27.01.1983
Sameinað þing: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

91. mál, hvalveiðibann

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég tala hér hvorki sem náttúruverndarmaður eða hvalfriðunarsinni og ég hef alla tíð fylgst með hvalveiðum Íslendinga og rekstri Hvals hf. og tel að það sé mjög mikilsvert fyrirtæki. Hvalveiðar Íslendinga hafa alla tíð verið reiknar af mikilli skynsemi. Satt að segja hef ég verið fremur óánægður með að við skulum ekki hafa helgað okkur stærri hlut í hrefnuveiðum í Norður-Atlantshafi en verið hefur frekar en hitt. En ég tel að hér sé ákaflega viðkvæmt mál til umr. og vandmeðfarið.

Það er rétt hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni að þarna verði minni hagsmunir að víkja fyrir hinum ríkari. Ég hræðist það ekki að bandarísk stjórnvöld muni grípa til aðgerða þó að við mótmælum, en við skulum gera okkur grein fyrir að það eru ýmis þau öfl að verki á fiskmörkuðum okkar, og þá ekki síst í Bandaríkjunum sem er býsna erfitt við að glíma.

Ég vil ekki horfa framhjá viðvörunarorðum þeirra manna sem mest og best hafa unnið fisksölumálum Íslendinga í Bandaríkjunum á síðustu áratugum. Þar vil ég fyrst nefna Þorstein Gíslason, sem er forstjóri Coldwater. Ég hef oft átt viðræður við hann um þróun þessara mála á bandaríska markaðnum og ekki síst þegar Greenpeace-samtökin fóru að láta á sér kræla. Hann gerði alltaf lítið úr þessum samtökum og gerði satt að segja grín að þessu fólki, en nú hefur sjónarmið hans breyst æðimikið. Hann segir í bréfi, sem hann skrifar sjútvrh., að þess vegna væri langbest fyrir hagsmuni Íslendinga núna að engin mótmæli kæmu frá þeim um bannið við hvalveiðum.

Ég ætla ekkert að gera lítið úr rökum hvalveiðimanna og talsmanna Hvals hf. Ég skil mjög vel þá baráttu sem þeir nú heyja fyrir sínum hagsmunum og fyrir því fólki sem hjá þeim hefur unnið. Það getur ekki verið sársaukalaust að hafa haft fólk í starfi áratugum saman og þurfa kannske að horfa á að sá atvinnurekstur leggist niður og þetta fólk verði að hætta starfi.

Með þeim pappírum sem við þm. fengum á borð til okkar var bréf frá Hval hf., þar sem sagt er frá leiðangri forstjóra fyrirtækisins til Bandaríkjanna og frá viðræðum hans við ýmsa málsmetandi menn þar. Þar segir hann frá viðræðum sínum við Guðjón B. Ólafsson forstjóra Iceland Seafood Corporation. Sagðist Guðjón fyrir sitt leyti ekki sjá því neitt til fyrirstöðu að Ísland neitaði samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiði frá 1986 til að afsala sér ekki rétti sínum, enda þykir það ekki nauðsynlegt ef hvalveiðum yrði haldið áfram. Mér finnst gæta nokkurs tvískinnungs í þessum ummælum. Við skulum hafa það í huga, að ef við mótmælum verða þau mótmæli kannske tekin aftur, en við skulum gera okkur grein fyrir því, að áhrif mótmælanna verða ekki tekin aftur.

Hann segist hér hafa talað við einn fulltrúa Long John Silver’s og spurst fyrir um hvort Long John Silver’s hafi orðið fyrir mótmælastöðum við veitingahús sín vegna þess að einhver ríki veiði hval. Hann segir að þessi maður hafi sagt að svo væri ekki. En aftur á móti segir Þorsteinn Gíslason í bréfum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna frá því að forráðamenn Long John Silver’s séu orðnir æðiþreyttir á því núna að standa frammi fyrir þessum mótmælaaðgerðum. Síðan segir hann hérna: „Kom þetta mér mjög á óvart, eins og nærri má geta, og mér er ómögulegt að geta mér þess til hvað hér hangir á spýtunni.“

Mér sýnist að þarna sé ákveðin ófyrirleitni á ferðinni og manni gerðar upp einhverjar annarlegar skoðanir, annarleg sjónarmið, í þessum efnum. Það finnst mér illa farið. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur séð ástæðu til þess að samþykkja mótmæli gegn því að hvalveiðibanninu verði mótmælt. Við skulum ekki heldur gleyma því, að í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna sitja 18 menn sem koma víðs vegar að af landinu og gæta hagsmuna bæði hraðfrystihúsa og fiskvinnslufólks um allt land.

Auðvitað gera menn mikið úr því að hvalafurðirnar séu stór hluti í útflutningi okkar Íslendinga, en við skulum ekki gleyma því að bandaríski markaðurinn fyrir þorsk hefur skilað okkur um 60% af útflutningsverðmætum okkar í frystum fiski.

Ég hef hérna með mér dreifibréf frá einum af þessum samtökum sem heita The Animal Welfare Institute. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði áðan að við ættum ekki að taka tillit til einhverra þeirra manna sem kæmu til með að neita að kaupa fisk í Bandaríkjunum, en við skulum ekki gleyma því, að þetta eru ekki einhverjir menn, heldur gífurlega öflug samtök sem hafa ómældum peningum yfir að ráða og geta beitt hverjum þeim áróðursbrögðum sem þeim þóknast. Þau hafa dreift um Bandaríkin dreifibréfum og mótmætabréfum við því að bandaríska þjóðin eigi viðskipti við þær þjóðir sem hvalveiðar stunda. Við skulum ekki heldur gleyma því, að innan þessara samtaka, sem þarna er um að ræða, eru 2/3 af öldungadeildarþingmönnum Bandaríkjanna. Þeir eru hvorki meira né minna en 66 öldungadeildarþingmennirnir sem styðja þessi sjónarmið og eru í þessum samtökum. Svo er t.d. í þessum dreifibréfum, sem send eru um öll Bandaríkin, mynd af hval þar sem fánar Íslands, Noregs, Japans og Sovétríkjanna blakta. Þetta er blæðandi hvalur og er nokkuð áberandi. Hér eru alls konar upphrópanir og skorað á fólk að ganga framhjá vörum frá þessum þjóðum, sem hvalveiðar stunda, og með því láta í ljós mótmæli sín.

Með leyfi forseta segir Þorsteinn Gíslason í bréfi sem hann ritar um þetta mál: „Samtökin sem vilja láta hætta hvalveiðum hafa beitt sér gagnvart stærstu viðskiptavinum okkar, Long John Silver’s, og séð til þess að fjöldi manna hefur skrifað þeim hvatningarbréf um að hætta að nota íslenskan fisk, ef Ísland muni þrjóskast við að hætta veiðum hvala. Einnig komu fram áróðursmenn, sem gengu með skilti á sér fyrir framan veitingahús Long John Silver’s. Forstöðumenn fyrirtækisins sögðu mér strax að þeir mundu hafa bæði lítinn vilja og litla getu til að berjast við svona þrýstihópa og vonuðust til þess að ráðstafanir Íslendinga yrðu slíkar, að ekki þyrfti að taka tillit til þessa máls við fiskinnkaup almennt.“

Ég vona að ráðstafanir Íslendinga verði þær, að bandarískur almenningur hafi ekki ástæðu til að ganga framhjá íslenskum vörum á bandarískum markaði. Við skulum gera okkur grein fyrir því, hverjar afleiðingar það getur haft ef við mótmælum hvalveiðibanninu. Það getur orðið samdráttur í sölu á íslenskum fiski í Bandaríkjunum eða jafnvel eitthvað annað verra. Ég skora á ykkur, hv. þm., í nafni þeirra þúsunda togarasjómanna sem stunda þorskveiðar hér við Ísland, í nafni þeirra þúsunda bátasjómanna sem stunda veiðar hér við Ísland, í nafni alls þess verkafólks sem á hagsmuna að gæta í frystiiðnaðinum og þeirra tuga fyrirtækja og byggðarlaga sem allt sitt eiga undir þorskveiðum við Ísland að fella þessa till., og ég mun sjálfur greiða atkv. gegn henni.