02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

Þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það var tilkynnt hér í gær að í dag væri líklegt — eða a. m. k. ráðgert að tvö stórvægileg mál kæmu hér til umfjöllunar og afgreiðslu. Annað er þetta svokallaða hvalfriðunarmál, hitt eru brbl. ríkisstj. sem við Alþfl.- menn erum búnir að vera reiðubúnir að standa að afgreiðslu á síðan í fyrri viku. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að við fáum að fjalla um þessi mál og afgreiða þau og ónauðsynlegar tafir verði ekki gerðar í þessu sambandi.

Mér datt það í hug, þegar ég hlustaði á hæstv. forsrh. lýsa afstöðu ríkisstj. og þeim mótmælum sem frá henni hafa komið, að hér niðri í anddyri Alþingishússins hangir málverk mikið af þjóðfundinum 1851. Þá var tekin sú afstaða gegn yfirgangi erlends valds sem fræg er orðin með orðunum „Vér mótmælum allir“. Niðurstaða ríkisstj. virðist vera sú: „Vér mótmælum allir — eða þannig sko.“ — [Fundarhlé.]