28.01.1983
Neðri deild: 30. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við þeim tilmælum sem fram hafa komið af hálfu forseta um stutta ræðu hér. Ég tala að vísu ekki nú sem frsm. nefndarálits. Það liggur ekki fyrir, það hefur ekki verið ritað. Ég þykist þekkja nokkuð til sögu þingsins í þau 24 ár tæp sem ég hef setið hér og hafa nokkra reynslu og þekkingu á gangi þingmála. Þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð eru einsdæmi að mínum dómi. Ég kem hér ekki upp til að tala fyrir nál. heldur til að gera grein fyrir hvers vegna nál. er ekki fram komið.

Þegar það mál sem hér er til umræðu var til 2. umr. í hv. Ed. kom fram að einn þáttur þess, þ.e. hvernig að láglaunabótunum hafði verið staðið, sætti mikilli gagnrýni. Menn vildu gjarnan fá nánari skýringar á hvað þar hafði verið að gerast og hvernig áformað væri að standa að þeim málum þegar fram kæmi á árið 1983.

Fjölmargir menn, sem fjallað höfðu um þessi mál með einum eða öðrum hætti, höfðu ritað í blöðin. Ég er hér með heilan bunka af úrklippum þar sem fram kemur gagnrýni á láglaunabæturnar. Sjálfur hæstv. fjmrh. segir að ekkert komi á óvart þó að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Þegar á þetta er bent varð um það samkomulag í Ed. að þetta skyldi athugað sameiginlega af nefndum beggja deilda þegar málið væri til meðferðar hér í hv. Nd.

Þegar 2. umr. fór fram í hv. Ed. flutti hæstv. sjútvrh. brtt. við frv. Hann flutti hana að vísu ekki hér á Alþingi. Hann flutti hana í sjónvarpi, staddur suður í Grindavík.

Þegar umr. fór fram og kallað var eftir brtt. hæstv. sjútvrh. var því lýst yfir að hann mundi gera grein fyrir henni þegar málið yrði hér til meðferðar í Nd. Að vísu gerði hæstv. ráðh. grein fyrir brtt. Hún var ekki nákvæmlega sú sama sem hann hafði gert grein fyrir í sjónvarpinu, henni hafði þá verið breytt, en hún hafði þann formála að ríkisstj. hefði á fundi sínum ákveðið að ráðstafa gengismun eftir því sem hún hafði ákvarðað og þessi brtt. skyldi verða sú lagastoð sem sú ákvörðun skyldi síðan framkvæmd eftir. Eins og ég gat um fékkst till. ekki rædd í Ed., en samkomulag varð um það að allar upplýsingar skyldu fást um málið þegar um frv. yrði fjallað hér í hv. Nd.

Þegar nefndarstörf hófust gerðu menn grein fyrir hvaða atriði um væri að ræða og menn vildu spyrja um. Leitað var m.a. til þeirra aðila sem fjallað höfðu um láglaunabæturnar. Það stóð ekki á formanni fjh.- og viðskn. að ná til þeirra sem um þær höfðu fjallað. Það stóð ekki heldur á þeim mönnum sem höfðu sem starfsmenn fjallað um málið, t.d. í fjmrn., að koma til fundar. Hins vegar gátu þeir ekki komið með neinar upplýsingar eða skilaboð frá hæstv. fjmrh. um það hvernig hann hygðist haga þessum málum í framtíðinni.

Við hlýddum hér áðan á framsögu hv. 3. þm. Vestf. þar sem hann gerði grein fyrir ýmsu sem fram kom á þessum fundum hjá fulltrúa Alþýðusambands Íslands um gang mála þar. Út í það fer ég ekki hér því að ég er ekki að ræða efnislega um málið. Það kom þá líka fram í nefndinni að mjög vafasamt væri að lagastoð væri t.d. fyrir greiðslu láglaunabóta á árinu 1983. Í framhaldi af því sem Sigurður Líndal prófessor hafði sagt í sambandi við ákvæði brbl. um 50 millj. kr. greiðslur til láglaunabóta á árinu 1982 spurðu menn: Er lagastoð fyrir því að greiða láglaunabætur á árinu 1983? Við vildum gjarnan fá um þetta upplýsingar.

Ég vildi gjarnan fá tækifæri til að ræða við þá menn sem nefndin hafði áður leitað til um vafasöm ákvæði frv. er hafði verið breytt í Ed. Ég fékk fyrst tækifæri til þess í morgun og 7 mín. fyrir kl. 12 í dag fékk ég grg. frá hæstv. fjmrh. þar sem hann telur að full lagastoð sé fyrir því að greiða láglaunabætur á árinu 1983 og vitnar þar til liðar á fjárlögum sem heitir niðurgreiðslur á vöruverði, sbr. lið 12 201 í 4. gr. fjárlaga fyrir árið 1983. Hér er ekki neinu saman að jafna. Ég vitna aðeins til laganna um ríkisendurskoðun þar sem stendur: „Við endurskoðun ber að gæta þess að greiðslur allar séu í samræmi við gildandi lög og reglur og þar að lútandi samninga og að engin útgjöld eigi sér stað og séu innt af hendi án lagaheimildar.“ Við vildum fá upplýsingar um þetta atriði. Við gátum ekki fengið þær og viðræðum mínum við lagaprófessor í morgun lauk ekki með ákveðinni niðurstöðu svo að við höfum ekki fengið þær útskýringar sem við teljum okkur þurfa á þessu máli.

Ég bendi á að hæstv. sjútvrh. breytir till. sinni og kemur hér í deildina með tillögur um ráðstöfun á gengismun og tilkynnir þá að ríkisstj. hafi ákveðið að veita þeim fjármunum til Byggðasjóðs til þess að hann geti leyst úr vanda ákveðinna fyrirtækja. Hér er farið inn á algerlega nýjar brautir með ráðstöfun gengismunar. Það var staðfest í fjh.- og viðskn. af þeim mönnum sem gerst þekkja og lengst hafa fjallað um þessi mál á undanförnum áratugum.

Í morgun ræddi ég um þessi mál við aðila í lagadeild Háskólans. Að sjálfsögðu voru menn ekki reiðubúnir að tjá sig með svo stuttum fyrirvara. Nefndarmenn óskuðu eftir upplýsingum frá Framkvæmdastofnun um ýmislegt varðandi hlutaðeigandi fyrirtæki. Kom starfsmaður hennar á fund nefndarinnar. Þau gögn sum hver bárust seint í gærkveldi, önnur bárust nú rétt fyrir hádegi og við höfum ekki enn — ég undirstrika: við höfum ekki enn fengið ákveðnar upplýsingar sem við höfum beðið um.

Þegar formaður fjh.- og viðskn., sem gerði sitt til þess að við fengjum allar umbeðnar upplýsingar og það eins fljótt og hægt var, gerði tillögu um að nefndin lyki störfum í gær kl. 10.30 gerði ég honum grein fyrir því þar, að við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. værum ekki reiðubúnir til þess að ganga frá nál. okkar fyrr en við værum búnir að fá þær upplýsingar sem við óskuðum eftir og hefðum fengið tækifæri til að ræða málið aftur á þingflokksfundi sjálfstæðismanna sem þá hafði verið ákveðinn kl. 3 í dag. Við höfum ekki fengið þær upplýsingar, okkur hefur ekki tekist að fá niðurstöður um atriði sem vefengd voru á fundinum. Þingflokksfundurinn hefur enn ekki verið haldinn, enda kl. á mínútunni 3 og einni betur.

Ég vonast til þess að ég hafi gert þingheimi grein fyrir ástæðunni fyrir því að ég er hér ekki að tala fyrir nál. heldur að gera grein fyrir því hvers vegna nál. er ekki komið fram hjá sjálfstæðismönnum.