31.01.1983
Efri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

173. mál, umferðarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við frv. það sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir mælti fyrir hér áðan. Einmitt sú staðreynd, hvað hlutfallslega margir aka nú þegar með fullum ljósum og að þeim bifreiðategundum fjölgar þar sem ökuljós kvikna um leið og bifreið er ræst, gerir það að verkum að ökumenn reikna með því í sífellt vaxandi mæli að bifreiðir séu með ljósum og gjalda síður varhug við þeim bílum sem ekki hafa ljósin. Sú staðreynd gerir það að verkum að nú verður æ brýnna að kveðið verði á um slíkt með lögum og gengið verði í að leysa með tæknilegum hætti þetta vandamál, þ.e. gera bifreiðarnar þannig úr garði að ökuljós kvikni um leið og þær eru ræstar.

Ég tek undir mál hv. þm. Eiðs Guðnasonar áðan um nauðsyn þess að hraða hinni margfyrirheitnu endurskoðun á umferðarlöggjöfinni. Vel er mér það kunnugt að þetta er umfangsmikið verk, tekur töluverðan tíma, en ég hlýt að ætla að þessu verki hefði eigi að síður mátt ljúka miklu fyrr en nú virðist raunin á. Ég minni rétt aðeins á það, að við hv. þm. Eiður Guðnason höfum lagt fram frv. um breytingu í einum litlum lið á umferðarlöggjöfinni, vegna þess að þann lið var hægt að taka út úr, lið sem orðið hefur að ásteytingarsteini á milli okkar og frænda okkar á Norðurlöndum, þar sem við einir saman ætlum ekki Norðurlandaþjóðum skýlausan rétt til notkunar á umferðarskírteinum sínum hér heima hjá okkur.

Aðeins þetta svo til áherslu í lokin: Ég vildi gjarnan að sú ákvörðun væri tekin einarðlega af hálfu þeirra sem verkið vinna, hin tæknilegu verk, fyrir hæstv. dómsmrh., að þessari endurskoðun umferðarlaganna, heildarendurskoðun, verði lokið, svo sem hann hefur gefið okkur fyrirheit um nú, á næsta sumri.