til þess að fylgjast með ástandi stofnanna og hvað þar er að gerast.

Auðvitað hafa ýmsir aðilar, sem þetta mál snertir, látið það til sín taka og gert um það ályktanir. Aðalfundur samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, sem haldinn var í Munaðarnesi í byrjun nóv., gerði samþykkt sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, haldinn í Munaðarnesi 5.–6. nóv. 1982, skorar á ríkisstj. að mótmæta samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um algert hvalveiðibann frá og með árinu 1986. Fundurinn bendir á að hér er um mikið hagsmunamál að ræða, ekki aðeins fyrir byggðir Vesturlands, heldur þjóðarbúið í heild, enda eru hvalafurðir 1.3% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þá minnir fundurinn á að Hvalveiðistöðin í Hvalfirði hefur verið rekin í 35 ár með góðri og skynsamlegri stjórnun veiðanna og undir vísindalegu eftirliti. Ósannað er, að hvalastofninn sé að ganga til þurrðar eða að honum sé ógnað með ofveiði.“

Ennfremur hefur t.d. hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps gert 8. ágúst s.l. ályktun, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps skorar á ríkisstj. að mótmæla samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiðum frá og með árinu 1986. Hreppsnefnd telur að þjóðir, sem engra hagsmuna eiga að gæta, eigi ekki að hafa ákvörðunarvald um það, hvernig Íslendingar nýta auðlindir sínar. Hreppsnefndin bendir á að hér er um gífurlega hagsmuni að ræða, ekki aðeins fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp, heldur einnig fyrir nærliggjandi sveitarfélög og þjóðarbúið í heild, enda eru hvatafurðir 1.3% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þá minnir hreppsnefndin á að Hvalveiðistöðin í Hvalfirði hefur verið rekin í 35 ár og ekkert bendir til að hvalastofninn sé að ganga til þurrðar eða að honum sé ógnað með ofveiði.“

Fleiri aðilar hafa gert ályktanir sem ganga í svipaða átt.

Nú er það til að taka, svo að allrar sanngirni sé gætt, að ýmsir aðilar hafa líka ályktað á aðra lund, og þá fyrst og fremst kannske þau samtök sem standa að sölu á íslenskum fiski erlendis, sem óttast hótanir erlendra aðila.

Við skulum líka hafa það í huga, þegar við fjöllum um þetta mál, að þessar hvatveiðar eru alfarið stundaðar á íslensku yfirráðasvæði, þ.e. innan 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands, og það er því okkar mál hvað gerist á þeim hafsvæðum varðandi nýtingu fiskstofna og annarra nýtanlegra stofna.

Ég ætla ekki, herra forseti, þó að vissulega væri ástæða til, að rekja hér í löngu máli efni þeirra greinargerða sem okkur þm. hafa borist. Ég tel mikilsverðara að fleiri taki til máls um þetta mál og fleiri raddir heyrist, en fáir þm. setji hér á mjög langar tölur. Eitt vil ég þó undirstrika alveg sérstaklega: Engin vísindaleg rök hníga að því að banna alfarið hvalveiðar við Ísland. Í skýrslu frá Hafrannsóknastofnun til sjútvrh., sem okkur hefur verið afhent, segir með leyfi forseta:

„Allsherjarbann við hvalveiðum getur ekki skoðast sem vísindaleg nauðsyn, eins og nú er háttað veiðum í heiminum, þótt deila megi um réttmæti einstakra veiðikvóta.“

Þar er ennfremur lögð áhersla á mikilvægi rannsókna.

En að lokum vil ég gera hér að sérstöku umtalsefni auglýsingu, sem birtist í, að ég held, öllum íslensku dagblöðunum s.l. þriðjudag. Það verður ekki hjá því komist hér í þessari umr. að gera þessa auglýsingu að sérstöku umtalsefni, en að henni standa allmörg samtök sem kenna sig við náttúruvernd og því um líkt, vernd dýrastofna, — markmið sem að sjálfsögðu eru góðra gjalda verð. Staðreynd er að í þessari auglýsingu, þessu ávarpi til Íslendinga, er farið með fleipur og ósannindi. Skal ég nú rökstyðja það nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi segir hér í 4. mgr.:

„Því miður eru málalok enn ekki ljós. Frestur til að skila mótmælum hefur verið framlengdur til 2. febr. 1983. Það er von okkar, að Íslendingar hunsi ekki vilja yfirgnæfandi meirihluta aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins, en reynsla okkar af framkomu Íslendinga í Alþjóðahvalveiðiráðinu kennir okkur að vera við öllu búin. Við leyfum okkur að nefna þrjú dæmi.“

Íslendingar, fullyrði ég, hafa ævinlega komið fram af fullri ábyrgð og byggt afstöðu sína í Alþjóðahvalveiðiráðinu á vísindalegum staðreyndum og mikilvægi hvalveiða fyrir þjóðarbúskap Íslendinga. Við byggjum á auðlindum hafsins umhverfis landið og getum ekki leyft okkur annað en lúta þar vísindalegum rökum. Þetta er því rangt. — Og hér koma svo þessi dæmi:

„Íslendingar hafa margoft haft ráðleggingar vísindamanna að engu, farið fram á háa kvóta og hvað eftir annað veitt Japönum, Sovétmönnum og öðrum hvalveiðiþjóðum stuðning í viðleitni þeirra til að fá háa aflakvóta af hvalstofnum.“

Það eru ósannindi að við höfum í þessu tilliti haft ráðleggingar vísindamannanna að engu. — Síðar segir í þessari sömu mgr.:

„Íslendingar hafa veitt slíkan stuðning í tilvikum, þar sem gögn sýndu að hvalastofnar minnkuðu geigvænlega og væru jafnvel í útrýmingarhættu.“

Þetta kannast fulltrúar Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu hvergi við. Þetta er fleipur eitt og fordómar. — Síðar segir hér í fjórða lagi:

„Tekið er fram, að mótmæli Íslendingar ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins munu þessi samtök taka þátt í mótmælaaðgerðum, og margir hyggjast jafnvel hafa í frammi áróður gegn íslenskum fiskafurðum.“

Hér er okkur beinlínis hótað. Því er hótað að vega að afkomumöguleikum íslensku þjóðarinnar.

Í fimmta lagi segir hér, með leyfi forseta:

„Við hörmum að álit meirihluta þjóða heims, sem óskar þess að hvalveiðum verði hætt, skuli hvað eftir annað virt að vettugi.“

Meirihluti þjóða heims er líklega þessi fáu ríki innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þau munu vera 38 talsins, ef ég man rétt. Innan Sameinuðu þjóðanna eru 157 ríki. Þetta er líka fleipur. Hér er ekki byggt á staðreyndum.

Í sjötta lagi, og það er kannski það alvarlegasta er vitnað til Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og raunar fleiri stofnana: „Allt eru þetta virtar alþjóðastofnanir með mikla þekkingu í þessum efnum. Sameiginlegar ráðleggingar þeirra til ríkisstjórna heimsins voru að nauðsynlegt væri að leggja niður hvalveiðar um óákveðinn tíma vegna verndunarsjónarmiða“. Þetta er sömuleiðis fleipur, fordómar og alrangt.

Á fundi hvalveiðiráðsins í sumar lagði fulltrúi FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, fram yfirlýsingu í upphafi fundar. Ég get sagt það strax að sú yfirlýsing vakti enga kátínu hjá þeim sem berjast fyrir banni við hvalveiðum. Fulltrúi FAO segir hér, með leyfi forseta, og ég les íslenska þýðingu:

„Einnig getur hvalveiðum í atvinnuskyni verið hætta búin vegna stjórnunaraðgerða, sem eru of takmarkandi. Það dæmi sem lengst gengur er bann við öllum hvalveiðum.“ — Síðan segir hér í íslensku þýðingunni: „Þetta er algerlega óvalin ráðstöfun.“ Þetta er kannske ekki alveg rétt þýðing. Á ensku segir: „This is an unselective measure“, sem þýðir að þetta gangi jafnt yfir allt, þarna sé ekki gert upp á milli tegunda. — Síðan segir fulltrúi FAO: „Ekki virðist réttlætanlegt að banna hvalveiðar um víða veröld með tilliti til mismunandi ástands hinna ýmsu hvalastofna og þeirrar staðreyndar að nær allar hvalategundir og stofnar, sem hafa orðið fyrir alvarlegri fækkun, njóta nú þegar algerrar verndar. Hægt er að réttlæta að hætta alveg við hvalveiðar á fagurfræðilegum eða siðferðilegum grundvelli, en það virðist utan verkahrings ráðsins.“

Og hver er svo niðurstaða fulltrúa FAO á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins? Hann segir:

„Svo fremi hvalveiðar verði í framtíðinni stundaðar samkv. góðri vísindalegri þekkingu og tekið sé tillit til áhrifa á ljósátu, makríl, fisk og aðrar skyldar tegundir, sér Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna fram á tímabil þegar mögulegt kann að reynast að auka heimilaðan afla og e.t.v. er þess ekki langt að bíða. Kynni þá að vera rýmilegt að dæma um ágæti aðgerða ráðsins á grundvelli aukningar þess afla sem veiddur er.“

Þetta er alveg ótvírætt. Þessi- ja, ég vil segja hingað til virtu samtök, náttúruverndarsamtök, leyfa sér því að fara rangt með staðreyndir, fara með fleipur og fara á svig við sannleikann.

Ég skal geta þess í sjötta og síðasta lagi varðandi þessa auglýsingu, að hér segir:

„Loks skal þess getið, að á síðasta fundi Norðurlandaráðs lýstu Danir yfir áhyggjum sínum vegna afstöðu Íslendinga og Norðmanna í hvalveiðimálum.“

Enn er þarna farið á svig. Einn danskur þm., að svo miklu leyti sem ég man rétt, gerði þessi mál að umtalsefni, frú Margrethe Auken, og gerði það mjög hressilega. Henni var svarað, og það gerðu hv. þm. Stefán Jónsson og hv. þm. Páll Pétursson. Þeir kváðu hennar andmæli í kútinn. Okkur hafa borist fregnir af því, sem eigum sæti í Norðurlandaráði, að þessi sami þm. muni enn hafa uppi svipuð mótmæli á næsta fundi. Það voru ekki Danir sem voru að mótmæla. Það var einn danskur þm. Ég þykist þess fullviss að henni muni enn á ný svarað þeim rökum sem duga, eins og gert var í Helsinki í fyrra.

Ég tel mig hafa fært sönnur á hvað varðar þessi samtök, sem hér um ræðir, að í þeirra auglýsingu, svokölluðu ávarpi til Íslendinga, er mjög farið á svig við sannleikann. Þar er hallað réttu máli og þar er raunar beinlínis sagt ósatt.

Herra forseti. Ég held að það sé ekki þörf að hafa um þetta öllu fleiri orð. Að endingu vil ég aðeins segja þetta: Við, sem eigum allt okkar undir sjávarafla, eigum að beygja okkur fyrir vísindalegum rökum. Við eigum.ekki að beygja okkur fyrir hótunum, en það er það sem hér er um að tefla.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til utanrmn. og í ljósi þess hve skammur tími er hér til stefnu, ef ríkisstj. vill að í ljós komi vilji Alþingis varðandi það hvort mótmæla skuli eða mótmæla ekki, væri afar brýnt ef utanrmn. gæti lokið umfjöllun sinni um þetta mál fyrir n.k. þriðjudag, sem er 1. febr. Mér þætti það ákaflega miklu skipta ef nefndin gæti starfað að þessu máli með þeim hætti að unnt væri með góðu samkomulagi að taka það fyrir hér aftur á fundi sameinaðs þings strax eftir helgina.