01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega ítreka úr þessum ræðustól það, sem ég sagði fyrr við þessa umr., að ég vara mjög við því að hinn almenni taxti til rafhitunar sé greiddur niður með þeim hætti, að þar sem verið er að koma upp nýjum hitaveitum sé rafhitun greidd niður í kostnað hitaveitnanna. Það er alveg ljóst að þessar hitaveitur, sem er ætlað að standa undir sínum kostnaði, hafa flestar reiknað með því að hin rafkyntu hús tækju hitaveituna inn. Aðflutningsæðar þessara hitaveitna eru við það miðaðar og hagkvæmni þeirra verður auðvitað meiri eftir því sem þær fá stærri markað. Niðurgreiðslur á rafhitun á hitaveitusvæði slíkra hitaveitna gera það að verkum að viðkomandi aðilar gerast ekki notendur hitaveitunnar. Í fyrsta lagi verður þá óhagkvæmari rekstur á hitaveitum á staðnum og í öðru lagi auðvitað verulegur þungi á almenningssjóðum til að greiða þessa rafhitun niður. Þarna er hætta á að við séum á villigötum.

Ég vil nota þessar örfáu mínútur, sem ég hef, til þess að fara fáeinum orðum um hið svokallaða álmál enn einu sinni. Ég verð að játa að ég skildi hæstv. iðnrh. engan veginn, þau orð sem hann notaði áðan. Það er ekkert verið að deila um nauðsyn þess að fá orkuverðið hækkað. Það eru allir sammála um það. Það er alveg óþarfi fyrir iðnrh. að vera að vefja um sig fjölmörgum setningum um nauðsyn þess að fá orkuverðið hækkað. Það eru allir sammála um það. Allir vita að það er allt of lágt. Það sem við erum ekki sammála um er aðferð iðnrh. við að fá hækkunina fram.

Ég er alveg sannfærður um að hægt er að koma slíkum samningaviðræðum á. Ég hef setið í álviðræðunefnd í meira en 11/2 ár. Ég er fullviss um að hægt er að koma samningaviðræðunum á. Ég er hins vegar engan veginn fullviss um hvað út úr slíkum samningaviðræðum kemur, það er annað mál. En ég tel að iðnrh. hafi sýnt klaufaskap og stífni með því að koma í veg fyrir að samningaviðræður gætu orðið. Það er enginn vandi að vitna til þeirra bréfaskipta sem fram hafa farið í þessu máli. Það hlýtur öllum að vera ljóst, sem kynna sér þessi bréf, að það er enginn vandi fyrir Íslendinga að hefja samningaviðræður á grunni þeirra. Það er hreinlega boðið upp á að leggja skattamál, þessi eldri deilumál, í gerð. Jafnvel þó að við samþykktum það ekki á Alusuisse heimtingu á að setja þau í gerð samkv. samningi. Það er engu að tapa í sjálfu sér við að setja þessi deilumál um skattana í gerð. Þeir hafa jafnframt boðið upp á samningaviðræður um framtíðarsamskipti, þar sem orkuverð til álversins sé endurskoðað með tilliti til þess sem gerist í Evrópu og Ameríku og samkeppnisaðstöðu ÍSALs. Það er enginn vandi fyrir okkur að ræða nýjan orkusölusamning á þeim grunni. Jafnvel hafa talsmenn Alusuisse látið í það skína, að þeir séu tilbúnir að hækka orkuverðið eitthvað strax, bara í því skyni að sýna fram að að þeir gangi til slíkra samninga með góðum huga. Það er að vísu rétt, að þeir hafa talað um að fá einhverja heimild fyrir stækkun álversins, þó þannig að samningar takist, sem báðir aðilar séu ánægðir með, samningar sem Íslendingar séu ánægðir með. Það lít ég á að séu samningar þess eðlis, að orkuverð og önnur kjör séu með þeim hætti að það sé um að ræða hagkvæmari orkunýtingarkost en Íslendingar eiga kost á annars staðar. Það er þess vegna alveg rétt að að vissu leyti sagði ég mig úr þessari álviðræðunefnd vegna óþolinmæði. Ég hafði þá setið í þessu í meira en 11/2 ár án árangurs. Og það er of löng saga til að rekja hér. En það eru fleiri en ein till., sem fram komu, sem gátu orðið til þess að opna samningaviðræður.

Ég tel að það sé alveg útilokað fyrir okkur að halda þessu máli í þessari blindgötu áfram. Ég tel alveg ljóst að íslenska þjóðin tapar 1 millj. dollara á mánuði meðan þetta mál heldur svona áfram. Ég veit ekki hvernig iðnrh. ætlar að koma þessum einhliða aðgerðum sínum fram. Ég óttast að þetta mál haldi áfram að núlla svona mánuðum saman í stað þess að hafnar séu samningaviðræður, sem er leikur að koma á. Ég fullyrði það. Það er hægt að koma þessum samningaviðræðum á. Það er hægt að fá einhverja byrjunarhækkun á orkuverðinu eingöngu sem tákn um góðan vilja Alusuisse til að endurskoða orkusamninginn. Um það getur enginn á þessu stigi fullyrt, hver lok slíkra samningaviðræðna yrðu, enda er engu að tapa að freista þess að taka slíkar samningaviðræður upp. Telji menn að þær hljóti að enda í einhliða aðgerðum, þá það. Þá er hægt að taka þær upp eftir að slíkar samningaviðræður hafa brostið.

Vandinn er sá, að á þessum tíma höfum við misst af uppsveiflu í áliðnaðinum. Við höfum misst af þeim tíma þegar álverðið var mjög hátt og unnt var að fá endurskoðun á þessum samningi með góðu orkuverði. Nú erum við hins vegar að berjast við þetta mál í lægð, þegar álverð er komið niður fyrir 1000 dollara á tonnið eða það lægsta sem menn hafa eiginlega látið sér detta í hug að gæti orðið. Við slíkar aðstæður er mjög erfitt að fást við málið, það sjá allir. Auðvitað vona menn að þessi markaður muni lagast. En ég óttast að jafnvel einhliða aðgerðir muni færa okkur miklu minna við slíkar aðstæður en þær gerðu ef markaðurinn er í góðu lagi.

Þess vegna ítreka ég að það er engin deila um að við þurfum að fá orkuverðið hækkað. Það eru allir sammála um það. Deilan stendur um hvernig á að þessu að standa. Ég fullyrði enn á ný úr þessum ræðustól að unnt er að koma þessum samningaviðræðum á og unnt er að fá einhverja byrjunarhækkun áður en samningaviðræður hefjast, sem Alusuisse mundi fallast á eingöngu til að sýna góðan vilja í þeim samningaviðræðum sem væri gengið til. Og ég fullyrði að það er eingöngu fyrir þvermóðsku iðnrh. að slíkum samningaviðræðum er ekki komið á.