27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

28. mál, málefni aldraðra

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram á ný, því að hér er um þýðingarmikið mál að ræða sem við eigum að sameinast um að koma til framkvæmda.

Þegar frv. var hér til l. umr. á síðasta þingi gerði ég grein fyrir afstöðu minni til málsins og enn fremur að verulegu leyti afstöðu þingflokks Framsfl., sem styður þetta frv. og mun standa að samþykkt þess. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði á þinginu s.l. vor. Ég vísa til þskj. En ég vil þó taka aðeins þátt í þeim umr. sem hér hafa farið fram um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir lagði hann á s.l. vetri fyrir fjvn., tillögur sjóðsstjórnarinnar um framlög á 5 ára áætlun samkv. frv., en eins og stendur í 13. gr. frv. gerir ráðh. í samráði við fjvn. og stjórn sjóðsins áætlun til 5 ára um framkvæmdir. Það kom í ljós, þegar þessi tillaga sjóðsstjórnar kom á borð fjvn., að menn höfðu ekki gert ráð fyrir hvernig þessi tillaga væri byggð upp og ekki hvað síst urðu menn hugsi þegar um var að ræða tillögu sem var hér sett fram í fyrsta sinn og þess vegna mátti gera ráð fyrir að það þyrftu að fylgja henni miklu fleiri skýringar og ráðrúm til að skoða málið niður í kjölinn þar sem þessar framkvæmdir lágu ekki ljóst fyrir í öllum atriðum. Það var beðið um aths. frá fjvn. og tíminn var skammur þannig að ekki gafst ráðrúm til að ræða þetta til hlítar. Ég vil aðeins taka undir að vissulega stakk það í augu að tvö kjördæmi landsins voru ekki inni í myndinni í næstu 5 ár, þó að framkvæmdir þar væru vissulega undirbúnar og væri þörf á þeim eins og annars staðar.

Ég vil skýra frá því að ég skrifaði heilbr.- og trmrn. samkv. ósk þess um framkvæmdir sem í aðalatriðum áttu við um Vesturland, en þó kom ég inn á afstöðu mína til málsins í heild. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp úr þessu, en ég vil taka það fram, að einmitt vegna þessarar aths. varð að leiðrétta að nokkru framlag til Vesturlands — þó að það væri lítil upphæð var þó sýnd viðleitni — bæði fyrir Borgarnes og Stykkishólm.

„Afstaða mín til þessa máls er sú, að ég tel að öll kjördæmi landsins eigi að vera inni í slíkri áætlun, þ.e. framkvæmdaáætlun sem þarna kemur fram, þar sem augljóst er að alls staðar er knýjandi þörf og framkvæmdir fyrirhugaðar eða eru í gangi í öllum kjördæmum. Ég get fallist á vissan forgang fjármagns úr sjóðnum til byggingar á sjúkrastofnunum, t.d. B-álmu í Reykjavík. — Ég tel það nauðsyn — og hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. En ég tel að þessi tillaga um framkvæmdaáætlun taki alls ekki nægjanlegt tillit til ákvæða 7. gr. reglugerðar um hlutverk sjóðsins, sbr. tölul. 2, vegna framkvæmda sveitarfélaga. Ég tel að sveitarfélög, sem ekki eru í beinum tengslum við sjúkrahús, en eru að leysa þessi vistunarmál aldraðra með byggingu sameiginlegra íbúða með þjónustuaðstöðu og í tengslum við heilsugæslustöð á staðnum, eigi að hafa aðgang að fjármagni úr sjóðnum.“

Þetta er í megindráttum það sjónarmið sem ég tel að sé eðlilegt að fram komi við meðhöndlun þessa máls. En ég vil undirstrika þá skoðun mína, að ég tel að það sé mjög mikilvægt að stjórn Framkvæmdasjóðsins og viðkomandi ráðh. nái sem víðtækastri samstöðu um þetta mikilvæga mál, þ.e. 5 ára áætlun, sem er nokkuð langt fram í tímann, um ráðstöfun þessa fjármagns, sem allir eru vonandi sammála um að sé eðlilegt að verði til. Þess vegna tel ég að það sé ákaflega brýnt að ráðh. hverju sinni hafi sem nánast samstarf við fjvn., sem er þó allavega skipuð fulltrúum úr öllum flokkum og öllum landshlutum, til þess að fyrirbyggja deilur um þetta fjármagn, því að víð hljótum að vera sammála um að nýta það á skynsamlegan hátt og að þessi jöfnuður náist eins og mögulegt er þannig að allir eigi vissan aðgang að þessu fjármagni.

Ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur sem hér hafa komið upp, en það er eðlilegt að menn verði undrandi þegar þeir sjá þessa till. — Ekki á því, að aðalfjármagnið fari til að ljúka hinum mikilvægu framkvæmdum við sjúkrastofnanir hér á höfuðborgarsvæðinu, eins og B-álmuna og- hjúkrunarheimilið í Kópavogi, heldur hinu, að í næstu 5 ár eigi fjármagn ekki að koma til vissra kjördæma í landinu. Það er eðlilegt að menn horfi á það. En ég vil undirstrika nauðsyn þess, að þess sé gætt að reyna að ná sem víðtækastri samstóðu um slíka áætlunargerð. Það er hægt þar sem ákvæði er í lögum um að það skuli hafa samráð við fjvn. Ég tel að á það hafi ekki reynt eins mikið og nauðsyn ber til við þessa fyrstu tillögugerð. Ég vil taka það fram, að ég tel að hún eigi aðeins við árið 1982 og það eigi eftir að fjalla nánar um úthlutun á þessu fjármagni næstu 4 ár. Þess vegna tel ég að þær reglur sem undirritaðar voru í gær hefði átt að ræða a.m.k. við fjvn. áður en gengið var frá þeim.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði fyrr, að ég er sammála því að þetta frv. fái greiðan framgang hér í þinginu. Við erum væntanlega efnislega sammála um frv. og tilgang þess og nauðsyn þess að það geti komið til framkvæmda um næstu áramót. Það skulu vera mín lokaorð.