31.01.1983
Efri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

160. mál, sektarmörk nokkurra laga

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á sektarmörkum nokkurra laga, 160. mál, og fékk til viðræðu við sig skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra dómsmrn. Þetta frv. er raunar flutt í framhaldi af öðru sama efnis, sem flutt var á síðasta þingi undir vor, og þá var breytt sektarákvæðum 52 laga. Með þessu frv. er lagt til að breytt verði sektarákvæðum 74 laga á sama hátt, þ.e. að í stað ákveðinnar krónutölu, sem gjarnan vill úreldast býsna fljótt á þessum miklu verðbólgutímum, komi almenn sektarheimild í samræmi við ákvæði 50. gr. almennra hegningarlaga. Einnig er í 9 greinum þessa frv. lagt til að lagfærð verði ákvæði um dagsektarfjárhæðir.

Ég tel enga ástæðu til, herra forseti, að fara að rekja hér einstakar greinar þessa frv. Allshn. varð sammála um að mæla með samþykkt þess eins og það liggur fyrir á þessu þskj.