27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

28. mál, málefni aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er aðeins einn þáttur þessa máls, sem hér um ræðir, sem ég vil fara nokkrum orðum um, og það er í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra.

Ég vil strax lýsa miklum vonbrigðum mínum yfir þeim ákvörðunum sem teknar voru varðandi úthlutun fjármagns úr Framkvæmdasjóði aldraðra nú í ár. Eins og hv. þm. öllum er kunnugt, er hér lagður sérstakur skattur á landsmenn almennt, en síðan kemur það í ljós að líklega eru tvö kjördæmi í landinu útilokuð frá því að fá nokkra fyrirgreiðslu úr þessum framkvæmdasjóði t.d. á árinu 1982.

Nú er það svo, að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra gerði tillögur á s.l. vori og þær tillögur voru sýndar í fjvn. Fjvn. hefur ekki ákvörðunarvald að því er varðar úthlutun úr þeim sjóði. Þar hefur, að ég best veit, hæstv. ráðh. lokaorðið. En í þeim tillögum, sem stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra gerði að sínum á s.l. vori, var gert ráð fyrir að úthluta allt að 5 ár fram í tímann, frá árinu 1982 til 1986. Á þessu tímabili átti f. d. Vestfjarðakjördæmi ekki að fá einn einasta eyri úr þessum sjóði, þrátt fyrir að Vestfirðingar eins og aðrir voru skattlagðir til sjóðsins. Þessu var mótmælt, ekki bara af mér í fjvn. heldur og öðrum fjvn.- mönnum, að vísu að ég hygg á mismunandi forsendum, en þessari tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs um úthlutun var mótmælt. Það voru tvenns konar rök: Í fyrsta lagi væri um að ræða allt of langan tíma, sem fjármagni væri ráðstafað, og í öðru lagi þótti mönnum misjafnlega litið til hinna ýmsu kjördæma í landinu.

Ég sé að hæstv. ráðh. hefur fallist á það sjónarmið framkvæmdastjórnar aldraðra að synja algjörlega fjárbeiðnum til Vestfjarðarkjördæmis í þessum efnum á árinu 1982. Hvort sú afstaða heldur áfram að vera hin sama t.d. á næsta eða næstu árum á að sjálfsögðu eftir að koma í ljós, en ég harma það mjög að þegar verið er að skattleggja allan almenning í landinu til ákveðins verkefnis skuli einstöku kjördæmi vera neitað um nokkurs konar fyrirgreiðslu að því er varðar uppbyggingu á þessu sviði sem hér um ræðir. Það gengur svo langt, að ráðandi menn í kerfinu leggja til að fyrirgreiðsla sé útilokuð 5 ár fram í tímann.

Það er augljóst, að það vantar mikið fjármagn til þess að standa við bakið á uppbyggingu sem hér um ræðir. Mesta fjármagnið fer til Reykjavíkur, þ.e. í B-álmu Borgarspítalans, og í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga. Það er uppbygging sem þarf að eiga sér stað eins og annað, en slíkt má þó ekki verða með þeim hætti að látið sé svo mikið fjármagn þar af hendi að það verði til þess að svelta heilu kjördæmin svo árum skiptir. Þau þurfa alveg eins og á sama hátt, þó í minna mæli sé, að sinna uppbyggingu fyrir aldraða þjóðfélagsþegna á sínum snærum.

Ég vil nota þetta tækifæri, eins og ég gerði í fjvn., til þess að mótmæla þessum vinnubrögðum, bæði tillögum stjórnar framkvæmdasjóðsins og endanlegum ákvörðunum hæstv. ráðh. í þessum efnum, þar sem hann undanskilur einstök kjördæmi frá því að fá nokkra fjárveitingu eða fyrirgreiðslu úr þessum sjóði, a.m.k. á árinu 1982. Ég vænti þess að bæði stjórn sjóðsins svo og hæstv. ráðh., endist honum lífdagar sem slíkum á næsta ári, sjái til þess að slík reginmistök, sem ég vil orða það, eigi sér ekki stað varðandi úthlutun úr þessum sjóði á næsta ári.