27.01.1983
Sameinað þing: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

91. mál, hvalveiðibann

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær margfróðlegu upplýsingar, sem fram hafa komið, ekki síst í máli hv. flm. þeirrar till. sem hér er til umr. og í máli hæstv. sjútvrh. Það þykir e.t.v. einhverjum hv. alþm. skrýtið að aðrir hv. alþm. Vesturl. en hv. þm. Eiður Guðnason skuli ekki standa að flutningi þeirrar till. sem hér er til umfjöllunar.

Ég vil segja það fyrst, að ég hygg að meginskýringin sé á þann veg að fleiri en færri af hv. þm. hafi viljað doka við og sjá hverju fram yndi í meðferð málsins á vegum stjórnvalda. Ég tel þó rétt að skýra frá því, að vegna einhverra ófyrirséðra atvika fórumst við og flm. till. á mis í þann mund er till. kom fram. Ég skal játa að ég hafði á liðnu hausti hugleitt flutning slíkrar till., en hvarf frá því ráði m.a. með tilliti til þess, að það upplýstist að málið var til rækilegrar meðferðar á vegum stjórnvalda.

Hins vegar vil ég taka það fram að hv. flm. till. kom til mín síðar og bauð mér að prenta till. upp. Ég taldi gegn hvalveiðibanni. 1582 það hins vegar of mikla sýndarmennsku í störfum hér á Alþingi og úr því varð ekki.

Ég vil ekki lengja þessa umr. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að ítreka þá miklu efnahagslegu þýðingu sem starfsemi Hvals hf. hefur haft á undanförnum fjölmörgum árum, ekki síst fyrir þann landshluta sem mér stendur að sjálfsögðu næst og hv. flm. og fleirum, Vesturland, einkum þó suðurhluta þess ágæta kjördæmis. En eins og fram hefur komið hefur starfsemi fyrirtækisins haft allverulega þýðingu fyrir þjóðarbúskap okkar Íslendinga í heild. Ég ætla mér ekki að fara að rekja það, það hefur rækilega verið gert. Hins vegar vil ég taka það fram að um slíkt mál sem hér er til umfjöllunar er nauðsynlegt fremur en hitt að samstaða ríki, ég vil ítreka það. Ég tel mjög hættulegt ef svo færi að málinu yrði þyrlað upp í pólitísku moldviðri. Ég hygg að hv. alþm. hafi þegar ráðið það af mínum málflutningi að ég er meðmæltur því að við mótmælum hvalveiðibanninu.

Ég ætla ekki að eyða löngu máli í að færa frekari rök fyrir skoðun minni. Ég get vitnað í þau ummæli sem hér hafa komið fram nú þegar í ræðum manna. Hins vegar vil ég ítreka það, að slíkum mótmælum fylgi óyggjandi yfirlýsing stjórnvalda þess efnis, að rannsóknir á hvalastofninum verði stórefldar. Ég hygg að slík yfirlýsing mundi miklu fremur en hitt milda þá andstöðu sem hugsanlega kynni að leiða af slíkum mótmælum okkar. Hins vegar megum við ekki gleyma því, eins og raunar hér hefur verið vikið að, að mótmæli er hægt að draga til baka. Ég vil trúa því að þeir aðilar sem e.t.v., ef til skarar létu skríða, væru okkur skeinuhættastir lúti rökum í þessu máli. Það hefur verið bent á í þeim skýrslum sem fram hafa verið lagðar, að vísindalegar kannanir eru ekki nægjanlegar fyrir hendi til að sanna að hvalastofninn, að svo miklu leyti sem við stundum þessar veiðar, sé í hættu.

Um efnahagslegu þýðinguna þarf ekki að deila. Hún er augljós. Í þeirri skýrslu sem tíundar efnahagslega þýðingu fyrirtækisins Hvals er gerður samanburður við bandarískt efnahagslíf og þá sjá menn háar tölur. En þýðing fyrirtækisins er og verður vonandi óumdeild.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil fagna því að afstaða verður tekin í ríkisstj. eða á vegum hennar. Að sjálfsögðu hefur þess verið beðið. Ég geri mér grein fyrir því, að þessi mál hafa þurft svo rækilegrar athugunar við að e.t.v. var ekki eðlilegt að taka slíka ákvörðun fyrr en nú, að mjög vandlega athuguðu máli. Að síðustu legg ég áherslu á það, að slíku banni fylgi yfirlýsing þess efnis að við munum stórauka rannsóknir á hvalastofninum.